Bókmenntafræði

Bókmenntafræði, stundum nefnd almenn bókmenntafræði, er fræðileg umfjöllun um bókmenntir almennt en einkum þó fagurbókmenntir. Skáldskaparfræði, bókmenntasaga og bókmenntarýni eru helstu undirgreinar bókmenntafræði. Bókmenntafræði á sér djúpar rætur í vestrænni menningu sem teygja sig allt aftur í fornöld en verður ekki til sem sérstök fræðigrein við evrópska háskóla fyrr en á 18. öld.

Viðfangsefni bókmenntafræði hafa verið breytileg í gegnum tíðina en mótast þó alltaf af svörum við þremur spurningum, sem ætíð fléttast saman: Hvað eru bókmenntir? Hvað er eftirsóknarvert að vita um þær? Hvaða aðferðum er heppilegast að beita við rannsóknir á þeim?

Á íslensku er heiti fræðigreinarinnar „bókmenntafræði“ eða „almenn bókmenntafræði“ en á mörgum málum er hún kennd við samanburðarbókmenntir og felur í sér alþjóðlegar bókmenntarannsóknir fremur en þjóðlega textafræði eins og hún hefur verið stunduð í háskólum Evrópu um aldaraðir undir áhrifum frá Dante og þjóðarbókmenntahugtakinu.

Heimildir

  • Jakob Benediktsson (ritstj.), Hugtök og heiti í bókmenntafræði (Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1983).