Nationalsozialistische Deutsche Arbeiterpartei (þýska; Þjóðernissósíalíski þýski verkamannaflokkurinn eða Þjóðernisjafnaðarstefnuflokkurinn), betur þekktur sem Nasistaflokkurinn, var stjórnmálaflokkur í Þýskalandi sem var virkur frá 1920 til 1945. Forveri hans, Þýski verkamannaflokkurinn (Deutsche Arbeiterpartei eða DAP), var til frá 1919 til 1920. Orðið nasisti á rætur sínar að rekja til þýska orðsins Nazi, sem er stytting á Nationalsozialist.
Annar meðlimur Íhaldsbyltingarhreyfingunnar, Oswald Spengler, setti fram hugmynd um „prússneska jafnaðarstefnu“ sem var áhrifamikil meðal nasista. Flokkurinn var stofnaður í þeim tilgangi að laða fólk frá kommúnisma að þjóðernishyggju. Í upphafi einbeitti flokkurinn sér að áróðri gegn stórfyrirtækjum, borgarastéttinni og kapítalisma en seinna var dregið úr þeim áherslum til að fá stuðning iðnjöfra. Fyrir fjórða áratuginn hafði stefna flokksins breyst og var meiri áhersla lögð á gyðingahatur og andstöðu við marxisma.
Til að halda ímynduðum hreinleika og styrk „aríanna“ uppi reyndu nasistar að útrýma ákveðnum „úrkynjuðum“ og „andfélagslegum“ hópum eins og gyðingum, samkynhneigðum, rómafólki, svörtu fólki, fötluðum, vottum Jehóva og pólitískum mótherjum. Ofsóknir náðu hámarki með Helförinni þegar þýska ríkið fyrirskipaði kerfisbundin morð á um það bil sex milljón gyðingum og fimm milljónum annarra úr fyrrnefndu hópunum.