Vilmundur Gylfason

Vilmundur Gylfason
Dóms- og kirkjumálaráðherra
Í embætti
15. október 1979 – 8. febrúar 1980
ForsætisráðherraBenedikt Gröndal
ForveriSteingrímur Hermannsson
EftirmaðurFriðjón Þórðarson
Menntamálaráðherra
Í embætti
15. október 1979 – 8. febrúar 1980
ForsætisráðherraBenedikt Gröndal
ForveriRagnar Arnalds
EftirmaðurIngvar Gíslason
Alþingismaður
frá til  kjördæmi    þingflokkur
1978 1983  Reykv.  Alþýðufl.
Persónulegar upplýsingar
Fæddur7. ágúst 1948(1948-08-07)
Reykjavík, Íslandi
Látinn19. júní 1983 (34 ára) Reykjavík, Íslandi
DánarorsökSjálfsmorð með hengingu
StjórnmálaflokkurBandalag jafnaðarmanna (frá 1983)
Alþýðuflokkurinn (til 1983)
MakiValgerður Bjarnadóttir (g. 1970)
Börn5
ForeldrarGylfi Þ. Gíslason og Guðrún Vilmundardóttir
HáskóliHáskólinn í Manchester (BA)
Háskólinn í Exeter (MA)
StarfStjórnmálamaður, bókmenntafræðingur, sagnfræðingur
Æviágrip á vef Alþingis

Vilmundur Gylfason (fæddur 7. ágúst 1948, látinn 19. júní 1983) var íslenskur stjórnmálamaður, bókmennta- og sagnfræðingur, og skáld. Hann var sonur Gylfa Þ. Gíslasonar og Guðrúnar Vilmundardóttur. Kona Vilmundar var Valgerður Bjarnadóttir og áttu þau fimm börn.

Vilmundur var umdeildur í íslenskri þjóðmálaumræðu enda var hann stóryrtur um það sem hann taldi vera úrelt og spillt flokkakerfi á Íslandi og bitlausa gagnrýni fjölmiðla. Vilmundur starfaði á seinni hluta áttunda áratugsins innan Alþýðuflokksins en sagði sig úr flokknum og stofnaði Bandalag jafnaðarmanna.

Uppvöxtur og námsár

Faðir Vilmundar var Gylfi Þ. Gíslason, alþingismaður Alþýðuflokksins, ráðherra og prófessor. Móðir hans var Guðrún Vilmundardóttir, húsfreyja og á tímabili blaðamaður. Vilmundur átti tvo bræður, Þorstein, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, sem er látinn, og Þorvald prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Meðal vina hans á uppvaxtarárunum eru Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndagerðarmaður, Ingólfur Margeirsson, blaðamaður og rithöfundur, Þórarinn Eldjárn skáld, Pétur Gunnarsson rithöfundur, Halldór Halldórsson og Sigurður Pálsson skáld.

Vilmundur hóf nám við Menntaskólann í Reykjavík árið 1964. Þar kynntist hann Valgerði Bjarnadóttur, viðskiptafræðingi, þau hófu samband og eignuðust saman soninn Benedikt 1966. Bæði voru þau börn þjóðþekktra stjórnmálamanna, formanna tveggja stjórnmálaflokka, sem þá stóðu saman að ríkisstjórn, og vakti samband þeirra mikla athygli, líka sökum ungs aldurs. Vilmundur tók virkan þátt í félagslífi skólans; var ritstjóri skólablaðsins einn vetur og inspector scholae veturinn 1967-68. Eftir að hafa lokið stúdentsprófi af málabraut vorið 1968 fór hann til Englands og hóf nám í sagnfræði við Manchester-háskóla.

Árið 1970 var viðburðaríkt fyrir Vilmund og Valgerði. Son sinn misstu þau, og Valgerður báða foreldra sína, í bruna á Þingvöllum um sumarið og fáum mánuðum síðar giftust þau. Þá gaf Vilmundur út ljóðabókina Myndir og ljóðbrot. Vilmundur lauk B.A.-prófi í bókmenntum og sagnfræði árið 1971 við háskólann í Manchester og M.A.-prófi lauk hann við Exeter-háskóla árið 1973 í sama fagi. Í febrúar það ár eignuðust þau saman annan son en hann dó sama dag. Á meðan Vilmundur var í Englandi í námi mótuðust skoðanir hans á stjórnmálum og fréttamennsku mjög mikið. Taldi hann fréttamennsku í Englandi vera mjög til fyrirmyndar.

Fjölmiðlar

Eftir heimkomuna frá Englandi árið 1973, var Vilmundur ráðinn sögukennari við Menntaskólann í Reykjavík þar sem hann kenndi til æviloka. Samhliða kennslunni vann hann að fréttaskýringa- og viðtalsþáttum ásamt því að skrifa greinar í dagblöð. Hann var og ritstjóri Alþýðublaðsins á sumrin á árunum 1976-81.[1]

Síðla árs 1973 var Vilmundi boðið að taka þátt í nýjum fréttaskýringarþætti Sjónvarpsins Landshorn. Að þáttunum kom ungt fólk og vakti Vilmundur athygli fyrir hispurslausa framkomu. Þannig gerðist það að haft var samband við Vilmund og honum bent á seinagang innan dómskerfisins í málum kaupmanns nokkurs frá Keflavík. Kaupmaður þessi hafði mörg járn í eldinum og hafði þegar verið sakfelldur fyrir önnur mál. Vilmundur fékk því til sín Baldur Möller, ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins, og gagnrýndi athafnaleysi yfirvalda. Það var nær óþekkt á Íslandi að embættismenn væru gagnrýndir opinberlega og vegið að þeim. Þótt skoðanir væru skiptar um ágæti þessarar aðfarar Vilmundar, var í öllu falli víst að hann vakti athygli. Málið átti þó eftir að draga á eftir sér nokkurn dilk. Á næsta ári var nafni Landshorna breytt í Kastljós og var Vilmundur áfram einn af fréttamönnum þáttarins. Vilmundur fjallaði áfram um mál kaupmannsins frá Keflavík, sem höfðaði meiðyrðamál gegn Vilmundi og lauk þeim málaferlum með sýknudómi fimm árum síðar.

Samtryggingarkerfið

Yfirlýsing fjármálaráðherra vegna persónulegra kaupa hans á Volvo-bifreið birtist á annarri síðu Morgunblaðsins 8. maí 1975.

Í fjölmiðlum í maíbyrjun 1975 vakti Vilmundur athygli á gjaldeyrisyfirfærslum íslenskra banka í kjölfar þess að Ólafur Jóhannesson, þá dóms- og kirkjumála- og viðskiptaráðherra, tilkynnti nánast í ræðu um yfirvofandi gengisfellingu íslensku krónunnar þann 24. janúar sama ár. Á götum bæjarins var umtalað að tengsl milli manna skiptu máli þegar kom að því að veita gjaldeyrisyfirfærslur og að nokkrir málsmetandi menn, þ.m.t. Matthías Á. Mathiesen fjármálaráðherra, hefðu nýlega keypt og flutt inn bíla áður en gengið lækkaði. Vilmundur leitaði þá til þriggja bílaumboða, Heklu hf., P. Stefánssonar og Veltis hf. með fyrirspurnir um bílainnflutning á umræddu tímabili. Hjá Velti hf. og P. Stefánssyni hf. fékk hann þau svör, að fyrirtækin hefðu sótt um innflutning á nokkrum bílum og Veltir hf. fengið leyfi en P. Stefánsson ekki. Hjá Heklu hf. var sagt að sótt hefði verið um leyfi til innflutnings á átta bílum en því hefði verið synjað. Vilmundur leitaði einnig til Landsbankans og Útvegsbankans eftir upplýsingum, sem honum voru ekki veittar. Umfjöllun Vilmundar varð til þess að menn í valdastöðum hótuðu honum öllu illu ef hann snarhætti henni ekki.

Þá sendi Matthías Mathiesen fjármálaráðherra frá sér yfirlýsingu þar sem hann fékk „eina tíu kerfislabbakúta til að vitna með sé'“ um að bifreiðakaup hans hefðu verið lögleg og reglum samkvæm. Í grein, sem Vilmundur birti 30. maí í Morgunblaðinu, rakti hann hvernig hann gekk á milli bílaumboðanna og fékk misvísandi svör frá Heklu hf., sem á endanum viðurkenndi að hafa fengið tvo bíla innflutta. Komið hafði í ljós eftir að fyrirspurnir bárust viðskiptaráðherra á Alþingi að bankarnir mismunuðu þeim, sem sóttu um gjaldeyrisyfirfærslur. Um málið sagði Vilmundur enn fremur:

„[þ]að væri í sjálfu sér lítilmótlegt ef öll þessi skrif fjölluðu um bílinn hans Matthíasar - og að auki væri það úr því sem komið er eins og að sparka í liggjandi mann. En þetta er þó fjármálaráðherra landsins, for helvede. En málið er óvart öllu alvarlegra. Eitt blaðanna hefur fjallað um gjaldeyrisviðskipti Ræsis hf. í kjölfar þessara umræðna og þar skilst mér að opinber rannsókn sé yfirvofandi - þau mál ættu þá að vera komin á hreint um næstu aldamót.“[2][3]

Vilmundur var mjög atorkusamur og skrifaði reglulega í Vísi og Dagblaðið eftir stofnun þess 1975. Hann gagnrýndi harðlega flokksskipulag stjórnmálaflokkanna sem hann taldi vera ólýðræðislegar og allt að því lokaðar valdaklíkur. Efnahagsástandið var á þeim tíma með allt öðrum hætti en er í dag eins og gefur að skilja. Fjármögnun stjórnmálaflokkanna var ógegnsærri. Það voru fáir innan þeirra sem kunnu gjörla skil á bókhaldi þeirra. Vilmundi fannst forkastanlegt að þeir væru reknir með sífelldum lánum hjá bönkunum og að eignatengsl milli þeirra og fyrirtækja væru óskýr.

Klúbburinn og Geirfinnsmálið

Næsta stóra mál sem viðkom Vilmundi snerist um Geirfinnsmálið svokallaða. Í grein sem birt var 30. janúar 1976 í Vísi endurtók Vilmundur ásakanir sem hann hafði áður fjallað um og lutu að Ólafi Jóhannessyni og skemmtistaðnum Klúbbnum í Reykjavík. Þannig var mál með vöxtum að 14. október 1972 hafði skemmtistaðnum Klúbbnum verið lokað vegna rannsóknar á skattsvikum, áfengissmygli, bókhaldsóreiðu o.fl. Eins og seinna kom í ljós gerði húsbyggingarsjóður framsóknarfélaganna í Reykjavík samning við eiganda Klúbbsins um að greiða honum 2,5 milljónir kr. gegn því að skuld upp á 5 milljónir félli niður. Daginn eftir heimilaði dómsmálaráðuneytið opnun Klúbbsins þrátt fyrir mótmæli Valdemars Stefánssonar ríkissaksóknara. Í fyrrnefndri grein sakaði Vilmundur Ólaf um að ganga erinda eiganda Klúbbsins við þetta tækifæri og svo aftur um það leyti sem rannsókn Geirfinnsmálsins stóð, þremur árum seinna, er menn tengdir Klúbbnum voru færðir til yfirheyrslu. Vilmundur fullyrti að lögreglumönnunum sem stóðu að yfirheyrslunum hefði borist bréf frá dómsmálaráðuneytinu þar sem þeim var gert að hætta að áreita einn mannanna.

Margir töldu Vilmund vega ómaklega að forystu Framsóknarflokksins. Þrátt fyrir þetta sagðist Vilmundur ekki hafa eitt augnablik „dregið í efa persónulegan heiðarleik og ráðdeild Ólafs Jóhannessonar“ en að hann væri „innlyksa í morknu réttarkerfi“ og hugsanlega „umkringdur af óheppilegum ráðgjöfum“. Í útvarpsviðtali nokkrum dögum seinna sagði Ólafur þegar hann var inntur eftir viðbrögðum við grein Vilmundar að á bak við Vilmund stæði Vísismafían og ennfremur:

„Ég ætla ekki að nýta þennan dag til þess að skjóta þúfutittlinga. Vilmundur Gylfason er í þessu sambandi ekki nema stórt núll. Gildi hefur núllið ekkert, standi það eitt út af fyrir sig. Gildi þess ræðst af því hvaða afstöðu það hefur til annarra talna. Vilmundur Gylfason skrifar til að lifa. Hann er verkfæri í annarra höndum.“

Ólafur fylgdi þessu eftir á þingi með því að neita efnislega ásökunum Vilmundar. Sagði hann að sem dómsmálaráðherra hefði hann ekki haft lagaheimild til þess að halda skemmtistaðnum Klúbbnum lokuðum lengur því öryggi almennings krefðist þess ekki. Í öðru lagi neitaði hann því að hafa haft áhrif á framvindu rannsóknar Geirfinnsmálsins. Í þriðja lagi sagði hann engin fjármálatengsl vera milli sín eða Framsóknar og eiganda Klúbbsins. Seinna kom hins vegar á daginn að Ólafur hafði logið og að fjármálatengslin voru til staðar.[4]

Stjórnmál

Í kosningum 1974 var Vilmundur í öðru sæti framboðslistans fyrir Alþýðuflokkinn á Vestfjörðum. Í fyrsta sæti var Sighvatur Björgvinsson þá ritstjóri Alþýðublaðsins en víst þótti að Vilmundi var ekki gefið um að þurfa að láta undan fyrsta sætið. Alþýðuflokkurinn fékk 9,1% atkvæða á landsvísu sem var lægsta kjörfylgi flokksins síðan í kosningunum 1919 og Vilmundur komst ekki á þing.

Það ár lauk Gylfi, faðir Vilmundar, formannssetu sinni í Alþýðuflokknum. Gylfi hafði setið sem menntamálaráðherra á fimmtán ára tímabili Viðreisnarstjórnarinnar sem féll í kosningunum 1971. Þannig var Gylfa að vissu leyti kennt um slakt gengi flokksins og af honum tók Benedikt Sigurðsson Gröndal við sem formaður. Á því flokksþingi var ákveðið að endurskoða stefnu flokksins og til þessa verks var skipuð fimm manna nefnd sem Vilmundur sat í ásamt Jóni Þorsteinssyni, Helga Skúla Kjartanssyni, Finni Torfa Stefánssyni og Árna Gunnarssyni. Að Jóni undanskildum, sem var fimmtugur, voru þetta allt ungir menn sem gaf til kynna að ákveðin kynslóðaskipti áttu sér stað.

Þá tók Vilmundur í auknum mæli að gagnrýna flokksskipulagið á Íslandi. Verðbólga var mikil, fyrirgreiðslupólitík og hrossakaup tíðkuðust. Gagnrýni Vilmundar var ekki bundin við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn, sem þá mynduðu ríkisstjórn undir forystu Geirs Hallgrímssonar. Vilmundur gagnrýndi sömuleiðis Alþýðuflokkinn, sem hann vildi að skæri á tengsl sín við ASÍ. Samtök frjálslyndra og vinstri manna undanskildi hann sérstaklega í gagnrýni sinni.

Vorið 1975 var vinnu nefndarinnar um endurskoðun stefnu Alþýðuflokksins nær lokið en sú nefnd klofnaði í tvennt í niðurstöðum sínum. Vilmundur og Jón höfðu eina útgáfu en hinir þrír mynduðu meirihluta. Til marks um óánægju Vilmundar í þessum efnum má nefna grein sem hann skrifaði seinna um árið sem bar titilinn „Alþýðuvöld, nei takk“ segir í henni að íslensk verkalýðsforysta sé „að mörgu leyti þreytt og íhaldssöm og umfram allt úrræðalítil“.[5] Ósamkomulagið um efnistök og orðalag hinnar nýju stefnuskrár snerist um það, að skilningur Vilmundar og Jóns var ekki jafn marxískur og einkenndist frekar af gildum norræns velferðarþjóðfélags. Svo fór á flokksþinginu það ár að kosið var um málamiðlunarútgáfu sem flestir gátu sæst á.

Árið 1974 eignuðust þau Valgerður þriðja barn sitt, dótturina Guðrúnu, og í maí 1976 Nönnu Sigríði en hún lést fimm mánuðum síðar. Sonurinn Baldur Hrafn fæddist svo 1981.

Prófkjör

Haustið 1977, áður en kom að þingkosningum, var haldið opið prófkjör hjá Alþýðuflokknum samkvæmt breytingum, sem Vilmundur hafði leitt í gegn. Þar stóð baráttan á milli Benedikts, sem sóttist eftir fyrsta sætinu, Eggerts G. Þorsteinssonar og Vilmundar, sem báðir sóttust eftir 1-2. sætinu. Staða Vilmundar innan flokksins var óörugg. Hann hafði stuðning Benedikts formanns en sumum fannst hugmyndir hans of róttækar. Þá hafði Vilmundur, í félagi við nokkra aðra unga Alþýðuflokksmenn, endurvakið ungmennahreyfingu flokksins, Spörtu. Í prófkjörinu tóku um 4.500 manns þátt, og hreppti Benedikt fyrsta sætið með 48% atkvæða og náði Vilmundur öðru sæti með 75% atkvæða í 1-2. sætið. Jóhanna Sigurðardóttir var í þriðja sæti. Þetta var talinn sigur fyrir Benedikt og þó sér í lagi Vilmund.

Snemma árs 1978 var ljóst að ríkið gat ekki staðið við gerða kjarasamninga frá því árinu áður sökum mikillar verðbólgu. Þá voru sett lög í febrúar, nefnd Febrúarlögin sem takmörkuðu launahækkanir opinberra starfsmanna og ógiltu þar með umsamin kjör. Efnt var til ólöglegra verkfalla í mars sem stjórnarandstöðuflokkarnir, Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið, studdu. Vilmundur var hins vegar á öndverðum meiði. Hann taldi verkföll eiga að vera lögmæt og mætti því til vinnu í Menntaskólann í Reykjavík.[6]

Kosningar

Úrslit Alþingiskosninganna 1978
  Flokkur Gild atkvæði Hlutfall Þingsæti Fylgisbreyting¹
Alþýðuflokkurinn 26.912 22,0% 14 +12,9%
Framsókn 20.656 16,9% 12 -8,0%
Sjálfstæðisflokkurinn 39.982 32,7% 20 -10.0%
Alþýðubandalagið 27.952 22,9% 14 +4,6%
Aðrir og utan flokka 6.705 5,5% 0 +5,1%
Alls 122.207 100% 60  
¹Hlutfallsbreyting frá því kosningunum 1974

Í kosningum 1978 var Vilmundur í framboði í Reykjavík fyrir Alþýðuflokkinn og var hann þá fyrst kosinn á þing. Fyrir kosningarnar beitti Vilmundur þeim nýmælum að mæta á vinnustaði og halda ræður við misjafnar undirtektir. Þessar kosningar voru stærsta tap ríkisstjórnarflokka á einu kjörtímabili. Sjálfstæðisflokkurinn sem hafði fengið 42,7% í kosningunum 1974 fékk 32,7% og Framsóknarflokkurinn sem hafði fengið 24,9% fékk nú 16,9%. Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn voru því samtals með 32 þingsæti af 60 en höfðu verið með 42. Alþýðuflokkurinn jók fylgi sitt um 12,9% (rúmlega 16.500 atkvæði) og náði 14 þingsætum. Að miklu leyti var Vilmundi eignað farsælt gengi flokks síns.

Eftir miklar samningaumleitanir myndaði Ólafur Jóhannesson ríkistjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Ólafur þótti sýna þó nokkur klókindi og fékk til síns flokks forsætis-, fjármála- og dómsmálaráðuneytið. Vilmundur var andvígur þessari ríkisstjórn og skrifaði grein í Dagblaðið undir fyrirsögninni „Ferð án fyrirheits“. Þar sagði meðal annars:

„Nánast allir gera sér ljóst, að stjórnin er byggð á siðferðislegum og efnahagslegum sandi. Stjórn sem heldur áfram efnahagsstefnu fyrri ríkisstjórnar og stefnir í 50-60% verðbólgu á næsta ári er byggð á efnahagslegum sandi. Stjórn sem afhendir framsóknarmönnum dómsmálaráðuneytið og þar sem umbætur til dæmis í skattsvikamálum hafa verið strikaðar út úr samstarfsyfirlýsingu á síðustu stundu er byggð á siðferðislegum sandi.“.[7]

Í þessari ríkisstjórn hafði Ólafur Jóhannesson, forsætisráðherra, einn fyrri reynslu af ráðherrastörfum. Af níu ráðherrum sátu fjórir í fyrsta sinn á þingi. Vilmundur, sem hafði strax í kjölfar kosninganna verið manna ánægðastur, einangraðist nú í gagnrýni sinni á ríkisstjórnina og töldu sumir það einfaldlega vera vegna þess að hann fékk ekki sjálfur ráðherraembætti. Á meðal þingstarfa Vilmundar það haust var að gagnrýna Framkvæmdastofnun ríkisins, leggja fyrir frumvarp um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands, þingsköp og stofnun sérstaks skattadómstóls.

Ríkisstjórnin springur

Að kvöldi 5. október 1979 rauf Sjónvarpið dagskrá sína og tilkynnti að Alþýðuflokkurinn vildi hætta stjórnarsamstarfi, ríkisstjórnin var fallin eftir aðeins eins ár setu. Eftir fund Benedikt Gröndals, Gunnars Thoroddsens og Geirs Hallgrímssonar var samþykkt að Sjálfstæðisflokkurinn myndi styðja minnihlutastjórn Alþýðuflokksins fram að kosningum að því gefnu að hún gripi ekki til „stefnumarkandi nýmæla“. Í kjölfarið var ákveðið innan Alþýðuflokksins að þeir Vilmundur, Sighvatur Björgvinsson og Bragi Sigurjónsson myndu taka ráðherraembætti. Frá október 1979 til febrúar 1980 var Vilmundur dóms-, kirkju- og menntamálaráðherra í minnihlutastjórn Alþýðuflokksins. Fráfarandi dómsmálaráðherra, Steingrímur Hermannsson vék frá þeirri hefð að afhenda eftirmanni sínum lyklana að skrifstofunni. Það kom í hlut Baldurs Möllers, ráðuneytisstjóra, sem Vilmundur hafði fimm árum fyr gagnrýnt harkalega í fjölmiðlum.

Úrslit Alþingiskosninganna 1979
  Gild atkvæði Hlutfall Þingsæti Fylgisbreyting¹
Alþýðuflokkurinn 21.580 17,4% 10 -4,6%
Framsókn 30.861 24,9% 17 +8,0%
Sjálfstæðisflokkurinn 43.838 35,4% 21 +2,7%
Alþýðubandalagið 24.401 19,7% 11 -2,8%
Aðrir og utan flokka 3.071 2,5% 1 -3,0%
Alls 123.751 100% 60  
¹Hlutfallsbreyting frá því kosningunum 1978

Á þeim tíma sem Vilmundur var í ráðherrastól bjó hann til embætti umboðsfulltrúa dómsmálaráðuneytisins. Hann skipaði Finn Torfa Stefánsson í það embætti til eins árs. Nú var svo komið að Finnur var samflokksmaður Vilmundar og var Vilmundur gagnrýndur harkalega fyrir að stunda einmitt þess kyns greiðapólitík sem hann hafði sjálfur sagst vilja uppræta. Í kosningunum 1979 tapaði Alþýðuflokkurinn 4,6% eða 4 þingsætum og Alþýðubandalagið 2,8% eða 3 þingsætum. Framsóknarflokkurinn bætti við sig 8,0% og 5 þingsætum og Sjálfstæðisflokkurinn 2,7% eða 1 þingsæti. Ljóst var að Framsókn hafði unnið aftur það fylgi sem hann hafði tapað á aðeins einu ári. Þau nýmæli urðu varðandi Alþýðuflokkinn að Jón Baldvin Hannibalsson tók fjórða sæti á lista í Reykjavík og náði á þing. Við tók ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens, sem mynduð var án fulls stuðnings innan Sjálfstæðisflokksins með Framsókn og Alþýðubandalaginu. Vilmundur lét því af ráðherrastörfum 8. febrúar 1980.

Flokksþing Alþýðuflokksins hittist í október og nóvember 1980. Þar gekk ýmislegt á. Vilmundur bauð sig fram til varaformanns flokksins gegn Magnúsi Magnússyni þingmanni. Magnús var kosinn varaformaður með 110 atkvæðum gegn 68. Vilmundur tók þessu sem miklum ósigri og fann nú öll spjót á sér standa.[8]

Önnur ljóðabókin hans, Ljóð kom út rétt fyrir jólin 1980.

Alþýðublaðsdeilan

Í ágúst 1981 eignuðust þau Valgerður soninn Baldur Hrafn, þá höfðu þau misst tvö börn. Rúmum mánuði fyrr hafði Vilmundur tekið að sér ritstjórn Alþýðublaðsins á meðan Jón Baldvin, ritstjóri og ábyrgðarmaður, var í sumarfríi. Á síðum blaðsins veittist Vilmundur harkalega að verkalýðsfélögum sem hann sagði stöðnuð hagsmunasamtök, sér í lagi Verzlunarmannafélag Reykjavíkur. Þá var beittur þrýstingur innan flokksins um að blaðið myndi draga úr gagnrýninni. Vilmundur brást þá við ásamt samstarfsmönnum sínum með þeim hætti að þeir útbjuggu grínútgáfu af blaðinu þar sem viðtöl voru skálduð og sagt frá fundi VR sem aldrei átti sér stað. Af prentun blaðsins fréttist innan flokksins áður en það kom út og var upplaginu fargað að einu eintaki undanskyldu. Vilmundur brást ókvæða við og hóf ásamt samstarfsmönnum sínum verkfall uns blaðið yrði gefið út. Mikil spenna ríkti innan flokksins.

Skömmu síðar lét Kjartan Jóhannsson, formaður Alþýðuflokksins, hafa það eftir sér í viðtali við fréttamann RÚV að Vilmundur væri veikur á geði og spunnust um það umræður á síðum dagblaðanna. Nú vildi Vilmundur að samþykkt yrði traustsyfirlýsing gagnvart sér en Kjartan tók það ekki í mál. Jón Baldvin sneri þá heim úr sumarfríi sínu á Ítalíu og tók upp hanskann fyrir Vilmund að því er virtist. Þeir boðuðu saman til fundar á Hótel Sögu þar sem menn ræddu þessi mál og gagnrýndu margir Vilmund. Tillaga um stuðning við Vilmund var felld með 79 atkvæðum gegn 62.

Í framhaldinu var samið um að Jón Baldvin myndi hafa yfirumsjón með rekstri blaðsins ásamt Vilmundi. Eftir að gengið hafði verið að munnlegum samningi svo hljóðandi, fór Jón á bak orða sinna og sagðist myndu hafa úrslitavald um það hvað færi á prent. Vilmundur sagði þegar í stað upp störfum og stofnaði dagblaðið Nýtt land ásamt blaðamönnunum tveim sem með honum höfðu starfað á Alþýðublaðinu. Tilraun þessi bar þó ekki árangur og aðeins komu út nokkur tölublöð áður en að það var lagt niður. Vilmundur var einnig hvatamaður að stofnun Helgarpóstsins án þess þó að koma þar beint að.[9]

Bandalag jafnaðarmanna

Á flokksþingi Alþýðuflokksins í nóvember 1982 beið Vilmundur enn á ný ósigur í framboði til varaformanns gegn Magnúsi Magnússyni. Í þetta skiptið munaði 12 atkvæðum. Nokkrum dögum síðar, 18. nóvember 1982, skráði Vilmundur sig úr Alþýðuflokknum, og tilkynnti stofnun nýs flokks, Bandalags jafnaðarmanna. Í viðtölum lét Vilmundur að því liggja að á bak við hið nýja stjórnmálaafl væri hópur fólks og að undirbúningi hefði verið unnið um talsvert skeið. Það var hins vegar fjarri sanni.

Bandalag jafnaðarmanna var formlega stofnað 15. janúar 1983. Í Alþingiskosningum 1983 bauð flokkurinn fram í öllum kjördæmum og fékk fjóra þingmenn kosna. Vilmundur varð fyrir miklum vonbrigðum. Hann áleit sem svo að tilraun hans hefði mistekist.

Vilmundur fyrirfór sér 19. júní 1983. Vilmundur þótti afkastamikill, vandvirkur við undirbúning mála og flutti þau vel - hann þótti og góður ræðumaður, vel lesinn, orðheppinn, einstaklega laginn við að spá fyrir um stjórnmálabaráttuna og virðist hafa verið næmur á skoðanir/vilja almennings.[10][11][12]

Tilvísanir

  1. Jón Ormur Halldórsson (1985). Löglegt en siðlaust. Bókhlaðan., bls 165
  2. Morgunblaðið, 30. maí 1975, bls. 19, 21
  3. Jón Ormur Halldórsson (1985). Löglegt en siðlaust. Bókhlaðan., bls 79-87
  4. Jón Ormur Halldórsson (1985). Löglegt en siðlaust. Bókhlaðan., bls 106-115, 247-251
  5. Jón Ormur Halldórsson (1985). Löglegt en siðlaust. Bókhlaðan., bls 77
  6. Jón Ormur Halldórsson (1985). Löglegt en siðlaust. Bókhlaðan., bls 154-162
  7. Jón Ormur Halldórsson (1985). Löglegt en siðlaust. Bókhlaðan., bls 221
  8. Jón Ormur Halldórsson (1985). Löglegt en siðlaust. Bókhlaðan., bls 299-306
  9. Jón Ormur Halldórsson (1985). Löglegt en siðlaust. Bókhlaðan., bls 318-335
  10. Morgunblaðið, 28. Júní 1983, ýmis dæmi á bls. 14, 15, 35 og 36.
  11. Morgunblaðið, 21. Júní 1983, bls. 48.
  12. Morgunblaðið, 28. Júní 1983, bls. 14, 15, 35, 36.

Heimildir