Johnson var utanríkisráðherra frá 2016 til 2018, þegar hann sagði af sér vegna Brexit-málefna. Eftir að Theresa May tilkynnti afsögn sína úr formannsembætti Íhaldsflokksins í maí 2019 bauð Johnson sig fram til að taka við af henni. Hann vann sigur í formannskjöri flokksins í júlí sama ár og tók við af May sem formaður og forsætisráðherra þann 24. júlí.
Johnson sagði af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins í júní 2022 vegna hneykslismála. Liz Truss tók við af honum sem forsætisráðherra Bretlands þann 6. september 2022.
Johnson hóf starfsferil sinn í blaðamennsku og vann lengi sem blaðamaður og sem ritstjóri tímaritsins The Spectator. Hann er einnig höfundur nokkurra bóka, má þar nefna skáldsöguna Seventy-two Virgins (2004) og sagnfræðiverkin The Dream of Rome (2006) og The Churchill Factor (2014). Johnson var rekinn úr fyrsta blaðamannsstarfi sínu hjá The Times fyrir að skálda tilvitnun í frétt sem hann skrifaði.[4] Á blaðamannsferli sínum varð Johnson síðar alræmdur fyrir að semja falsfréttir sem gjarnan voru þó skrifaðar í kímnum tón, sér í lagi um Evrópusambandið.[5] Meðal annars skrifaði hann fréttir þar sem hann hélt því ranglega fram að Evrópusambandið hygðist láta banna breskar kartöfluflögur með rækjukokteilsbragði og skylda aðildarríki sín til að framleiða smokka í staðlaðri hámarksstærð.[6]
Á þessum tíma sat Íhaldsflokkurinn í stjórnarandstöðu og Johnson var skuggamenningarmálaráðherra flokksins í formannstíð Michaels Howard. Árið 2004 var Johnson sviptur því embætti eftir að upp komst að Johnson hafði haldið fram hjá eiginkonu sinni í nokkur ár með greinahöfundinum Petronellu Wyatt og að Wyatt hefði orðið ólétt eftir hann en látið rjúfa meðgönguna.[7] Johnson hafði logið því að Howard og að almenningi að framhjáhaldið hefði aldrei átt sér stað.[8] Þegar David Cameron varð formaður Íhaldsflokksins árið 2005 fékk Johnson aftur sæti í skuggaríkisstjórninni og varð skuggaráðherra æðri menntamála.[3]
Borgarstjóri Lundúna (2008–2016)
Árið 2007 ákvað Johnson að bjóða sig fram í embætti borgarstjóra Lundúna gegn Ken Livingstone, sitjandi borgarstjóra úr Verkamannaflokknum.[9][10] Johnson vann sigur í kosningunum næsta ár og tók við af Livingstone sem borgarstjóri þann 4. maí 2008.[11]
Sem borgarstjóri Lundúna lagði Johnson mikla áherslu á að gera borgina aðgengilegri fyrir reiðhjól. Undir lok borgarstjóratíðar hans árið 2016 hafði 10,3 milljónum reiðhjóla verið komið í umferð á götum borgarinnar í gegnum hjólaleigu borgarinnar. Johnson og fylgismenn hans hafa einnig bent á árangur á sviði afbrota, húsnæðismála og samgöngumála á þessum tíma sem merki um farsæla stjórn hans. Aftur á móti var Johnson gagnrýndur fyrir ýmis mál eins og verulega framúrkeyrslu í kostnaði á byggingu leikvangs fyrir sumarólympíuleikanna 2012. Einnig sætti hann gagnrýni fyrir Garden Bridge-verkefnið, þar sem 53,5 milljónum punda var varið í fyrirhugaða byggingu göngubrúr yfir Tempsá. Þrátt fyrir allan kostnaðinn var að endingu hætt við verkefnið áður en hafið var að byggja brúna.[3]
Árið 2015 hélt bandaríski forsetaframbjóðandinn Donald Trump því fram að á borgarstjóratíð Johnsons væru stórir hlutar af Lundúnaborg orðnir „bannsvæði“ fyrir lögreglu vegna fjölda meintra íslamskra öfgamanna sem þar héldu til. Johnson brást við með því að saka Trump um „sláandi fávisku“ og kallaði hann óhæfan til að gegna embætti forseta Bandaríkjanna.[12]
Áður en Johnson tilkynnti þátttöku sína í útgönguherferðinni hafði hann skrifað óbirta grein þar sem hann studdi áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu.[13] Þetta hefur leitt til ásakana um að Johnson hafi stutt útgönguherferðina fremur til að geta velt Cameron úr formannssæti Íhaldsflokksins en af sérstakri pólitískri sannfæringu.[14]
Utanríkisráðherra (2016–2018)
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 23. júní 2016 kusu Bretar með naumum meirihluta að yfirgefa Evrópusambandið. Í kjölfarið sagði David Cameron af sér sem formaður Íhaldsflokksins og Johnson bauð sig fram til að taka við af honum sem flokksformaður og forsætisráðherra. Johnson dró hins vegar framboð sitt til baka eftir að Michael Gove, samstarfsmaður hans og annar af helstu foringjum útgönguherferðarinnar, gaf einnig kost á sér í formannskjörinu. Niðurstaðan varð sú að Theresa May var kjörin formaður flokksins og tók við embætti forsætisráðherra þann 13. júlí 2016. May útnefndi Johnson utanríkisráðherra í ríkisstjórn sinni.[15]
Johnson sagði af sér sem utanríkisráðherra þann 9. júlí árið 2018 vegna ósættis með samninga May við Evrópusambandið um það hvernig útgöngu Bretlands úr ESB skyldi háttað.[16][17] Theresa May neyddist til að boða afsögn sína sem formaður Íhaldsflokksins í maí næsta ár eftir að hafa ítrekað mistekist að fá samþykki þingsins fyrir útgöngusamningum sínum við Evrópusambandið. Johnson bauð sig fram til formanns á ný og vann formannskjörið með um tveimur þriðju atkvæða gegn Jeremy Hunt, eftirmanni sínum í embætti utanríkisráðherra.[18] Johnson tók við af May sem formaður og forsætisráðherra þann 24. júlí.
Forsætisráðherra Bretlands (2019–2022)
Sem forsætisráðherra lagði Johnson ríka áherslu á að Bretland skyldi yfirgefa Evrópusambandið á tilsettum tíma þann 31. október 2019 hvort sem samningur um framtíðarsamband landsins við ESB næðist eða ekki. Þann 28. ágúst lýsti Johnson því yfir að hann hygðist biðja Elísabetu drottningu að fresta þingfundum breska þingsins í aðdraganda útgöngunnar. Andstæðingar Johnsons gagnrýndu þingfrestunina harðlega og vændu Johnson um að reyna að koma í veg fyrir að þingið fengi neitt um það sagt hvort samningur yrði gerður eða ekki.[19][20][21] Þann 1. september missti Johnson nauman meirihluta sinn í neðri málstofu breska þingsins þegar þingmaðurinn Phillip Lee sagði sig úr Íhaldsflokknum og gekk til liðs við Frjálslynda demókrata í miðri ræðu forsætisráðherrans.[22] Johnson reyndi í kjölfarið að boða til nýrra þingkosninga en þingið hafnaði tillögu hans í tvígang.[23][24]
Þann 11. september 2019 dæmdi skoskur dómstóll þingfrestun Johnsons ólöglega.[25]Hæstiréttur Bretlands staðfesti dóminn þann 24. september næstkomandi og þingið var kallað saman á ný.[26] Johnson tókst eftir samningaviðræður við fulltrúa Evrópusambandsins að ná fram nýjum samningi við ESB um útgönguskilmála Bretlands þann 17. október en Lýðræðislegi sambandsflokkurinn, sem varði minnihlutastjórn Johnsons falli, var fljótur að lýsa yfir andstöðu við samninginn.[27] Þegar atkvæði voru greidd um nýja samninginn á breska þinginu þann 22. október hafnaði þingið tímaáætlun Johnsons, sem gerði ráð fyrir að samningurinn yrði afgreiddur á þremur dögum svo Bretland gæti yfirgefið Evrópusambandið á tilsettum tíma.[28] Fáeinum dögum áður hafði þingið samþykkt frumvarp þess efnis að stjórnin yrði skylduð til að sækja um útgöngufrest ef samningur hefði ekki verið samþykktur fyrir tilsettan útgöngudag.[29] Því neyddist Johnson til að senda Evrópusambandinu beiðni um útgöngufrest[30] þrátt fyrir að hafa áður sagst vilja fremur „liggja dauður í skurði“ en að fresta útgöngunni úr ESB frekar.[31]
Þann 29. október samþykkti breska þingið tillögu Johnsons um að gengið skyldi til nýrra þingkosninga þann 12. desember 2019.[32] Í kosningunum vann Íhaldsflokkurinn stórsigur og hlaut rúman þingmeirihluta í neðri málstofu breska þingsins.[33] Bretland yfirgaf Evrópusambandið formlega með samningsskilmálum Johnsons þann 31. janúar árið 2020. Á aðfangadag sama ár tókst stjórn Johnsons að semja um verslunarsamning við ESB sem felur í sér að engir tollar eða innflutningskvótar verði á flestar vörur sem fluttar verða á milli Bretlands og Evrópusambandsins. Aftur á móti tryggir samningurinn ekki áframhaldandi ferðafrelsi né aðgang breskra fjármálafyrirtækja að innri markaði ESB, auk þess sem Norður-Írland verður áfram bundið af tollareglum ESB og lögsögu Evrópudómstólsins og skip Evrópusambandsríkja munu áfram hafa nokkurn aðgang að breskum fiskimiðum. Jafnframt verður Bretlandi skylt að tryggja með eigin eftirlitsstofnun áfram sams konar leikreglur og tíðkast innan ESB fyrir framleiðslu og sölu á vörum.[34]
Þann 23. mars árið 2020 setti Johnson útgöngubann í Bretlandi vegna alþjóðlega kórónaveirufaraldursins.[35] Johnson veiktist sjálfur af COVID-19-sjúkdómnum og fór í einangrun vegna þess þann 27. mars.[36] Hann var fluttur á gjörgæslu vegna veirunnar þann 6. apríl[37] en náði sér að endingu af veikinni og sneri aftur til starfa þann 27. apríl.[38]
Erfiðleikar og afsögn Johnsons
Frá árinu 2021 komu upp nokkur pólitísk hneykslismál sem höfðu mjög neikvæð áhrif á vinsældir Johnsons og stjórnar hans. Upplýst var um að þingmaðurinn Owen Paterson hefði brotið reglur þingsins um varnir gegn hagsmunaárekstrum í samskiptum sínum við sérhagsmunahópa. Hann hafði verið ráðinn í hlutastarf sem ráðgjafi fyrirtækis og átt í samskiptum við heilbrigðisráðherra Bretlands á vegum þess til að tryggja fyrirtækinu um 480 milljóna punda samninga um kaup á sýnatökubúnaði fyrir COVID-19. Hann hafði einni starfað fyrir norður-írskan pylsuframleiðanda og átt samskipti við opinberar stofnanir fyrir hans hönd. Þingnefnd mælti með því að Paterson yrði rekinn frá þingsetu í þrjátíu daga í refsingarskyni en Johnson greip inn í atburðarásina, frestaði brottrekstrinum og skipaði nýja nefnd til að fara yfir málið. Eftir að þetta leiddi til mótmæla sagði Paterson sjálfur af sér að eigin frumkvæði og Johnson viðurkenndi að hafa gert mistök við meðferð málsins.[39]
Erfiðasta málið sem kom upp á þessum tíma var Partygate-hneykslið svokallaða. Árið 2021 var upplýst um að Johnson hafði árið áður ítrekað haldið fjölmenn drykkjusamkvæmi á Downingstræti með starfsfólki forsætisráðuneytisins þrátt fyrir að þá hafi verið í gildi strangar samkomutakmarkanir og aðrar sóttvarnareglur vegna kórónuveirufaraldursins. Tvö teiti voru haldin þar daginn fyrir útför Filippusar prins, eiginmanns Elísabetar drottningar, sem leiddi til þess að forsætisráðuneytið varð að biðja drottninguna afsökunar.[40] Eftir rannsókn á teitunum var Johnson sjálfur sektaður fyrir brot gegn sóttvarnarreglum með því að hafa verið viðstaddur eitt teitið og varð þannig fyrsti forsætisráðherra í sögu Bretlands til að vera sektaður fyrir lögbrot.[41]
Þann 6. júní 2022 var kosið um vantrauststillögu gegn Johnson innan Íhaldsflokksins vegna hneykslismálanna og ósigra flokksins í nokkrum aukakosningum. Johnson stóð af sér vantrauststillöguna en aðeins með naumindum.[41]
Í lok júní kom upp annað hneykslismál sem snerist um ásakanir á hendur Chris Pincher, varaformanni þingflokks Íhaldsflokksins, um kynferðislega áreitni. Eftir að spurðist út um ásakanirnar lýsti Johnson því yfir að hann hefði ekki vitað af ásökununum þegar hann skipaði Pincher varaformann og lét ráðherra í stjórn sinni hafa það eftir sér í fjölmiðlum. Þann 4. júlí greindi BBC hins vegar frá því að Johnson hefði vitað af ásökununum, sem hann viðurkenndi síðan og baðst afsökunar fyrir skipun Pinchers.[39]
Á næstu dögum sagði fjöldi ráðherra af sér í mótmælaskyni gegn forsætisráðherranum.[42] Að lokum neyddist Johnson þann 7. júlí til að tilkynna að hann myndi segja af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins. Hann gaf þó út að hann hygðist halda áfram sem forsætisráðherra fram á haust, þegar nýr leiðtogi yrði kjörinn á landsfundi flokksins.[41]
Liz Truss var kjörin nýr leiðtogi Íhaldsflokksins þann 5. september 2022.[43] Hún tók við af Johnson sem forsætisráðherra Bretlands daginn eftir.[44]
Johnson sagði af sér sem þingmaður þann 9. júní 2023 í kjölfar útgáfu skýrslu um Partygate-málið.[45]