Tawakkol Abdul-Salam Karman (f. 7. febrúar 1979) er jemenskur blaðamaður, stjórnmálamaður og mannréttindafrömuður. Hún leiðir samtök Blaðakvenna án hlekkja, sem hún tók þátt í að stofna árið 2005. Karman var sæmd friðarverðlaunum Nóbels árið 2011 ásamt Ellen Johnson Sirleaf og Leymah Gbowee fyrir friðsamlega baráttu sína fyrir lýðræði og mannréttindum í Jemen í aðdraganda arabíska vorsins. Karman hefur verið kölluð „járnkonan“, „móðir byltingarinnar“ og „andi jemensku byltingarinnar“.[1]
Æviágrip
Tawakkol Karman tók þátt í því að stofna samtökin Blaðakonur án hlekkja árið 2005 ásamt sjö öðrum blaðakonum. Yfirlýst markmið samtakanna var að greiða veg mannréttinda, „sér í lagi skoðana- og tjáningarfrelsis og lýðræðisréttinda“.[2] Frá árinu 2006 var Karman hávær gagnrýnandi forseta Jemens, einræðisherrans Ali Abdullah Saleh, og lenti oft í kast við yfirvöld vegna andófsaðgerða sinna.[1]
Karman sat frá árinu 2007 til 2011 í ráðgjafarráði stjórnmálaflokksins Al-Islah,[3] sem er systurflokkur íslamistasamtakannaBræðralags múslima. Karman hefur neitað því að bræðralagið sé afturhaldssamt, líkt og það er gjarnan sakað um að vera. Hún hefur bent á að í Jemen séu allir flokkar íslamskir og að nauðsynlegt sé að berjast gegn afturhaldssamari trúartúlkunum þeirra innan frá.[4]
Í byrjun arabíska vorsins leiddi Karman mótmæli í höfuðborg Jemens, Sana, til þess að sýna mótmælendahreyfingum sem þá voru risnar upp í Túnis og Egyptalandi stuðning.[5] Karman var handtekin á heimili sínu þann 23. janúar árið 2011 vegna mótmæla gegn ríkisstjórn Saleh. Henni var sleppt eftir fjöldamótmæli sem hófust með jemensku jasmínbyltingunni.[1] Eftir að Saleh var steypt af stóli í jasmínbyltingunni og áður en borgastyrjöldin í Jemen hófst árið 2015 lagði Karman áherslu á mikilvægi þess að byggja upp ríki þar sem „jafnrétti, réttlæti, góð stjórnun, mannréttindi, lýðræði, friður og lögmál réttarríkisins“ væru höfð að leiðarljósi. Í því millibilsástandi sem ríkti í Jemen eftir fall Saleh jókst tjáningarfrelsi í Jemen talsvert og Karman taldi það helsta ávinninginn af baráttunni. Jafnframt jókst þátttaka kvenna í stjórnmálum og áhersla á hefðbundin kynhlutverk kvenna minnkaði þar sem þátttaka kvenna hafði skipt sköpum í mótmælunum sem steyptu stjórn Saleh.[4]
Karman var sæmd friðarverðlaunum Nóbels árið 2011 ásamt Ellen Johnson Sirleaf og Leymah Gbowee fyrir störf sín í þágu friðar og mannréttinda í Jemen. Þegar hún frétti af ákvörðun Nóbelsnefndarinnar um að sæma hana verðlaununum var Karman stödd í mótmælendabúðum á Torgi breytinga í Sana. Karman var fyrsta arabíska konan sem hlaut Nóbelsverðlaunin og þegar hún hlaut friðarverðlaunin var hún jafnframt yngsti handhafi þeirra frá upphafi.[4][1] Síðan þá hafa Nóbelsverðlaunahafarnir Malala Yousafzai og Nadia Murad slegið aldursmet hennar.
Karman kom til Íslands í október árið 2017 og flutti fyrirlestur á Höfða friðarsetri þar sem hún fjallaði um ástandið í Jemen eftir að borgarastyrjöld braust þar út árið 2015.[6] Þann 4. febrúar árið 2018 sakaði Karman stjórnvöld Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna um að heyja innrásarstríð gegn Jemen með því að nota borgarastyrjöldina sem tylliástæðu. Ummæli hennar ollu því að hún var rekin úr stjórnmálaflokki sínum.[7] Hún ítrekaði ummæli sín stuttu síðar og ásakaði hernaðarbandalag Sáda um að hafa notfært sér uppreisn Húta í Jemen til þess að hertaka landið og ná stjórn á forsetanum.[8]