Romano Prodi

Romano Prodi
Forsætisráðherra Ítalíu
Í embætti
17. maí 1996 – 21. október 1998
ForsetiOscar Luigi Scalfaro
ForveriLamberto Dini
EftirmaðurMassimo D'Alema
Í embætti
17. maí 2006 – 8. maí 2008
ForsetiGiorgio Napolitano
ForveriSilvio Berlusconi
EftirmaðurSilvio Berlusconi
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins
Í embætti
15. september 1999 – 30. október 2004
VaraforsetiNeil Kinnock
ForveriManuel Marín
EftirmaðurJosé Manuel Barroso
Persónulegar upplýsingar
Fæddur9. ágúst 1939 (1939-08-09) (85 ára)
Scandiano, Reggio Emilia, Ítalíu
ÞjóðerniÍtalskur
StjórnmálaflokkurLýðræðisflokkurinn
MakiFlavia Franzoni (g. 1969)
Börn2
HáskóliUniversità Cattolica del Sacro Cuore
London School of Economics
Undirskrift

Romano Prodi (f. 9. ágúst 1939 í Reggio Emilia) er ítalskur stjórnmálamaður og fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu. Hann hefur áður verið forsætisráðherra 1996 til 1998 og var forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 1999 til 2004.

Æviágrip

Prodi er menntaður í lögfræði frá kaþólskum háskóla í Mílanó og hóf snemma þátttöku í stjórnmálum á vegum Kristilega demókrataflokksins. 1966 fékk hann stöðu sem prófessor í stjórnmálafræði við Bologna-háskóla sem hann gegnir enn.

Frá 1978 til 1979 var hann iðnaðarráðherra í fjórðu ríkisstjórn Andreottis þar sem hann samdi meðal annars lög um stjórn stórfyrirtækja í miklum erfiðleikum. Sem ráðherra þótti hann tæknilegur fremur en pólitískur og hann blandaði sér lítt í pólitísk átök innan demókrataflokksins. 1982 var hann skipaður formaður stofnunar fyrir endurreisn iðnfyrirtækja sem rekur hlut ríkisins í stórum einkafyrirtækjum (eignarhaldsfélag í eigu ríkisins) og gegndi því starfi til 1988 og tókst þar að snúa eilífu tapi í hagnað. 1993 tók hann aftur við stjórninni, í þetta sinn til að sjá um sölu á hlutum ríkisins í bönkum og matvælafyrirtækjum.

1996 var hann valinn leiðtogi kosningabandalags vinstri- og miðjuflokka (Ólífubandalagsins - L'Ulivo) sem tókst að sigra í kosningunum það ár og mynda þingmeirihluta með stuðningi kommúnista. Valið á Prodi stafaði fyrst og fremst af því að hann þótti hafa nokkuð hreina pólitíska fortíð og var því sá sem allir aðilar kosningabandalagsins gátu komið sér saman um. Sem forsætisráðherra náði hann þó nokkrum vinsældum og þótti snjall í tilsvörum. Fyrstu ríkisstjórn Prodis tókst að koma böndum á ríkisfjármálin og ná hlutfallinu milli fjárlagahallans og landsframleiðslu langt niður fyrir það hámark sem kveðið var á um í Maastricht-sáttmálanum.

Ríkisstjórn Prodis átti ævinlega í erfiðleikum vegna skorts á stuðningi frá kommúnistum sem voru óbundnir af málefnaskrá kosningabandalagsins. Á endanum sagði hann af sér embætti og Massimo D'Alema tók við forsætisráðuneytinu. 1999 stofnaði Prodi sína eigin stjórnmálahreyfingu Ítalska demókrataflokkinn sem átti að minna á Demókrataflokkinn í Bandaríkjunum. Sama ár var hann útnefndur forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Í stjórnartíð hans urðu nokkrir merkisáfangar í sögu Evrópuráðsins, meðal annars upptaka Evrunnar 2002 og stækkun Evrópusambandsins til austurs 2004.

Þegar forsetatíð hans lauk var aftur litið til hans sem leiðtogaefnis vinstri-miðflokkanna og 2005 bauð nýtt kosningabandalag, Einingarbandalagið (L'Unione) með þátttöku hluta kommúnistaflokksins, fram í sveitarstjórnarkosningum.

Í þingkosningunum í apríl 2006 hlaut Einingarbandalagið nauman meirihluta (einungis 25.000 atkvæða meirihluta) sem tryggði því aðeins tveggja sæta meirihluta í öldungadeildinni. 17. maí tók hann við stjórnarmyndunarumboði úr hendi nýkjörins forseta Ítalíu, Giorgio Napolitano. Miklar deilur um utanríkisstefnu stjórnarinnar leiddu til þess að öldungadeildin felldi stefnuskrá Massimo D'Alema, utanríkisráðherra 20. febrúar 2007. Tveimur dögum síðar sagði Prodi af sér forsætisráðherraembætti. Prodi sagðist ekki myndu mynda aðra stjórn nema hann fengi fullan stuðning allra flokka meirihlutans og lagði fram tólf skilyrði sem leiðtogar allra flokkanna samþykktu. Í kjölfarið hvatti Napoletano hann til að mynda nýja ríkisstjórn en sjá jafnframt til þess að hann fengi traustsyfirlýsingu frá báðum deildum þingsins. Í öldungadeildinni var yfirlýsingin samþykkt með naumum meirihluta, 162 atkvæðum gegn 157, en miklum meirihluta í fulltrúadeildinni, eða 342 atkvæðum gegn 198.

Í janúar 2008 gerðist það að dómsmálaráðherrann, Clemente Mastella, leiðtogi lítils miðjuflokks, UDEUR Popolari, sagði af sér eftir að eiginkona hans var sett í stofufangelsi sökuð um spillingu. Í upphafi lýsti hann yfir áframhaldandi stuðningi við ríkisstjórnina en dró hann síðan til baka. UDEUR er með þrjá öldungadeildarþingmenn og því var meirihluti Prodis þar í reynd fallinn. Vegna þessa lét Prodi aftur reyna á traustsyfirlýsingu í báðum deildum 23. janúar en í þetta sinn var hún felld af öldungadeildinni með 161 atkvæði gegn 156. Einn sat hjá. Meðal þeirra þingmanna vinstri-miðjubandalagsins sem greiddu atkvæði gegn stjórninni voru, auk Mastella, Lamberto Dini, Domenico Fisichella og Franco Turigliatto.

6. febrúar 2008 leysti Napolitano forseti þingið upp og boðaði til nýrra kosninga. Prodi tilkynnti að hann myndi ekki verða forsætisráðherraefni vinstriflokkanna í annað sinn og tók Walter Veltroni við sem leiðtogi þeirra. Í kosningunum í apríl vann nýstofnaður hægriflokkur, Hús frelsisins, undir forystu Berlusconis, nokkuð góðan sigur og myndaði ríkisstjórn en þurfti að reiða sig á stuðning Norðursambandsins til að halda meirihluta í báðum þingdeildum.


Fyrirrennari:
Lamberto Dini
Forsætisráðherra Ítalíu
(17. maí 199621. október 1998)
Eftirmaður:
Massimo D'Alema
Fyrirrennari:
Manuel Marín
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins
(15. september 199930. október 2004)
Eftirmaður:
José Manuel Barroso
Fyrirrennari:
Silvio Berlusconi
Forsætisráðherra Ítalíu
(17. maí 20068. maí 2008)
Eftirmaður:
Silvio Berlusconi