Yoon Suk-yeol (hangúl: 윤석열; hanja: 尹錫悅; f. 18. desember 1960) er suður-kóreskur stjórnmálamaður og fyrrverandi saksóknari sem er núverandi forseti Suður-Kóreu. Hann vann nauman sigur í forsetakosningum landsins í mars árið 2022. Áður var Yoon ríkissaksóknari Suður-Kóreu frá 2019 til 2021. Sem saksóknari átti Yoon þátt í því að fá fyrrum forsetann Park Geun-hye dæmda seka fyrir valdníðslu.[1]
Bakgrunnur
Yoon er fæddur og uppalinn í Seúl. Árið 1979 útskrifaðist hann úr Chungam-menntaskólanum í borginni. Hann útskrifaðist með gráðu í lögfræði frá Þjóðarháskólanum í Seúl árið 1979. Hann var síðan í framhaldsnámi við skólann og útskrifaðist með mastersgráðu frá lagadeild hans árið 1988. Yoon hlaut lögmannsréttindi árið 1991.
Starfsferill
Frá 1994 til 2001 vann Yoon við skrifstofu héraðssaksóknaranna í Daegu, Seúl og Busan.
Árið 2008 varð Yoon yfirsaksóknari undirdeildar héraðssaksóknarans í Daejon í Nonsan. Frá 2009 til 2011 vann hann hjá skrifstofu aðalsaksóknara suður-kóreska dómsmálaráðuneytisins.[2]
Árið 2013 varð Yoon leiðtogi á skrifstofu héraðssaksóknara Suwon í Yeoju og hafði þar umsjón yfir sérstakri rannsókn á ólögmætum aðgerðum suður-kóresku leyniþjónustunnar til að hafa áhrif á almenningsálit.[2] Frá 2014 til 2016 vann Yoon hjá embættum aðalsaksóknaranna í Daegu og Daejeon.[2]
Frá árinu 2016 stýrði Yoon sérstakri rannsókn á spillingarhneyksli sem tengdist forsetanum Park Geun-hye. Málið leiddi til þess að Park var ákærð og svipt embætti. Árið 2017 fékk Yoon umsjá með skrifstofu saksóknarans í Seúl.[2]
Árið 2019 varð Yoon ríkissaksóknari Suður-Kóreu. Hann sagði af sér úr því embætti í mars árið 2021.[2]
Í kosningabaráttunni hafði Yoon höfðað til ungra karlmanna sem telja að ekkert kerfisbundið kynjamisrétti viðgangist í Suður-Kóreu. Meðal annars hafði Yoon lofað að leggja niður ráðuneyti kynjajafnréttis- og fjölskyldumála ef hann næði kjöri. Hann kvaðst jafnframt vilja endurstilla samskiptin við Norður-Kóreu og Kína og auka samstarf við Bandaríkin.[6] Í aðdraganda kosninganna hafði Yoon sagst vilja rannsaka embættisfærslur fráfarandi forsetans Moon Jae-in en í sigurræðu sinni á kosninganótt dró hann nokkuð úr þeim fyrirætlunum og hvatti til einingar meðal landsmanna.[7]
Yfirlýsing herlaga 2024
Þann 3. desember 2024 lýsti Yoon óvænt yfir herlögum í Suður-Kóreu. Í sjónvarpsávarpi vísaði hann til þess að ákvörðunin væri nauðsynleg til að verja landið fyrir kommúnistaógn frá Norður-Kóreu og til að uppræta öfl sem beint væri gegn ríkinu. Yoon tilgreindi ekki til hvaða ráðstafana yrði gripið með herlögunum en talið er að þau hafi í reynd átt að beinast gegn stjórnarandstöðunni innanlands, sem er í meirihluta á suðurkóreska þinginu og hafði hafnað fjárlagafrumvarpi forsetans.[8]
Bæði Þjóðaraflsflokkurinn, flokkur Yoons, og Lýðræðisflokkurinn, sem fer með meirihluta á þinginu, mótmæltu yfirlýsingu Yoons og sögðu herlögin ekki standast stjórnarskrá.[9] Stuttu eftir yfirlýsingu Yoons komu þingmenn saman í þinghúsinu í Seúl og samþykktu að ógilda herlögin með öllum greiddum atkvæðum.[10] Almenningur fjölmennti jafnframt fyrir utan þinghúsið til að mótmæla herlögunum en suðurkóreski herinn lýsti því yfir að herlögin yrðu í gildi þar til forsetinn segði annað.[11] Að endingu lét Yoon undan þrýstingi mótmælenda og þingmanna og dró herlögin til baka.[12]
Í kjölfar útspils Yoons bárust kröfur bæði frá stjórnarflokknum og stjórnandstöðunni um að hann segði af sér.[13]Vantrauststillaga gegn Yoon var borin upp á þingi þann 4. desember og hann sakaður um að hafa brotið gegn stjórnarskrá og lögum landsins. Þingið vændi hann um að hafa lýst yfir herlögum til að komast undan rannsókn á meintu ólöglegu athæfi hans og fjölskyldu hans.[14] Þann 14. desember samþykkti þingið að kæra Yoon til embættismissis. Yoon veik því til hliðar úr embætti forseta á meðan stjórnlagadómstóll Suður-Kóreu tekur ákvörðun um hvort hann verði varanlega sviptur embætti. Forsætisráðherrann Han Duck-soo gegnir forsetaembættinu í millitíðinni.[15]