Ferruccio Parri

Ferruccio Parri

Ferruccio Parri (19. janúar 18908. desember 1981) var ítalskur stjórnmálamaður, andspyrnuleiðtogi og forsætisráðherra Ítalíu um stutt skeið í fyrstu ríkisstjórn Ítalíu eftir frelsun Ítalíu.

Hann fæddist í Fjallalandi (Piemonte), lærði bókmenntafræði og barðist í Fyrri heimsstyrjöldinni. Hann gekk í flokk frjálslyndra sósíalista Giustizia e Libertà („Réttlæti og frelsi“) og varð hatrammur andstæðingur fasista. Á valdatíma Mussolinis skipulagði hann flótta sósíalistans Filippo Turati og sat í fangelsi fyrir það í mörg ár.

Þegar frelsisstríð Ítalíu hófst 1943 losnaði hann úr fangelsi 8. september og varð einn af leiðtogum andspyrnuhreyfingarinnar. Sem slíkur átti hann þátt í að skapa Frelsunarnefnd efri Ítalíu (Comitato di Liberazione di Alta Italia). Hann var um stutt skeið fangi Þjóðverja, en var sleppt við fangaskipti.

Eftir frelsun Ítalíu 1945 varð hann forsætisráðherra í þjóðstjórn sem mynduð var með aðild kristilegra demókrata, frjálslyndra, kommúnista, sósíalista, aðgerðasinna og syndikalista. Forysta hans var málamiðlun milli þeirra sem vildu alger skil frá klerkaveldi og íhaldsstefnu ára fasismans, og hinna sem vildu fara varlegar í sakirnar. Einnig voru á þeim tíma átök milli þeirra sem vildu að Ítalía yrði áfram konungsríki og þeirra sem vildu lýðveldi.

Margir kristilegir demókratar voru andsnúnir honum, meðal annars vegna þess að hann vildi allsherjarstríð gegn mafíunni, og frjálslyndir ollu því að lokum að stjórnin féll eftir sjö mánuði og ný ríkisstjórn tók við undir forystu Alcide De Gasperi.

Parri hélt áfram stjórnmálastarfi á vinstri væng ítalskra stjórnmála. Hann var gerður að öldungadeildarþingmanni til æviloka árið 1963.


Fyrirrennari:
Ivanoe Bonomi
Forsætisráðherra Ítalíu
(1945 – 1945)
Eftirmaður:
Alcide De Gasperi