Jafnaðarmannaflokkur Þýskalands (Sozialdemokratische Partei Deutschlands eða SPD á þýsku) er þýskur stjórnmálaflokkur. Flokkurinn var stofnaður árið 1863 og er því elsti starfandi stjórnmálaflokkur í Þýskalandi. Auk þess er flokkurinn eini starfandi flokkur sambandslýðveldisins Þýskalands sem var til í svipaðri mynd fyrir seinni heimsstyrjöldinna. Ásamt Kristilega demókrataflokknum er Jafnaðarmannaflokkurinn fjölmennasti stjórnmálaflokkur landsins og telur til sín um 404.000 meðlimi. Eftir seinna stríð var flokkurinn lengi eini stóri vinstriflokkurinn í landinu en þetta breyttist með stofnun flokksins Die Linke, sem hneigist lengra til vinstri.
Söguágrip
Lýðræðisleg jafnaðarstefna í Þýskalandi á sér uppruna í marsbyltingunni árið 1848 en hún þróaðist mjög á tíma þýska keisaraveldisins. Flokkurinn átti erfitt uppdráttar á fyrstu árum sínum því íhaldssamari flokkar settu árin 1878 og 1890 andsósíalísk lög sem bönnuðu starfsemi sósíaldemókratískra hreyfinga. Flokknum tókst engu að síður að hljóta flest atkvæði allra flokka í kosningum ársins 1912 en fékk ekki að mynda eigin ríkisstjórn fyrr en eftir fall þýska keisaraveldisins og stofnun Weimar-lýðveldisins árið 1918. Uppgangur þýska kommúnistaflokksins og efnahagskreppan sem skók heiminn á fjórða áratugnum hjó á vinsældir Jafnaðarmanna. Jafnaðarflokkurinn var eini flokkurinn sem greiddi atkvæði gegn neyðarlögunum árið 1933 sem veittu Adolf Hitler einræðisvald. Jafnaðarmönnum tókst þó ekki að koma í veg fyrir valdatöku nasista. Nasistarnir bönnuðu starfsemi Jafnaðarmannaflokksins, ofsóttu meðlimi hans og settu suma þeirra í fyrstu útrýmingarbúðir sínar. Margir fyrrum meðlimir flokksins tóku þátt í andspyrnuhreyfingum gegn nasistastjórninni.
Eftir seinni heimsstyrjöldina var lýðræði endurreist í Vestur-Þýskalandi og Jafnaðarmenn náðu fyrri stöðu sinni sem eitt helsta stjórnmálaafl landsins. Í Austur-Þýskalandi voru Jafnaðarmenn hins vegar þvingaðir til að sameinast Kommúnistaflokknum og mynda með með honum Sósíalíska einingarflokkinn. Að nafninu til átti einingarflokkurinn að vera samfylking þýskra vinstriafla en í reynd varð hann aðeins framhald af Kommúnistaflokknum undir öðru nafni þar sem raddir hófsamari jafnaðarmanna hlutu engan hljómgrunn. Austur-Þýskaland var flokksræði einingarflokksins til ársins 1990.
Í Vestur-Þýskalandi var Jafnaðarmannaflokkurinn lengi í stjórnarandstöðu og komst ekki aftur í ríkisstjórn fyrr en árið 1972 á kanslaratíðum Willy Brandt og Helmut Schmidt. Jafnaðarmenn sátu við stjórn Þýskalands til ársins 1982 en eyddu síðan 20 árum í stjórnarandstöðu vegna innanflokksdeilna. Gerhard Schröder vann þingkosningar fyrir flokkinn árið 1998 með miðjusinnuðum stefnumálum og setti árið 2003 hin umdeildu „Agenda 2010“-lög sem drógu mjög úr ríkisútgjöldum til velferðarmála. Enginn einhugur var meðal Jafnaðarmanna um þessi lög og margir vinstrisinnaðari flokksmeðlimirnir sögðu sig í kjölfarið úr flokknum og stofnuðu árið 2007 vinstriflokkinn Die Linke. Enn hefur Jafnaðarmannaflokkurinn ekki markað afgerandi stefnu vegna ágreinings milli vinstri- og miðjusinnaðari meðlima sinna.
Flokkurinn hlaut stöðugt betri kosningar frá sjötta áratugnum fram á þann áttunda en fylgi hans staðnaði frá 1970 til 2000. Flokkurinn hefur beðið fylgishrun síðasta áratuginn. Flokkurinn hefur sögulega sótt mest fylgi sitt til verkamanna en sækir nú fremur fylgi til hærra launaðra og til opinberra starfsmanna. Í héraðsstjórnum nýtur flokkurinn meira fylgis í vesturhluta Þýskalands og stýrir sjö ríkjum sambandsríkisins af sextán.
Jafnaðarmannaflokkurinn rétti óvænt nokkuð úr kútnum í þingkosningum árið 2021, þar sem hann varð stærsti flokkurinn á þingi í fyrsta sinn frá árinu 2002 með um 25,7 prósent atkvæða.[2] Velgengni þeirra var rekin til óvæntra vinsælda kanslaraefnis flokksins, Olafs Scholz, sem naut mikils stuðnings Þjóðverja sem eftirmaður Angelu Merkel á kanslarastól.[3] Í kjölfar kosninganna mynduðu jafnaðarmenn nýja ríkisstjórn ásamt Græningjum og Frjálsum demókrötum með Scholz sem kanslara.[4]
Leiðtogar Jafnaðarmannaflokksins
Leiðtogar Jafnaðarmannaflokksins frá því eftir seinna stríð hafa verið: