H. H. Asquith

Herbert Henry Asquith
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
5. apríl 1908 – 6. desember 1916
ÞjóðhöfðingiJátvarður 7.
Georg 5.
ForveriHenry Campbell-Bannerman
EftirmaðurDavid Lloyd George
Persónulegar upplýsingar
Fæddur12. september 1852
Morley, West Riding of Yorkshire, Englandi
Látinn15. febrúar 1928 (75 ára) Sutton Courtenay, Berkshire, Englandi
StjórnmálaflokkurFrjálslyndi flokkurinn
MakiHelen Melland

(frá 1877 til dauða hennar 1891),

Margot Tennant (frá 1894 til dauða hans 1928)
Börn10, þ. á m. Raymond, Herbert, Arthur, Violet, Cyril, Elizabeth, og Anthony
StarfLögfræðingur, stjórnmálamaður
Þekktur fyrirAð vera forsætisráðherra Bretlands í byrjun fyrri heimsstyrjaldarinnar
Undirskrift

Herbert Henry Asquith, 1. jarlinn af Oxford og Asquith (12. september 1852 – 15. febrúar 1928), yfirleitt kallaður H. H. Asquith, var breskur stjórnmálamaður úr Frjálslynda flokknum sem var forsætisráðherra Bretlands frá 1908 til 1916. Hann var síðasti breski forsætisráðherrann sem fór fyrir meirihlutastjórn Frjálslynda flokksins og hann fór fyrir stórtækum umbótum og lagasetningum um ríkisvelferð. Í ágúst árið 1914 leiddi Asquith Bretland inn í fyrri heimsstyrjöldina en sagði af sér vegna stjórnardeilna í desember árið 1916 og stríðsmálaráðherra hans, David Lloyd George, varð forsætisráðherra í hans stað.

Æviágrip

Faðir Asquiths rak lítið fyrirtæki en lést þegar Asquith var sjö ára. Asquith hlaut menntun í Borgarskóla Lundúna (City of London School) og Balliol-háskóla í Oxford. Hann menntaðist sem lögfræðingur og náði miklum árangri sem slíkur með nokkrum herkjum í byrjun. Árið 1886 var hann kjörinn á þing fyrir Frjálslynda flokkinn í kjördæminu Austur-Fife og sat á þingi fyrir kjördæmið í rúm þrjátíu ár. Árið 1892 varð hann innanríkisráherra í fjórðu ríkisstjórn William Ewart Gladstone og gegndi því embætti þar til Frjálslyndir töpuðu þingkosningum ársins 1895. Asquith reis til hæstu metorða innan flokksins næsta áratug í stjórnarandstöðu og þegar Frjálslyndir komust aftur til valda undir stjórn Sir Henry Campbell-Bannerman árið 1905 varð Asquith fjármálaráðherra. Árið 1908 tók Asquith við af Campbell-Bannerman sem forsætisráðherra og David Lloyd George gerðist fjármálaráðherra.

Í fyrstu meirihlutastjórn þeirra frá því á níunda áratug nítjándu aldar hugðust Frjálslyndir reka stefnu sína með afgerandi hætti. Einn þrándur í götu var hin ókjörna Lávarðadeild þingsins þar sem Íhaldsmenn réðu lögum og lofum. Lloyd George lagði drög að hinum svokölluðu „fjárlögum lýðsins“ og neðri deild þingsins samþykkti þau en lávarðadeildin hafnaði þeim árið 1909. Asquith kallaði til þingkosninga árið 1910 og Frjálslyndir unnu en urðu að mynda minnihlutastjórn.

Lávarðarnir samþykktu fjárlögin að endingu en Asquith var staðráðinn í að koma á umbótum í efri deild þingsins. Eftir þingkosningar ársins 1910 fékk hann lög staðfest sem leyfðu lagafrumvörpum að taka gildi án samþykkis lávarðadeildarinnar ef hún væri þrisvar samþykkt í röð á neðri deild þingsins. Asquith gekk verr að leysa úr vandamálum er snertu írska heimastjórn. Á stjórnartíð hans var mikið ofbeldi í Írlandi svo jaðraði við borgarastyrjöld.

Ákvörðun Asquiths um að ganga inn í fyrri heimsstyrjöldina var ein sú mikilvægasta sem nokkur breskur forsætisráðherra tók á 20. öldinni. Hann tók ákvörðunina með allt Bretland að baki sér og lagði til hliðar deilumál eins og sjálfsstjórn Írlands og kosningarétt kvenna. Asquith átti þátt í fullnaðarsigri Breta í stríðinu með ákvörðunum sínum um vígbúnað breska hersins, með því að senda breskan liðsauka á vesturvígstöðvarnar, með því að safna saman miklum her og með þróun iðnáætlunar til þess að styðja við hernaðarmarkmið ríkisins.

Asquith reyndist þó ekki eins góður í að miðla málum milli ríkisstjórnarmeðlima sinna í stríði og á friðartímum og hann neyddist því til að mynda stjórnarsamstarf við Íhaldsmenn og Verkamenn snemma árs 1915. Mikið varð um ágreining milli þessara þriggja flokka og versnaði óvinskapur þeirra þar sem Asquith tókst ekki að skapa liðsheild í stjórnarsamstarfinu. Óákveðni hans er varðaði hertækni, herkvaðningu og fjármögnun veikti samstarfið enn frekar.[1] Svo fór að Lloyd George lagði á ráðin um að koma Asquith frá völdum og leysti hann af hólmi sem forsætisráðherra í desember árið 1916.

Asquith var áfram formaður Frjálslynda flokksins en honum tókst ekki að leysa úr innanflokksdeilum. Flokkurinn beið brátt fylgishrun og hlaut afhroð í kosningum árið 1918. Asquith hlaut aðalstitil árið 1925 og lést 75 ára að aldri árið 1928. Honum hefur verið hrósað fyrir hlutverk sitt í uppbyggingu bresks velferðarríkis en sagnfræðingar hafa einnig gagnrýnt hann fyrir dræma forystu í byrjun stríðsins og sem flokksformaður frá árinu 1914.

Tilvísanir

  1. Cameron Hazelhurst, "Herbert Henry Asquith" in John P McIntosh, ed. British Prime Ministers in the 20th Century (1977) 105-6


Fyrirrennari:
Henry Campbell-Bannerman
Forsætisráðherra Bretlands
(1908 – 1916)
Eftirmaður:
David Lloyd George