Koblenz liggur við samflæði Mósel og Rínarfljóts mjög vestarlega í Þýskalandi. Belgísku landamærin eru 60 km til vesturs. Næstu stærri borgir eru Bonn til norðvesturs (50 km), Frankfurt am Main til suðausturs (120 km) og Trier til suðvesturs (120 km).
Skjaldarmerki
Skjaldarmerki Koblenz er rauður kross á silfurlituðum grunni og gullkórónu fyrir framan. Merki þetta kom fyrst fram á 14. öld og er tákn erkibiskupsdæmisins Trier en Koblenz tilheyrði því frá 1018. Kórónan er tákn Maríu mey, verndardýrling borgarinnar.
Orðsifjar
Borgin hét Confluentes á tímum Rómverja, en það þýðir samflæði. Meint er samflæði ánna Mósel og Rín. Úr Confluentes verður Coblenz með tímanum. Það var ekki fyrr en 1926 að rithátturinn breyttist úr Coblenz í Koblenz.
Saga Koblenz
Landsvæðin sem Koblenz heyrði til:
Rómverjar
Það var Júlíus Caesar sjálfur sem fyrstur Rómverja kom til borgarstæðisins Koblenz árið 55 f.Kr. eftir að hafa sigrað galla í Gallastríðunum. Fyrsta virki Rómverja á staðnum reis þó ekki fyrr en á tíma Ágústusar keisara en það var reist til að tryggja leiðina um Rínardalinn milli Mainz, Köln og Xanten. Í kjölfarið myndaðist rómversk byggð á staðnum. Því er Koblenz með elstu borgum Þýskalands. Um 85 e.Kr. tilheyrði virkið og byggðin þar í kring skattlandinu Germania Superior. Rómverjar lögðu brýr yfir Rín og Mósel. Brúin yfir Rín var gerð úr 650-750 eikarbolum með járnbroddi efst. 51 bolur eru enn til í dag. Snemma á 4. öld þrengdu germanir sér yfir landamæravegg Rómverja (Limes). Til að vernda borgina gegn framsókn þeirra lét Konstantínus keisari víggirða Koblenz með þykkum múrum og 19 varðturnum. En allt kom fyrir ekki. Germanir héldu áfram að flæða yfir rómversk svæði. Snemma á 5. öld yfirgáfu Rómverjar borgina en frankar settust að á svæðinu. Rómverjar munu sennilega hafa brennt brýrnar sem þeir höfðu lagt en borgarmúrarnir stóðu uppi í margar aldir enn.
Frankar
Heimildir eru um að konungar frankaríkisins hafi ósjaldan setið í borginni. Þannig sat Kildebert II þar árið 585 og hélt móttökur og ef til vill þing. Eftir lát Karlamagnúsar erfði Lúðvík hinn frómi allt ríkið. En hann hafði takmarkaðan áhuga á stjórnun þess. Því börðust synir hans þrír um yfirráðin og drógust bardagar á langinn. Loks var ákveðið að setjast niður og skipta frankaríkinu mikla í þrjá hluti. Sáttarfundir þessir fóru fram í Koblenz 19. – 24. október842. Samningurinn sjálfur var þó ekki undirritaður fyrr en ári síðar í borginni Verdun (Verdun-samningurinn). Samkvæmt honum lenti Koblenz í miðjuríkinu, Lóþaringíu. 870 var Lóþaringíu skipt í tvennt (Mersen-samningurinn). Lenti annar hlutinn í vesturríkinu (Frakklandi), en hinn hlutinn, ásamt Koblenz, í austurríkinu (þýska ríkinu). Þar með varð Koblenz endanlega þýsk borg og svo er enn. Árið 882 sigldu víkingar upp eftir Rínarfljóti og gerðu víða strandhögg. Þannig komu þeir einnig til Koblenz en hana rændu þeir og brenndu.
Yfirráð biskupa
1018 gaf Hinrik II keisari biskupssetrinu í Trier borgina Koblenz. Erkibiskup þá var Poppo frá Babenberg og varð hann því veraldlegur fursti yfir stórt landsvæði. Trier var höfuðborgin, en biskuparnir höfðu gjarnan aðsetur í Koblenz og sátu þá í virkinu Ehrenbreitstein sem gnæfir á hæð yfir borginni. Virkið var talið óvinnanlegt og því sátu biskuparnir þar einnig á ófriðartímum. 1198 fengu biskuparnir í Trier kjörgengi fyrir þýsku konungskjörin. Á þessum tíma voru flestar kirkjur í miðborginni reistar. 1105 hittust Hinrik IV keisari og sonur hans Hinrik í Koblenz. Þeim fundi lauk með því að sonurinn lét varpa föður sínum í dýflissu og tók sonurinn við konungdóminum í staðinn. Hann kallaði sig Hinrik V. 1138 var Konráður III kjörinn til konungs þýska ríkisins í Koblenz, en hann hafði áður verið gagnkonungur. Eftir kjörið var Konráður krýndur í Aachen, eins og flestir konungar ríkisins á miðöldum. Eftir lát Hinriks VI keisara 1197 var nýtt konungskjör í uppnámi. Kjörþingið náði ekki að komast að niðurstöðu og því risu tveir aðilar upp og lýstu sjálfa sig konunga. Þetta voru Filippus af Staufen-ættinni (sonur Friðriks Barbarossa) og Otto af Welfen-ættinni. Þeir söfnuðu liði og mættust í orrustu við borgardyr Koblenz. Þar hafði hvorugur betur. Ríkið brann í konungsstríði í áratug enn þar til Filippus var myrtur 1208. 1338 hélt Lúðvík IV keisari þing í Koblenz. Játvarður III Englandskonungur var viðstaddur þetta þing sem sérlegur gestur.
30 ára stríðið og 9 ára stríðið
Siðaskiptin fóru aldrei fram í Koblenz. Borgin var í föstum höndum erkibiskupanna í Trier og átti Lúterstrú ekki upp á pallborðið í borginni. Fyrsti lúterski söfnuðurinn í borginni myndaðist ekki fyrr en 1784. Borgin var því kaþólsk er 30 ára stríðið hófst 1618. Þegar stríðið var 14 ára gamalt, gekk biskupinn og kjörfurstinn Filippus Kristof til liðs við Frakka (sem einnig voru kaþólskir). Franskur her var boðinn til borgarinnar, þrátt fyrir að bærískar hersveitir væru fyrir í borginni. Báðir aðilar voru því kaþólskir. Þegar bæjarar neituðu að yfirgefa borgina, gerðu Frakkar umsátur um hana og fengu góðan liðsstyrk í sænskum her, sem var lúterskur. Í umsátri þessu var því öllum trúmálum snúið á hvolf. Koblenz féll eftir mánaðar umsátur. 1636 voru bæjarar aftur á ferðinni og réðust á borgina Koblenz. Þeir náðu að hrekja Frakka á braut eftir árs umsátur um virki þeirra. Þegar stríðinu lauk var Koblenz nær gjöreyðilögð og íbúum hafði fækkað um helming. 40 árum seinna voru Frakkar enn á ferðinni í 9 ára stríðinu. Þeir réðust á borgina og skutu látlaust á hana með fallbyssum. Skemmdir urðu gríðarlegar, en borgin hélt velli. Hún var meðal fárra borga í Rínarlöndunum sem Frakkar náðu ekki að hertaka í þessu stríði.
Franski tíminn
Í frönsku byltingunni bauð kjörfurstinn Clemens Wenzeslaus frönskum konungssinnum hæli í Koblenz. Borgin varð brátt að nokkurs konar miðstöð þeirra. Þegar franskur byltingarher réðist inn í Rínarlöndin 1794, var Koblenz nánast varnarlaus borg. Hún gafst þegar upp og hertóku Frakkar hana bardagalaust. Kjörfurstinn flúði til Ágsborgar. Herseta Frakka markaði endalok kjörfustadæmisins Trier. Koblenz var innlimuð Frakklandi 1801. Napoleon sjálfur sótti heim borgina 1804 ásamt Jósefínu eiginkonu sinni. Hinn franski borgarfógeti Koblenz, Jean Marie Thérèse Doazan, gaf borginni merkilegan minnisvarða, kallaður Kastorbrunnurinn. Hann var í formi eins og 3ja metra hár turn og átti að minna á hina sigursælu innrás Napoleons í Rússland. Innrásin misheppnaðist hins vegar herfilega. Engu að síður var minnisvarðinn látinn standa og er hann á sínum stað enn í dag. Það var rússneski herforinginn Saint-Priest sem fékk það hlutverk 1814 að ráðast á Koblenz og hrekja Frakka þaðan.
Nýrri tímar
1814 úrskurðaði Vínarfundurinn að Koblenz skyldi tilheyra Prússlandi. Prússar víggirtu borgina gífurlega. Háir og þykkir múrar voru reistir umhverfis borgina. Múrarnir voru þó engin prýði fyrir borgina og voru rifnir aftur 1890 til að skapa byggingarsvæði fyrir ört vaxandi borgina. Þá var iðnbyltingin í fullum gangi. Koblenz kom ekki við sögu í heimstyrjöldinni fyrri. Í stríðslok hins vegar hernámu Bandaríkjamenn borgina sem héldu henni til 1923. Þá eftirlétu þeir Frökkum borgina. Franski herinn yfirgaf Koblenz ekki fyrr en 1929. Ári síðar sótti ríkisforsetinn Paul von Hindenburg borgina heim til að taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni af frelsun borgarinnar. Þá átti sér stað stórslys eftir flugelda kvöld eitt að bráðabirgðabrú eyðilagðist og féllu tugir manna í Rínarfljót. 38 manns biðu bana. Í heimstyrjöldinni síðari varð Koblenz fyrir gífurlegum loftárásum. Þær verstu urðu 6. nóvember1944 en þá létu breskar flugvélar 150 þús sprengjum rigna yfir borgina. Eyðileggingin var ótrúleg. Um 87% hennar voru rústir einar. Borgarbúar neyddust til að yfirgefa borgina. Í mars1945 sprengdu nasistar allar brýr yfir Rín og Mósel. Aðeins nokkrum dögum síðar hernámu Bandaríkjamenn borgina. Þeir fundu aðeins fáeinar sálir í rústunum þar. Um sumarið eftirlétu þeir Frökkum borgina, enda var hún á hernámssvæði Frakka. 1946 var sambandslandið Rínarland-Pfalz stofnað. Koblenz varð að höfuðborg þess lands. 1950 var hins vegar ákveðið að færa höfuðborgina til Mainz. Á móti kom þó að ýmsar ríkisskrifstofur voru fluttar til Koblenz. 1957 fengu þýskir hermenn að flytja í herstöðvar í Koblenz, sem enn í dag er stærsta þýska herstöðin í Þýskalandi. Síðustu frönsku hermennirnir yfirgáfu borgina 1969. Árið 2002 voru fjölmargar byggingar í borginni settar á heimsminjaskrá UNESCO.
Viðburðir
Karneval í febrúar/mars
Víndagar í apríl og maí
Menningardagar í kastalanum Ehrenbreitstein
Alþjóðleg gítarhátíð í maí/júní
Skemmtigarður í maí til september
Tal Total er bílalaus ævintýradagur í júní
Miðborgarskemmtun í júlí
Róðrarkeppni drekabáta í júlí
Horizonte er tónlistarhátíð (jaðartónlist) við kastalann Ehrenbreitstein í júlí
Hátíð götulistamanna í ágúst
Hinsegin dagar í ágúst
Tónlistarhátíð helguð Mendelssohn-Bartholdy í september
Þakkargjörðarhátíð í október
Barnaskrúðdagar í nóvember
Vinabæir
Koblenz viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:
Ehrenbreitstein er gríðarstórt virki eða röð samtengdra virkja, meðal þeirra stærstu í Evrópu. Virkið var reist í upphafi prússneska tímans, 1815-34. Margir hlutar hafa varðveist vel, aðrir minna og sumir eru rústir einar. Virkin voru gríðarlega sterk og vel mönnuð þar til Bismarck sigraði Frakkland í stríði 1871. Þá færðust landamæri ríkjanna lengra vestur (Metz og Strassborg urðu þýskar), þannig að vægi virkjanna minnkaði töluvert. Þau skemmdust nokkuð í loftárásum seinna stríðsins, sum gjöreyðilögðust. Hluti virkjanna voru sett á heimsminjaskrá UNESCO 2002.
Stolzenfels er virki og kastali á hæð einni við Koblenz. Virkið var reist 1242-59 af erkibiskupnum Arnold II frá Isenburg sem tollstöð. Í 30 ára stríðinu hertóku fyrst Svíar virkið og síðan Frakkar, hvorir um sig í tvö ár. 1689 var virkinu nærri eytt af Frökkum í 9 ára stríðinu. Eftir það var það bara rústir einar í 150 ár. 1815 gaf borgin konungnum í Prússlandi rústirnar. Friðrik Vilhjálmur IV lét eftir það gera við virkið og að auki reisa kapellu og kastala sem sumardvalarstað. Hann var svo vígður 1842. Þremur árum seinna heimsótti Viktoría Englandsdrottning kastalann. Í dag er hluti kastalans opinn fyrir almenningi. Virkið og kastalinn voru sett á heimsminjaskrá UNESCO 2002.
Alte Burg er fyrrverandi vatnakastali frá gamalli tíð. Hann var reistur 1185 af von der Arken ættinni og var notast við efni úr fornum rómverskum hringturni. Kastalinn var þá hluti af miðborg Koblenz og jafnvel varnarmúrnum. Þegar Frakkar hertóku héraðið 1806, breyttu þeir kastalanum í verksmiðju sem var starfrækt til 1897, en þá eignaðist borgin bygginguna. Hún skemmdist óverulega í loftárásum seinna stríðsins og var gerð upp 1960-62. Að sjálfsögðu eru allir varnarmúrar og síki löngu horfin. Kastalinn var settur á heimsminjaskrá UNESCO 2002. Í dag er hann notaður sem bókasafn og borgarskjalasafn.
Kjörfurstahöllin er aðsetur síðasta erkibiskupsins og kjörfurstans í Trier, Clemens Wenzeslaus frá Saxlandi. Hann lét reisa höllina 1777-93, sem er einn hinn síðasti furstakastali sem reistur var í Þýskalandi fyrir byltinguna miklu í Frakklandi. Kastalinn var að sjálfsögðu hugsaður fyrir biskupana og kjörfurstana til frambúðar, en aðeins örfáum árum seinna hertóku Frakkar héraðið og lögðu kjörfurstadæmið niður. Innviðið var því ekki að fullu lokið. Kastalinn þjónaði því aldrei sem aðsetur, heldur sem herspítali á franska tímanum og herstöð á prússneska tímanum, en einnig sem skrifstofur. Í loftárásum seinna stríðs nær gjöreyðilagðist kastalinn, þannig að víða stóðu aðeins múrarnir eftir. Hann var reistur á ný 1950-51 í stíl við sjötta áratuginn. Í dag eru ríkisskrifstofur í kastalanum. Hann var settur á heimsminjaskrá UNESCO 2002.
Kastorkirkjan er elsta kirkja borgarinnar. Hún var reist á 9. öld. Allmikil saga tengist þessari kirkju.
Frúarkirkjan er gömul rómönsk kirkja í borginni. Hún var reist 1180-1205 og helguð Maríu mey. Byggingin er ofan á rústum gamallar kapellu frá 4. öld. 1404-30 var kirkjunni breytt og fékk sína gotnesku ásýnd. Þegar Loðvík XIV Frakkakonungur herjaði á borgina 1688 lenti fallbyssuskot á turnana og brenndi þá niður. Eftir það fékk kirkjan núverandi turna sína, en þeir eru afar sérstæðir, sennilega sérkennilegustu kirkjuturnar Þýskalands. Í loftárásum 1944 brunnu turnarnir og þakið en skipið slapp. Viðgerðum lauk 1955.