Boris Johnson

Boris Johnson
Boris Johnson árið 2019.
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
24. júlí 2019 – 6. september 2022
ÞjóðhöfðingiElísabet 2.
ForveriTheresa May
EftirmaðurLiz Truss
Utanríkisráðherra Bretlands
Í embætti
13. júlí 2016 – 9. júlí 2018
ForsætisráðherraTheresa May
ForveriPhilip Hammond
EftirmaðurJeremy Hunt
Borgarstjóri Lundúna
Í embætti
4. maí 2008 – 9. maí 2016
ForveriKen Livingstone
EftirmaðurSadiq Khan
Persónulegar upplýsingar
Fæddur19. júní 1964 (1964-06-19) (60 ára)
New York-borg, New York, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBreskur
StjórnmálaflokkurÍhaldsflokkurinn
MakiAllegra Mostyn-Owen (g. 1987; skilin 1993)
Marina Wheeler (g. 1993; skilin 2018)
Carrie Symonds (g. 2021[1][2])
TrúarbrögðEnska biskupakirkjan
Börn5 eða 6
HáskóliOxford-háskóli
AtvinnaStjórnmálamaður, blaðamaður
Undirskrift

Alexander Boris de Pfeffel Johnson betur þekktur sem Boris Johnson (fæddur 19. júní 1964) er breskur stjórnmálamaður og fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. Hann hafði áður verið borgarstjóri Lundúna og utanríkisráðherra Bretlands. Hann er einnig blaðamaður og rithöfundur, var t.d. ritstjóri stjórnmálatímarits The Spectator. Boris var kosinn þingmaður fyrir Henley árið 2001, og var skuggamenntamálaráðherra til ársins 2008 þegar hann bauð sig fram til borgarstjóra Lundúna. Hann var settur inn í starf borgarstjóra þann 4. maí 2008 og gegndi því starfi til ársins 2016 þegar Sadiq Khan tók við af honum.

Johnson var utanríkisráðherra frá 2016 til 2018, þegar hann sagði af sér vegna Brexit-málefna. Eftir að Theresa May tilkynnti afsögn sína úr formannsembætti Íhaldsflokksins í maí 2019 bauð Johnson sig fram til að taka við af henni. Hann vann sigur í formannskjöri flokksins í júlí sama ár og tók við af May sem formaður og forsætisráðherra þann 24. júlí.

Johnson sagði af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins í júní 2022 vegna hneykslismála. Liz Truss tók við af honum sem forsætisráðherra Bretlands þann 6. september 2022.

Æviágrip

Boris Johnson fæddist í New York í Bandaríkjunum og bjó um hríð í Brussel í Belgíu sem barn. Johnson gekk í Eton og Oxford-háskóla og nam þar latínu og gríska fornfræði.[3]

Johnson hóf starfsferil sinn í blaðamennsku og vann lengi sem blaðamaður og sem ritstjóri tímaritsins The Spectator. Hann er einnig höfundur nokkurra bóka, má þar nefna skáldsöguna Seventy-two Virgins (2004) og sagnfræðiverkin The Dream of Rome (2006) og The Churchill Factor (2014). Johnson var rekinn úr fyrsta blaðamannsstarfi sínu hjá The Times fyrir að skálda tilvitnun í frétt sem hann skrifaði.[4] Á blaðamannsferli sínum varð Johnson síðar alræmdur fyrir að semja falsfréttir sem gjarnan voru þó skrifaðar í kímnum tón, sér í lagi um Evrópusambandið.[5] Meðal annars skrifaði hann fréttir þar sem hann hélt því ranglega fram að Evrópusambandið hygðist láta banna breskar kartöfluflögur með rækjukokteilsbragði og skylda aðildarríki sín til að framleiða smokka í staðlaðri hámarksstærð.[6]

Johnson hóf virka þátttöku í breskum stjórnmálum árið 2001 þegar hann var kjörinn í neðri deild breska þingsins fyrir Íhaldsflokkinn í kjördæminu Henley-on-Thames.[3]

Á þessum tíma sat Íhaldsflokkurinn í stjórnarandstöðu og Johnson var skuggamenningarmálaráðherra flokksins í formannstíð Michaels Howard. Árið 2004 var Johnson sviptur því embætti eftir að upp komst að Johnson hafði haldið fram hjá eiginkonu sinni í nokkur ár með greinahöfundinum Petronellu Wyatt og að Wyatt hefði orðið ólétt eftir hann en látið rjúfa meðgönguna.[7] Johnson hafði logið því að Howard og að almenningi að framhjáhaldið hefði aldrei átt sér stað.[8] Þegar David Cameron varð formaður Íhaldsflokksins árið 2005 fékk Johnson aftur sæti í skuggaríkisstjórninni og varð skuggaráðherra æðri menntamála.[3]

Borgarstjóri Lundúna (2008–2016)

Árið 2007 ákvað Johnson að bjóða sig fram í embætti borgarstjóra Lundúna gegn Ken Livingstone, sitjandi borgarstjóra úr Verkamannaflokknum.[9][10] Johnson vann sigur í kosningunum næsta ár og tók við af Livingstone sem borgarstjóri þann 4. maí 2008.[11]

Sem borgarstjóri Lundúna lagði Johnson mikla áherslu á að gera borgina aðgengilegri fyrir reiðhjól. Undir lok borgarstjóratíðar hans árið 2016 hafði 10,3 millj­ón­um reiðhjóla verið komið í umferð á götum borgarinnar í gegnum hjólaleigu borgarinnar. Johnson og fylgismenn hans hafa einnig bent á árangur á sviði af­brota, hús­næðismála og sam­göngu­mála á þessum tíma sem merki um farsæla stjórn hans. Aftur á móti var Johnson gagnrýndur fyrir ýmis mál eins og verulega framúrkeyrslu í kostnaði á byggingu leikvangs fyrir sumarólympíuleikanna 2012. Einnig sætti hann gagnrýni fyrir Garden Bridge-verk­efnið, þar sem 53,5 millj­ón­um punda var varið í fyrirhugaða byggingu göngubrúr yfir Tempsá. Þrátt fyrir allan kostnaðinn var að endingu hætt við verkefnið áður en hafið var að byggja brúna.[3]

Árið 2015 hélt bandaríski forsetaframbjóðandinn Donald Trump því fram að á borgarstjóratíð Johnsons væru stórir hlutar af Lundúnaborg orðnir „bannsvæði“ fyrir lögreglu vegna fjölda meintra íslamskra öfgamanna sem þar héldu til. Johnson brást við með því að saka Trump um „sláandi fávisku“ og kallaði hann óhæfan til að gegna embætti forseta Bandaríkjanna.[12]

Árið 2016 kallaði David Cameron forsætisráðherra til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild BretlandsEvrópusambandinu. Johnson slóst seint í hóp þeirra sem mæltu með útgöngu úr Evrópusambandinu en eftir að hafa tekið þá ákvörðun að styðja útgöngu varð hann einn af helstu talsmönnum hreyfingarinnar.[4] Í kosningabaráttunni var hann stórorður og bar Evrópusambandið meðal annars saman við Þýskaland nasismans og keisaraveldi Napóleons, sem hann sagði hafa stefnt að sömu markmiðum og ESB með vofeiflegum afleiðingum.[5]

Áður en Johnson tilkynnti þátttöku sína í útgönguherferðinni hafði hann skrifað óbirta grein þar sem hann studdi áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu.[13] Þetta hefur leitt til ásakana um að Johnson hafi stutt útgönguherferðina fremur til að geta velt Cameron úr formannssæti Íhaldsflokksins en af sérstakri pólitískri sannfæringu.[14]

Utanríkisráðherra (2016–2018)

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 23. júní 2016 kusu Bretar með naumum meirihluta að yfirgefa Evrópusambandið. Í kjölfarið sagði David Cameron af sér sem formaður Íhaldsflokksins og Johnson bauð sig fram til að taka við af honum sem flokksformaður og forsætisráðherra. Johnson dró hins vegar framboð sitt til baka eftir að Michael Gove, samstarfsmaður hans og annar af helstu foringjum útgönguherferðarinnar, gaf einnig kost á sér í formannskjörinu. Niðurstaðan varð sú að Theresa May var kjörin formaður flokksins og tók við embætti forsætisráðherra þann 13. júlí 2016. May útnefndi Johnson utanríkisráðherra í ríkisstjórn sinni.[15]

Johnson sagði af sér sem utanríkisráðherra þann 9. júlí árið 2018 vegna ósættis með samninga May við Evrópusambandið um það hvernig útgöngu Bretlands úr ESB skyldi háttað.[16][17] Theresa May neyddist til að boða afsögn sína sem formaður Íhaldsflokksins í maí næsta ár eftir að hafa ítrekað mistekist að fá samþykki þingsins fyrir útgöngusamningum sínum við Evrópusambandið. Johnson bauð sig fram til formanns á ný og vann formannskjörið með um tveimur þriðju atkvæða gegn Jeremy Hunt, eftirmanni sínum í embætti utanríkisráðherra.[18] Johnson tók við af May sem formaður og forsætisráðherra þann 24. júlí.

Forsætisráðherra Bretlands (2019–2022)

Johnson ásamt Donald Trump Bandaríkjaforseta árið 2019.

Sem forsætisráðherra lagði Johnson ríka áherslu á að Bretland skyldi yfirgefa Evrópusambandið á tilsettum tíma þann 31. október 2019 hvort sem samningur um framtíðarsamband landsins við ESB næðist eða ekki. Þann 28. ágúst lýsti Johnson því yfir að hann hygðist biðja Elísabetu drottningu að fresta þingfundum breska þingsins í aðdraganda útgöngunnar. Andstæðingar Johnsons gagnrýndu þingfrestunina harðlega og vændu Johnson um að reyna að koma í veg fyrir að þingið fengi neitt um það sagt hvort samningur yrði gerður eða ekki.[19][20][21] Þann 1. september missti Johnson nauman meirihluta sinn í neðri málstofu breska þingsins þegar þingmaðurinn Phillip Lee sagði sig úr Íhaldsflokknum og gekk til liðs við Frjálslynda demókrata í miðri ræðu forsætisráðherrans.[22] Johnson reyndi í kjölfarið að boða til nýrra þingkosninga en þingið hafnaði tillögu hans í tvígang.[23][24]

Þann 11. september 2019 dæmdi skoskur dómstóll þingfrestun Johnsons ólöglega.[25] Hæstiréttur Bretlands staðfesti dóminn þann 24. september næstkomandi og þingið var kallað saman á ný.[26] Johnson tókst eftir samningaviðræður við fulltrúa Evrópusambandsins að ná fram nýjum samningi við ESB um útgönguskilmála Bretlands þann 17. október en Lýðræðislegi sambandsflokkurinn, sem varði minnihlutastjórn Johnsons falli, var fljótur að lýsa yfir andstöðu við samninginn.[27] Þegar atkvæði voru greidd um nýja samninginn á breska þinginu þann 22. október hafnaði þingið tímaáætlun Johnsons, sem gerði ráð fyrir að samningurinn yrði afgreiddur á þremur dögum svo Bretland gæti yfirgefið Evrópusambandið á tilsettum tíma.[28] Fáeinum dögum áður hafði þingið samþykkt frumvarp þess efnis að stjórnin yrði skylduð til að sækja um útgöngufrest ef samningur hefði ekki verið samþykktur fyrir tilsettan útgöngudag.[29] Því neyddist Johnson til að senda Evrópusambandinu beiðni um útgöngufrest[30] þrátt fyrir að hafa áður sagst vilja fremur „liggja dauður í skurði“ en að fresta útgöngunni úr ESB frekar.[31]

Þann 29. október samþykkti breska þingið tillögu Johnsons um að gengið skyldi til nýrra þingkosninga þann 12. desember 2019.[32] Í kosningunum vann Íhaldsflokkurinn stórsigur og hlaut rúman þingmeirihluta í neðri málstofu breska þingsins.[33] Bretland yfirgaf Evrópusambandið formlega með samningsskilmálum Johnsons þann 31. janúar árið 2020. Á aðfangadag sama ár tókst stjórn Johnsons að semja um verslunarsamning við ESB sem felur í sér að engir toll­ar eða inn­flutn­ingskvót­ar verði á flestar vör­ur sem flutt­ar verða á milli Bret­lands og Evr­ópu­sam­bands­ins. Aftur á móti tryggir samningurinn ekki áframhaldandi ferðafrelsi né aðgang breskra fjármálafyrirtækja að innri markaði ESB, auk þess sem Norður-Írland verður áfram bundið af tollareglum ESB og lögsögu Evrópudómstólsins og skip Evr­ópu­sam­bands­ríkja munu áfram hafa nokkurn aðgang að breskum fiskimiðum. Jafnframt verður Bretlandi skylt að tryggja með eigin eftirlitsstofnun áfram sams konar leikreglur og tíðkast innan ESB fyrir framleiðslu og sölu á vörum.[34]

Johnson í Kænugarði ásamt Volodymyr Zelenskyj, forseta Úkraínu, í apríl 2022.

Þann 23. mars árið 2020 setti Johnson útgöngubann í Bretlandi vegna alþjóðlega kórónaveirufaraldursins.[35] Johnson veiktist sjálfur af COVID-19-sjúkdómnum og fór í einangrun vegna þess þann 27. mars.[36] Hann var fluttur á gjörgæslu vegna veirunnar þann 6. apríl[37] en náði sér að endingu af veikinni og sneri aftur til starfa þann 27. apríl.[38]

Erfiðleikar og afsögn Johnsons

Frá árinu 2021 komu upp nokkur pólitísk hneykslismál sem höfðu mjög neikvæð áhrif á vinsældir Johnsons og stjórnar hans. Upplýst var um að þingmaðurinn Owen Paterson hefði brotið reglur þingsins um varnir gegn hagsmunaárekstrum í samskiptum sínum við sérhagsmunahópa. Hann hafði verið ráðinn í hlutastarf sem ráðgjafi fyrirtækis og átt í samskiptum við heilbrigðisráðherra Bretlands á vegum þess til að tryggja fyrirtækinu um 480 milljóna punda samninga um kaup á sýnatökubúnaði fyrir COVID-19. Hann hafði einni starfað fyrir norður-írskan pylsuframleiðanda og átt samskipti við opinberar stofnanir fyrir hans hönd. Þingnefnd mælti með því að Paterson yrði rekinn frá þingsetu í þrjátíu daga í refsingarskyni en Johnson greip inn í atburðarásina, frestaði brottrekstrinum og skipaði nýja nefnd til að fara yfir málið. Eftir að þetta leiddi til mótmæla sagði Paterson sjálfur af sér að eigin frumkvæði og Johnson viðurkenndi að hafa gert mistök við meðferð málsins.[39]

Erfiðasta málið sem kom upp á þessum tíma var Partygate-hneykslið svokallaða. Árið 2021 var upplýst um að Johnson hafði árið áður ítrekað haldið fjölmenn drykkjusamkvæmi á Downingstræti með starfsfólki forsætisráðuneytisins þrátt fyrir að þá hafi verið í gildi strangar samkomutakmarkanir og aðrar sóttvarnareglur vegna kórónuveirufaraldursins. Tvö teiti voru haldin þar daginn fyrir útför Filippusar prins, eiginmanns Elísabetar drottningar, sem leiddi til þess að forsætisráðuneytið varð að biðja drottninguna afsökunar.[40] Eftir rannsókn á teitunum var Johnson sjálfur sektaður fyrir brot gegn sóttvarnarreglum með því að hafa verið viðstaddur eitt teitið og varð þannig fyrsti forsætisráðherra í sögu Bretlands til að vera sektaður fyrir lögbrot.[41]

Þann 6. júní 2022 var kosið um vantrauststillögu gegn Johnson innan Íhaldsflokksins vegna hneykslismálanna og ósigra flokksins í nokkrum aukakosningum. Johnson stóð af sér vantrauststillöguna en aðeins með naumindum.[41]

Í lok júní kom upp annað hneykslismál sem snerist um ásakanir á hendur Chris Pincher, varaformanni þingflokks Íhaldsflokksins, um kynferðislega áreitni. Eftir að spurðist út um ásakanirnar lýsti Johnson því yfir að hann hefði ekki vitað af ásökununum þegar hann skipaði Pincher varaformann og lét ráðherra í stjórn sinni hafa það eftir sér í fjölmiðlum. Þann 4. júlí greindi BBC hins vegar frá því að Johnson hefði vitað af ásökununum, sem hann viðurkenndi síðan og baðst afsökunar fyrir skipun Pinchers.[39]

Á næstu dögum sagði fjöldi ráðherra af sér í mótmælaskyni gegn forsætisráðherranum.[42] Að lokum neyddist Johnson þann 7. júlí til að tilkynna að hann myndi segja af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins. Hann gaf þó út að hann hygðist halda áfram sem forsætisráðherra fram á haust, þegar nýr leiðtogi yrði kjörinn á landsfundi flokksins.[41]

Liz Truss var kjörin nýr leiðtogi Íhaldsflokksins þann 5. september 2022.[43] Hún tók við af Johnson sem forsætisráðherra Bretlands daginn eftir.[44]

Johnson sagði af sér sem þingmaður þann 9. júní 2023 í kjölfar útgáfu skýrslu um Partygate-málið.[45]

Tilvísanir

  1. „Bor­is og Carrie trú­lofuð og eiga von á barni“. mbl.is. 29. febrúar 2020. Sótt 23. mars 2020.
  2. „Boris Johnson kvænist í þriðja sinn“. mbl.is. 30. maí 2021. Sótt 14. júlí 2021.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 „Fetar í fótspor langafa síns“. mbl.is. 24. júlí 2019. Sótt 25. júlí 2019.
  4. 4,0 4,1 Björn Malmquist (23. júlí 2019). „Hver er Alexander Boris de Pfeffel Johnson?“. RÚV. Sótt 25. júlí 2019.
  5. 5,0 5,1 Bergmann, Eiríkur (2020). Neo-nationalism: The Rise of Nativist Populism. Sviss: Palgrave Macmillan. bls. 180. doi:10.1007/978-3-030-41773-4. ISBN 9783030417727.
  6. Christian Oliver; Jim Brunsden (22. febrúar 2016). „Fact or fiction? Boris Johnson's Euro claims“ (enska). Financial Times. Sótt 13. október 2020.
  7. „Skuggaráðherrann og samkvæmisdaman“. Vísir. 17. nóvember 2004. Sótt 25. júlí 2019.
  8. Porter, Andrew; Hellen, Nicholas (14 nóvember 2004). „Boris Johnson sacked for lying over affair“. The Times. Afrit af upprunalegu geymt þann 24 júlí 2008.
  9. Ásgeir Sverrisson (29. júlí 2007). „Sérviskan gegn sósíalismanum“. mbl.is. Sótt 25. júlí 2019.
  10. Egill Helgason (17. júlí 2007). „Spectatorritstjóri býður sig fram til borgarstjóra í London“. Eyjan.is. Sótt 25. júlí 2019.
  11. „Boris færist nær“. DV. 15. júní 2019. Sótt 25. júlí 2019.
  12. Aaron Blake (23. júlí 2019). 'Stupefying ignorance': What Boris Johnson said about Trump when he wasn't being so diplomatic“ (enska). The Washington Post. Sótt 25. júlí 2019.
  13. Jessica Elgot (16. október 2016). „Secret Boris Johnson column favoured UK remaining in EU“ (enska). The Guardian. Sótt 25. júlí 2019.
  14. Tom Peck (21. september 2016). „Boris Johnson never wanted Brexit and only backed Leave to become 'heir apparent' to Tory throne, says minister“ (enska). The Independent. Sótt 25. júlí 2019.
  15. „Val á utanríkisráðherra vekur hörð viðbrögð“. Fréttablaðið. 15. júlí 2016. Sótt 25. júlí 2019.
  16. Daníel Freyr Birkisson (9. júlí 2018). „Boris John­son annar ráð­herrann sem segir af sér“. Fréttablaðið. Sótt 25. júlí 2019.
  17. „Boris Johnson segir af sér og segir Brexit-drauminn vera „að deyja". Varðberg. 9. júlí 2018. Sótt 25. júlí 2019.
  18. Ágúst Borgþór Sverrisson (23. júlí 2019). „Boris Johnson formaður breska Íhaldsflokksins og væntanlegur forsætisráðherra“. DV. Sótt 25. júlí 2019.
  19. „Þingfrestun Johnson mótmælt í breskum borgum“. RÚV. 29. ágúst 2019. Sótt 1. september 2019.
  20. „Þúsund­ir mót­mæla frest­un bresks þings“. mbl.is. 31. ágúst 2019. Sótt 1. september 2019.
  21. Þórgnýr Einar Albertsson (29. ágúst 2019). „Boris Johnson sagður haga sér eins og hann sé einræðisherra“. Fréttablaðið. Sótt 1. september 2019.
  22. Freyr Gígja Gunnarsson (3. september 2019). „Boris Johnson missir meirihlutann á þinginu“. RÚV. Sótt 13. september 2019.
  23. Birgir Þór Harðarson (4. september 2019). „Boris Johnson gjörsigraður í breska þinginu“. RÚV. Sótt 13. september 2019.
  24. Freyr Gígja Gunnarsson (9. september 2019). „Þingið felldi tillögu Johnson um kosningar“. RÚV. Sótt 13. september 2019.
  25. Kjartan Kjartansson (11. september 2019). „Skoskur dómstóll telur frestun þingfunda ólöglega“. Vísir. Sótt 13. september 2019.
  26. Samúel Karl Ólason (24. september 2019). „Þingfrestun Boris dæmd ólögleg“. Vísir. Sótt 24. september 2019.
  27. „Nýr Brexit-samningur samþykktur“. Kjarninn. 17. október 2019. Sótt 7. nóvember 2019.
  28. Birgir Þór Harðarson (22. október 2019). „Tapaði atkvæðagreiðslu um Brexit-áætlunina“. RÚV. Sótt 7. nóvember 2019.
  29. Oddur Ævar Gunnarsson (19. október 2019). „John­son gert að sækja um frest og þing­menn sendir heim“. Fréttablaðið. Sótt 7. nóvember 2019.
  30. Fanndís Birna Logadóttir (19. október 2019). „John­son sendi beiðni um frest en skrifaði ekki undir“. Fréttablaðið. Sótt 7. nóvember 2019.
  31. Kjartan Kjartansson; Þórgnýr Einar Albertsson (5. september 2019). „Johnson segist frekar vilja „liggja dauður í skurði" en sækja um frest til Brussel“. Vísir. Sótt 7. nóvember 2019.
  32. „Samþykktu kosn­ing­ar 12. des­em­ber“. mbl.is. 29. október 2019. Sótt 7. nóvember 2019.
  33. Magnús Halldórsson (12. desember 2019). „Íhaldsflokkur Boris Johnson í lykilstöðu samkvæmt útgönguspá“. Kjarninn. Sótt 13. desember 2019.
  34. „Hvað er í pakk­an­um?“. mbl.is. 26. desember 2020. Sótt 29. desember 2020.
  35. Eiður Þór Árnason (23. mars 2020). „Útgöngubann sett á í Bretlandi“. Vísir. Sótt 23. mars 2020.
  36. Þórir Guðmundsson (27. mars 2020). „Boris veikur af Covid-19 og fer í einangrun“. Vísir. Sótt 23. mars 2020.
  37. Andri Eysteinsson (6. apríl 2020). „Boris Johnson fluttur á gjörgæslu“. Vísir. Sótt 7. apríl 2020.
  38. Kristín Ólafsdóttir (26. apríl 2020). „Johnson sneri aftur til vinnu eftir Covid-veikindin“. Vísir. Sótt 26. apríl 2020.
  39. 39,0 39,1 „Þrír skandalar sem leiddu til falls Borisar Johnson“. Stundin. 7. júlí 2022. Sótt 7. júlí 2022.
  40. „Forsætisráðuneytið biður drottninguna afsökunar“. mbl.is. 14. janúar 2021. Sótt 7. júlí 2022.
  41. 41,0 41,1 41,2 Þórður Snær Júlíusson; Grétar Þór Sigurðsson (7. júlí 2022). „Boris Johnson segir af sér í dag – Skipan klíparans í háttsett embætti það sem felldi hann“. Kjarninn. Sótt 7. júlí 2022.
  42. Sigurjón Björn Torfason (6. júlí 2022). „Enn fleiri ráð­herrar bresku ríkis­stjórnarinnar segja af sér“. Fréttablaðið. Sótt 7. júlí 2022.
  43. Benedikt Arnar Þorvaldsson (5. september 2022). „Liz Truss næsti for­­sætis­ráð­herra Bret­lands“. Fréttablaðið. Sótt 5. september 2022.
  44. Þorvarður Pálsson (6. september 2022). „Liz Truss hitti Elísa­betu og tók við stjórnar­taumunum í Bret­land“. Fréttablaðið. Sótt 6. september 2022.
  45. Árni Sæberg (9. júní 2023). „Boris Johnson segir af sér“. Vísir. Sótt 9. júní 2023.


Fyrirrennari:
Ken Livingstone
Borgarstjóri Lundúna
(4. maí 20089. maí 2016)
Eftirmaður:
Sadiq Khan
Fyrirrennari:
Philip Hammond
Utanríkisráðherra Bretlands
(13. júlí 20169. júlí 2018)
Eftirmaður:
Jeremy Hunt
Fyrirrennari:
Theresa May
Forsætisráðherra Bretlands
(24. júlí 20196. september 2022)
Eftirmaður:
Liz Truss