Hvammstangi

65°23′50″N 20°56′30″V / 65.39722°N 20.94167°V / 65.39722; -20.94167

Hvammstangi

Hvammstangi er kauptún í Húnaþingi vestra. Hann var upphaflega í Kirkjuhvammshreppi en var gerður að sérstökum hreppi, Hvammstangahreppi, hinn 1. júlí 1938. Íbúar voru 614 árið 2020.

Hrepparnir tveir sameinuðust á ný 7. júní 1998 ásamt hinum 5 hreppunum í Vestur-Húnavatnssýslu: Staðarhreppi, Fremri-Torfustaðahreppi, Ytri-Torfustaðahreppi, Þverárhreppi og Þorkelshólshreppi undir nafninu Húnaþing vestra.

Hvammstangi var gerður að viðurkenndum verslunarstað árið 1895 en þá voru engin íbúðarhús á staðnum. Hið fyrsta slíka var byggt árið 1900. Þá hófust einnig fiskveiðar þar á tanganum og eru hafnarskilyrði þar nú góð. Mest er veitt af rækju og grásleppu.

Á Hvammstanga er margvísleg þjónusta fyrir sveitirnar í Húnaþingi vestra. Hitaveita Húnaþings vestra á Laugarbakka sér Hvammstanga fyrir heitu vatni en þangað var lögð hitaveituæð 1972. Vatnsveita kom í plássið 1952 en áður hafði hvert hús haft eigin brunn.

Læknir hefur haft aðsetur sitt á Hvammstanga allt frá 1905 en hann þjónaði jafnframt héraðinu. Á árunum 1979 til '81 var heilsugæsla byggð á staðnum.

12. janúar 2007 opnaði Fæðingarorlofssjóður starfsemi sína á Hvammstanga.

Stofnanir, félög og fyrirtæki

Selasetur Íslands

Selasetur Íslands Hvammstanga
Selasetur Íslands Hvammstanga

Selasetur Íslands á Hvammstanga er safn, upplýsingamiðstöð og rannsóknarsetur. Þann 25. júní 2006 var opnuð fræðslusýning í Selasetrinu með því markmiði að efla náttúrutengdaferðaþjónustu í Húnaþingi vestra. Selasetrið er í samfélagseign og rekið í samfélagsþágu. Selasetrið er ekki rekið í hagnaðarskyni.

Í Selasetrinu má nálgast fróðleik í máli og myndum um seli og ýmsa hjátrú tengda þeim, auk þess þar er Upplýsingamiðstöð Húnaþings vestra. Eitt aðgengilegasta selalátur landsins er á Vatnsnesi, norður af Hvammstanga.

Hvammstangakirkja

Hvammstangakirkja var vígð 21. júlí 1957. Er hún steinsteypt og tekur 160 manns í sæti. Í Kirkjuhvammi, rétt ofan Hvammstanga, er eldri kirkja - frá árinu 1882. Gripir úr henni eru í Hvammstangakirkju og ber þar að nefna messingskírnarfat frá árinu 1753 og silfurkaleik frá 1821.

Kirkjuhvammskirkja

Stutt austan við Hvammstanga (ofanvið) er Kirkjuhvammskirkja. Jörðin Kirkjuhvammur á Vatnsnesi, sem í fornum skjölum er nefnd Hvammur í Miðfirði, var talin góð jörð, þó ekki væri um stórbýli að ræða. Kirkjuhvammur er talinn þingstaður árið 1406. Búskap var hætt í Kirkjuhvammi árið 1947 og húsin jöfnuð við jörðu um 1960. Kirkjan er eina húsið frá fyrri tíð, sem nú er á jörðinni[1]. Kirkjuhvammskirkja kom í umsjá Þjóðminjasafnsins árið 1976 og er lokuð almenningi[2].

Þekktir einstaklingar

Myndir

Tengill

  Þessi landafræðigrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.


Heimildir

  1. „Kirkjuhvammskirkja“. www.kirkjukort.net. Afrit af upprunalegu geymt þann 3 júní 2021. Sótt 3 júní 2021.
  2. „Kirkjuhvammskirkja“. Þjóðminjasafn Íslands. Sótt 3 júní 2021.