Bærinn dregur nafn sitt af samnefndri vík, sem liggur á milli Hólmsbergs að norðan og Vatnsness að sunnan og gengur til vesturs inn úr Stakksfirði. Víkin er opin á móti austri og þótti aldrei gott skipalægi. Hún var samt grundvöllur þeirrar verslunar sem þar þróaðist frá 17. öld og varð grundvöllur bæjarins.
Saga
Samkvæmt Landnámu var Steinunn gamla, landnámskona, fyrsti eigandi lands á Suðurnesjum, þar með talið Keflavík. Keflavíkur er fyrst getið í rituðum heimildum um 1270.[1] Keflavíkurjörðin heyrði undir Rosmhvalaneshrepp frá fornu fari. Fram eftir 15. öld stunduðu Englendingar veiðar í kringum Suðurnes og hafa sjálfsagt komið á land í Keflavík. Árið 1579 gaf Danakonungur út fyrsta verslunarleyfið til Hansakaupmanna að þeir mættu versla í Keflavík. Frá og með 1602 hefst einokunarverslun Dana.
Með vexti kauptúnsins á seinni hluta 19. aldar reyndist landrými of lítið fyrir byggðina. 1891 var löggilt stækkun á verslunarlóðinni til suðurs, í landi Njarðvíkurhrepps, sem stofnaður hafði verið tveimur árum áður. Keflavík var þannig í tveimur hreppum samtímis og hélst svo til ársins 1908.
Hinn 15. júní 1908 var Rosmhvalaneshreppi skipt upp. Varð nyrðri hlutinn að Gerðahreppi en Keflavíkurjörðin í suðri var sameinuð Njarðvíkurhreppi undir heitinu Keflavíkurhreppur. Njarðvíkurhreppur klauf sig aftur frá hreppnum 1. janúar1942. Í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar fjölgaði hratt í Keflavík enda var mikið um uppgrip og vinnu að fá í kring um Keflavíkurstöðina og Keflavíkurflugvöll.