Paul von Hindenburg komst fyrst í sviðsljósið, og öðlaðist frægð sem þýsk þjóðhetja, eftir að hafa leitt Þjóðverja til sigurs gegn Rússum í orrustunni við Tannenberg árið 1914, ásamt Ludendorff hershöfðingja. Árið 1916 var hann skipaður æðsti yfirmaður þýska keisarahersins (þýska: Großer Generalstab) á meðan Ludendorff var gerður að aðstoðarmanni hans, sem birgðastjóri þýska hersins (þýska: Erster Generalquartiermeister). Þangað til stríðinu lauk í nóvember árið 1918 með ósigri Þjóðverja, leiddu Hindenburg og Ludendorff stríðsátak Þjóðverja í fyrri heimsstyrjöldinni, og var þá um eiginlega herforingjastjórn að ræða. Vilhjálmi 2. Þýskalandskeisara var ýtt til hliðar og hann hafði lítið að segja um framgöngu stríðsrekstursins.
Eftir að þýska keisaraveldið leið undir lok í kjölfar ósigursins í stríðinu, og Weimar-lýðveldinu var komið á laggirnar í nóvemberbyltingunni 1918-1919, gerðist Hindenburg virkur í þýskum stjórnmálum. Hann bauð sig fram til forseta í forsetakosningunum árið 1925, og var kosinn forseti Þýskalands til sjö ára.[2] Ludendorff hafði einnig boðið sig fram í sömu kosningunum, en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Hindenburg með aðeins 1,1% atkvæða. Í forsetakosningunum árið 1932 var Hindenburg endurkjörinn, en nasistaforinginnAdolf Hitler bauð sig einnig fram gegn honum í þeim kosningum, en þurfti að láta í minni pokann.[3]
Hindenburg lést í embætti 2. ágúst árið 1934 úr lungnakrabbameini. Hitler tilkynnti þá að hann myndi taka við forsetaembættinu og gerast þjóðhöfðingi, ásamt því að vera kanslari. Þá tók hann upp formlega titilinn „foringi og kanslari“ Þýskalands (þýska: Führer und Reichskanzler), og gerðist endanlega einvaldur í Þýskalandi.
↑Christoph Wagner, Entwicklung, Herrschaft und Untergang der nationalsozialistischen Bewegung in Passau 1920 bis 1945, Frank & Timme GmbH, 2007, bls. 50.