Benjamin Disraeli, fyrsti jarlinn af Beaconsfield (21. desember 1804 – 19. apríl 1881) var breskur stjórnmálamaður í Íhaldsflokknum sem var tvisvar forsætisráðherra Bretlands. Hann var einn af stofnendum Íhaldsflokks nútímans og einn af þeim sem lögðu drög að helstu stefnumálum hans. Disraeli er minnst vegna áhrifa hans í alþjóðamálum og pólitískra deilna sinna við William Ewart Gladstone, leiðtoga Frjálslynda flokksins. Disraeli kom því til leiðar að Íhaldsflokkurinn varð helst allra stjórnmálaflokka bendlaður við hróður og völd breska heimsveldisins. Hann er eini breski forsætisráðherrann sem hefur verið af gyðingaættum. Hann var líka skáldsagnahöfundur og gaf út nokkur ritverk jafnvel á meðan hann sat á ráðherrastól.
Disraeli fæddist í Bloomsbury í Middlesex. Faðir hans sagði sagt skilið við gyðingdóminn eftir að hafa lent í illdeilum í sýnagógunni sinni. Benjamín gekk því í ensku biskupakirkjuna þegar hann var 12 ára og ólst upp í kristni. Disraeli gekk á neðri deild breska þingsins árið 1837 eftir að hafa boðið sig nokkrum sinnum fram án árangurs. Árið 1846 varð ágreiningur innan Íhaldsflokksins þegar sitjandi forsætisráðherrann, Sir Robert Peel, hugðist nema úr gildi kornlögin svokölluðu sem lögðu verndartolla á innflutt korn. Disraeli mótmælti fyrirætlunum Peel á breska þinginu og varð áhrifamaður innan flokksins. Þegar Derby lávarður flokksformaður stofnaði ríkisstjórnir á sjötta og sjöunda áratugnum varð Disraeli fjármálaráðherra og þingforseti neðri deildar breska þingsins.
Þegar Derby settist í helgan stein árið 1868 varð Disraeli forsætisráðherra í stuttan tíma þar til hann tapaði þingkosningunum það ár. Hann sneri aftur í stjórnarandstöðu en vann þingmeirihluta á ný árið 1874. Hann varð návinur Viktoríu drottningar og hún gerði hann árið 1876 að jarli af Beaconsfield. Seinna kjörtímabil Disraeli einkenndist af hnignun Ottómanveldisins og viðleitni hinna Evrópuveldanna, eins og Rússlands, til að leggja undir sig land á kostnað þess. Disraeli sá til þess að Bretar fjárfestu í Súesskurðarfélaginu (í Egyptalandi, þar sem Tyrkir réðu ríkjum). Árið 1878, þegar Rússar höfðu unnið sigur í stríði gegn Tyrkjum, vann Disraeli að því á ráðstefnu í Berlín að koma á friðarsáttmála á Balkanskaga sem væri hagstæður Bretum en óhagstæður Rússum. Þessi pólitíski sigur gegn Rússlandi gerði Disraeli að einum virtasta stjórnmálamanni Evrópu.
Atburðir á alþjóðasviðinu voru Íhaldsmönnum ekki í hag næstu árin. Stuðningur við Disraeli beið hnekki vegna umdeildra stríða Breta í Afganistan og Suður-Afríku. Disraeli reitt bændur til reiði þegar hann neitaði að koma á kornlögunum á ný þegar uppskeran hafði brugðist. Vegna ötullar kosningabaráttu Gladstone sigruðu Frjálslyndir Íhaldsmennina í kosningum árið 1880. Á síðustu mánuðum ævi sinnar var Disraeli leiðtogi Íhaldsmanna í stjórnarandstöðu. Hann hafði allan feril sinn samið skáldsögur og gaf út sína síðustu fullgerðu skáldsögu, Endymion, stuttu áður en hann lést, þá 76 ára að aldri.
Heimild