Nasismi

Adolf Hitler með hakakrossinn, tákn nasismans, á upphandleggnum.

Nasismi eða þjóðernisjafnaðarstefna er sú skoðun, að þjóðir skipti meginmáli, vilji þeirra og þróttur. Jafnaðarmenn hafi rangt fyrir sér um það, að mannkynið greinist í stéttir, sem hafi ólíka hagsmuni. Í stað þess að leggja kapítalismann niður eigi að beita honum til að efla vöxt og viðgang þjóðanna. Ríkið eigi ekki að láta atvinnulífið afskiptalaust, eins og frjálshyggjumenn 19. aldar hafi hugsað sér, heldur stýra því styrkri hendi. Þótt nasistar hafi þannig kennt sig í senn við þjóðerni og jöfnuð var eiginlegur jöfnuður þjóða þó ekki stefnumál þeirra, heldur trúðu þeir á yfirburði hvíta kynstofnsins, Aría, sem þeir töldu rétthærri öðrum þjóðum. Stefna Nasistaflokksins var að tryggja hvíta kynstofninum, einkum þýsku þjóðinni, heimsyfirráð og aukið landrými með því að ryðja burt þjóðunum austan Þýskalands. Gyðingar voru að mati nasista stærsta ógnin við aríska kynstofninn.

Í Þýskalandi náðu nasistar völdum 1933 og héldu þeim til loka heimsstyrjaldarinnar 1945. Nefndist flokkur þeirra „Nationalsozialistische Deutsche Arbeiterpartei“ (Þjóðernissósíalíski þýski verkamannaflokkurinn — stundum nefndur Þjóðernisjafnaðarmannaflokkurinn), skammstafað NSDAP. Er orðið „nasisti“ runnið þaðan. Flokkar með svipaða stefnu höfðu völdin víða í Evrópu á millistríðsárunum, 1918-1939. Þótt nasistar hafi sjálfir kennt sig við jafnaðarstefnu eða sósíalisma, er alla jafna gerður greinarmunur þar á og í yfirlitsritum um stjórnmálastefnur er nasismi sjaldnast talinn með jafnaðarstefnum. Nasistar kynntu málstað sinn sem samruna ólíkra stefna en meirihluti fræðimanna telur nasisma til öfgahægristefna. Flokkur þjóðernissinna starfaði á Íslandi á fjórða áratug 20. aldar.

Tengt efni

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.