Réttsælis ofan frá: Sviðin jörð eftir sprengjuárásir í orrustunni við Somme, skriðdrekar á leið yfir Hindenburg-línuna, skipið HMS Irresistible sekkur eftir að hafa rekist á sprengju í Dardanellasundi, breskir skotliðar með gasgrímur í orrustunni við Somme, þýskar herflugvélar.
Fyrri heimsstyrjöldin (sem nefnt var heimsstríðið fyrir seinni heimsstyrjöldina) var mannskætt stríð sem geisaði í Evrópu í fjögur ár. Stríðið hefur verið nefnt „stríðið mikla“ og „stríðið sem enda átti öll stríð“. Sá atburður sem miðað er við að marki upphaf stríðsins var morðið á Frans Ferdinand erkihertoga og ríkisarfa Austurríkis í Sarajevó þann 28. júní1914. Átök hófust í ágúst 1914 og breiddust hratt út. Þegar upp var staðið lágu um tíu milljónir manna í valnum, um tuttugu milljónir höfðu særst og ótal manns misst heimili sín og lifibrauð. Stríðinu lauk með uppgjöf Þjóðverja11. nóvember1918. Að stríðinu loknu funduðu fyrrum fjandmenn í Versölum í Frakklandi þar sem Versalasamningurinn var gerður.
Flestar orrustur í fyrri heimsstyrjöldinni voru háðar á vesturvígstöðvunum, lengst af í formi skotgrafahernaðar en á milli andstæðra skotgrafa var svokallað „einskis manns land“. Skotgrafirnar náðu allt frá Norðursjó að landamærum Sviss. Á austurvígstöðvunum komu víðáttur Austur-Evrópu og takmarkaðar járnbrautir í veg fyrir langvarandi skotgrafahernað og ollu meiri hreyfanleika víglínanna. Einnig voru háðar orrustur á hafi og neðansjávar með kafbátahernaði og í fyrsta sinn í lofti. Meira en níu milljónir hermanna létu lífið í orrustum og milljónir óbreyttra borgara fórust.
Stríðið olli því að tvö ríki liðuðust í sundur og tvö önnur keisaradæmi liðu undir lok: Austurríki-Ungverjaland og Ottómanveldið liðuðust í sundur og Þýska keisaradæmið og Rússneska keisaradæmið liðu undir lok. Þýskaland glataði öllu veldi sínu utan Evrópu og ný ríki urðu til, svo sem Tékkóslóvakía, Eistland, Lettland, Litháen, Finnland, Pólland og Júgóslavía.
Orsakir stríðsins
Þann 28. júní1914 skaut Gavrilo PrincipFranz Ferdinand, erkihertoga Austurríkis-Ungverjalands og erfingja krúnunnar, og eiginkonu hans Sophie Chotek til bana í Sarajevo. Princip var meðlimur í þjóðernissinnuðu samtökunum Ung Bosnía, sem höfðu það á stefnuskrá sinni að sameina alla Suður-Slava í einu ríki, sjálfstæðu og óháðu Austurríki-Ungverjalandi. Morðið í Sarajevo hratt af stað atburðarás sem stigmagnaðist og leiddi til stríðs. Morðið var tilefni stríðsins en raunverulegar orsakir þess voru aftur á móti margvíslegar og flóknar.
Vopnakapphlaup
Spennan jókst í vopnakapphlaupi breska og þýska flotans árið 1906 þegar HMS Dreadnought var hleypt af stokkunum. Dreadnought var byltingarkennt orrustuskip sem gerði eldri orrustuskip úrelt. (Breski flotinn hélt alltaf forystu sinni gagnvart þeim þýska.) Sagnfræðingurinn Paul Kennedy hefur bent á að báðar þjóðirnar hafi trúað á kenningu Alfred Thayer Mahan um að yfirráð á hafi væru sérhverju stórveldi ómissandi.
Sagnfræðingurinn David Stevenson lýsti vopnakapphlaupinu sem „vítahring síaukinnar stríðsgetu“.
Flotastyrkur veldanna árið 1914
Land
Herafli
Fjöldi stórra herskipa
Tonn
Rússland
55.000
4
348.000
Frakkland
67.000
10
731.000
Bretland
209.000
29
2.205.000
Alls
331.000
43
3.264.000
Þýskaland
79.000
17
1.019.000
Austurríki-Ungverjaland
16.000
3
249.000
Alls
95.000
20
1.268.000
Heimild: Ferguson (1999): 85
Áætlanir, vantraust og herkvaðning
Margir stjórnmálafræðingar og sagnfræðingar telja að hernaðaráætlanir Þýskalands, Frakklands og Rússlands hafi magnað upp átökin. Fritz Fischer hefur auk annarra lagt áherslu á Schlieffen-áætlunin, sem var megináætlun Þýskalands ef Þýskaland stæði frammi fyrir stríði gegn Frakklandi og Rússlandi samtímis, hafi í eðli sínu verið mjög ögrandi. Stríð á tveimur vígstöðvum þýddi að Þýskaland yrði að sigra annan andstæðinginn fljótt áður en ráðist yrði gegn hinum og að tíminn væri naumur til þess. Hún fól í sér öfluga sókn á hægri vængnum til þess að hertaka Belgíu og lama franska herinn með því að koma honum í opna skjöldu.
Að svo búnu myndi þýski herinn hraða sér til austurs með járnbrautarlestum og mala þar svifaseinni her Rússa.
Áætlanir Frakka, áætlun XVII, gerði ráð fyrir innrás í Ruhr dalinn, iðnaðarhérað Þýskalands, með það að augnamiði að svifta Þýskaland getunni til að heyja stríð.
Endurskoðuð áætlun Rússa, áætlun XIX, gerði ráð fyrir árásum bæði á Austurríki-Ungverjaland og Þýskaland.
Áætlanir allra þriggja sköpuðu órólegt andrúmsloft taugaveiklunar þar sem herforingjar voru ákafir að ná frumkvæðinu og vinna afgerandi sigra. Nákvæmar áætlanir voru gerðar með nákvæmum tímatöflum. Herforingjar jafnt sem stjórnmálamenn skildu að um leið og boðin bærust væri lítill sem enginn möguleiki á að snúa aftur því þar með væri mikið forskot glatað.
Enn fremur ætti ekki að vanmeta samskiptavandann árið 1914. Allar þjóðirnar notuðu enn símskeyti og sendiherra sem meginleið til samskipta. Boð gátu því tafist klukkustundum og jafnvel dögum saman.
Hernaðarhyggja og sjálfræði
Woodrow Wilson forseti Bandaríkjanna kenndi hernaðarhyggju um stríðið. Hugmyndin var sú að yfirstéttin og hernaðarelítan væri of valdamikil í Þýskalandi, Rússlandi og Austurríki-Ungverjalandi og að stríðið væri afleiðing af löngun þeirra eftir hernaðarmætti og fyrirlitningu þeirra á lýðræði. Þetta var meginstef í áróðrinum gegn Þýskalandi, sem varpaði afar neikvæðu ljósi á Vilhjálm II keisara og prússneska hernaðarhefð. Fylgjendur þessarar kenningar kröfðust því afsagnar slíkra þjóðhöfðingja, afnáms stéttakerfisins og endaloka hernaðarhyggjunnar — allt réttlætti þetta bandarísk afskipti af stríðinu um leið og Rússland dró sig í hlé úr stríðinu og yfirgaf bandamenn.
Wilson vonaði að Þjóðabandalagið og almenn afvopnun myndi tryggja varanlegan frið. Hann viðurkenndi einnig að afbrigði hernaðarhyggjunnar lifðu góði lífi innan breska og franska stjórnkerfisins.
Hagfræðileg heimsvaldsstefna
Vladimír Lenín hélt því fram að heimsvaldsstefnan væri ástæða stríðsins. Í þessu studdust hann við hagfræðiKarls Marx og enska hagfræðingsins Johns A. Hobson, sem hafði áður spáð því að útkoma hagfræðilegrar heimsvaldsstefnu eða ótakmarkaðrar eftirsóknar eftir nýjum mörkuðum myndi leiða til hnattrænna hernaðarátaka.[1] Rök hans fengu þónokkrar undirtektir í upphafi stríðsins og auðvelduðu útbeiðslu marxisma og kommúnisma. Lenín hélt því fram að hagsmunir fjármagnseigenda í hinum ýmsu kapítalísku heimsveldum hefðu ráðið ákvörðunum stjórnvalda og leitt til stríðs.[2]
Stríðandi fylkingar
Miðveldin
Austurríki-Ungverjaland leit á morðið á ríkiserfingjanum, Franz Ferdinand sem ógnun. Þar að auki óttuðust Austurríkis-Ungverjar að Serbar væru að reyna að ýta undir byltingu innan Austurríkis-Ungverjalands og vildu því taka á Serbum áður en til þess kæmi. Þeir gáfu Serbum úrslitakosti sem þeir vissu að væru of kröfuharðir, til þess að egna þá til stríðs. Serbar höfnuðu úrslitakostunum og í kjölfarið lýsti Austurríki-Ungverjaland stríði á hendur Serbíu, þann 28. júlí 1914.
Þýskaland hafði samið við Austurríki-Ungverjaland árið 1883, um samstöðu ef annað ríkið lenti í stríði. Þegar Franz Jósef, keisari Austurríkis-Ungverjalands, bað Þýskaland um stuðning í stríðinu við Serbíu, hét Vilhjálmur 2. Þýskalandskeisari, þeim skilyrðislausum stuðningi, án þess að spyrjast fyrir um markmið eða áætlanir þeirra. Að stríðinu loknu litu bandamenn svo á að þessi skilyrðislausi stuðningur hafi haft úrslitaþýðingu varðandi allsherjarstríð og kenndu því Þjóðverjum um upphaf stríðsins.
Tyrkneska Ottomanveldið átti landamæri að Rússlandi í Kákasus og hafði misst landssvæði á þeim slóðum til Rússanna. Tyrkirnir gerðu því samning við Þjóðverja í ágúst 1914, um að berjast sameiginlega gegn Rússum, með það fyrir augum að vinna til baka af þeim landsvæði. Búlgarar gengu til liðs við miðveldin í október 1915 þegar þeir lýstu stríði á hendur Serbíu. Búlgarar höfðu það að markmiði að vinna landsvæði af Serbum í stríðinu. Auk þessara ríkja börðust nýlendur Þýskalands í Afríku og Asíu með miðveldunum.
Bandamenn
Serbar voru á móti þeim ítökum sem Austurríki-Ungverjaland hafði á Balkanskaganum, og litu í raun á þá sem helstu óvini sína, en Austurríkis-Ungverjar réðu yfir Króatíu, Bosníu og Hersegóvínu og fleiri svæðum. Serbar vildu sameina alla slava á Balkanskaganum í einu ríki, Júgóslavíu, undir sinni forystu. Austurríkis-Ungverjar sökuðu serbnesk yfirvöld um að eiga þátt í morðinu á Franz Ferdinand, en því höfnuðu Serbar og einnig þeim úrslitakostum sem Austurríkis-Ungverjar gáfu þeim.
Eftir stríðsyfirlýsingu Austurríkis-Ungverja reiddu Serbar sig á stuðning Rússa sem höfðu lengi verið bandamenn þeirra. Serbar höfðu beðið Rússa um að standa með sér nokkrum dögum áður en stríðsyfirlýsing Austurríkis-Ungverjalands var birt. Nikulás 2. Rússakeisari gaf þegar fyrirmæli um herútboð og var þá í raun að staðfesta þátttöku Rússlands yfirvofandi stríði. Þjóðverjar litu á þetta sem stríðsyfirlýsingu og urðu á undan Rússum til að lýsa yfir stríði með formlegum hætti, sem þeir gerðu þann 1. ágúst.
Frakkar voru í hernaðarbandalagi með Rússum og því var við því búist, í Þýskalandi, að Frakkland myndi taka þátt í stríðinu. Einnig voru Frakkar enn bitrir yfir ósigri í stríði þeirra við Prússa árið 1871. Þýskir herforingjar töldu að þeir þyrftu að klára stríð við Frakkana áður en þeir gætu tekist á við Rússa, svo þeir myndu ekki þurfa að berjast á tveimur vígstöðvum. Þjóðverjar lýstu yfir stríði á hendur Frökkum þann 3. ágúst.
Bretland lýsti yfir stríði á hendur Þjóðverjum 4. ágúst. Ein ástæða fyrir þátttöku Breta var sú að árið 1839 höfðu þeir lofað að verja hlutleysi Belgíu ef til innrásar kæmi. Þjóðverjar höfðu nú krafið Belga um að leyfa sér að fara inn í landið til þess að ráðast þaðan inn í Frakkland, en Belgar höfnuðu og því réðust Þjóðverjar inn í Belgíu. Einnig var mikilvægt fyrir Breta að halda vináttu við Frakka og Rússa, bæði vegna viðskiptahagsmuna og vegna þess hve erfitt það gæti reynst að verja hin gríðarstóru landflæmi heimsveldisins ef til átaka kæmi við þessi lönd.
Japanir lýstu yfir stríði á hendur Þjóðverjum í ágúst 1914. Japanir litu á stríðið sem tækifæri til að auka áhrif og umsvif sín á meginlandi Asíu og á Kyrrahafinu á kostnað Þjóðverja. Ítalía var fyrir stríðið í hernaðarbandalagi með Þýskalandi og Austurríki-Ungverjalandi, en kaus engu að síður að vera hlutlaus þegar stríðið braust út. Árið 1915 sömdu Ítalir svo við bandamenn um að berjast með þeim í stríðinu. Ítalía réðst gegn Austurríki-Ungverjalandi með það fyrir augum að leggja undir sig ítölsku-mælandi héruð landsins. Bandaríkin voru hlutlaus fram til 1917 en gengu til liðs við bandamenn 6. apríl það ár, m.a. vegna þess að Þjóðverjar höfðu þá sökkt sjö bandarískum kaupskipum. Rúmenía, Portúgal, Svartfjallaland, Grikkland, Armenía, Kína og Brasilía börðust einnig með bandamönnum auk nýlendna Breta og Frakka víðsvegar um heiminn. Fjölmörg önnur ríki lýstu yfir stríði á hendur Miðveldunum eða slitu stjórmálasambandi við þau.
Frekari fróðleikur
Coffman, Edward M., The War to End All Wars: The American Military Experience in World War I (1998).
Cruttwell, C.R.M.F., A History of the Great War, 1914-1918 (1934).
Ellis, John og Cox, Mike, The World War I Databook: The Essential Facts and Figures for All the Combatants (2002).
Falls, Cyril, The Great War (1960).
Fussell, Paul, The Great War and Modern Memory (1975).
Gray, Edwyn A., The U-Boat War, 1914-1918 (1994).
Haber, L.F., The Poisonous Cloud: Chemical Warfare in the First World War (1986).
Halpern, Paul G., A Naval History of World War I (1995).
Hardach, Gerd, The First World War 1914-1918 (1977).
Henig, Ruth, The Origins of the First World War (2002).
Herwig, Holger H., The First World War: Germany and Austria-Hungary 1914-1918 (1996).
Higham, Robin og Dennis E. Showalter (ritstj.), Researching World War I: A Handbook (2003).
Howard, Michael, The First World War (2002).
Hubatsch, Walther, Germany and the Central Powers in the World War, 1914-1918 (1963).
Joll, James, The Origins of the First World War (1984).
Keegan, John, The First World War (1999).
Kennedy, David M., Over Here: The First World War and American Society (1982).
Kennett, Lee B., The First Air War, 1914-1918 (1992).
Lee, Dwight E. (ritstj.), The Outbreak of the First World War: Who Was Responsible? (1958).
Lyons, Michael J., World War I: A Short History 2. útg. (1999).
Morton, Desmond og Granatstein, J.L., Marching to Armageddon: Canadians and the Great War 1914-1919 (1989).
Pope, Stephen og Wheal, Elizabeth-Anne (ritstj.), The Macmillan Dictionary of the First World War (1995).
Robbins, Keith, The First World War (1993).
Silkin, Jon. (ritstj.), The Penguin Book of First World War Poetry 2. útg. (1997).
Stevenson, David, Cataclysm: The First World War As Political Tragedy (2004).
Stevenson, David, The First World War and International Politics (2005).
Stokesbury, James, A Short History of World War I (1981).
Strachan, Hew, The First World War: Volume I: To Arms (2004).
Taylor, A.J.P., The First World War: An Illustrated History (1963).