Maastricht

Maastricht
Fáni
Skjaldarmerki
Staðsetning
HéraðLimburg
Flatarmál
 • Samtals60,06 km2
Mannfjöldi
 (1. Janúar 2014)
 • Samtals122.468
 • Þéttleiki2.039/km2
Vefsíðawww.maastricht.nl

Maastricht (franska: Maestricht, (limburgíska: Meschtreech) er höfuðborg hollenska héraðsins Limburg og jafnframt syðsta borg Hollands. Maastricht-samningarnir voru undirritaðir í borginni 1992. Borgin hefur sótt um að fá að vera menningarhöfuðborg Evrópu 2018. Í Maastricht er töluð hollenska, limburgíska (ásamt Maastricht-mállýskunni), franska, þýska og enska.

Lega og lýsing

Maastricht liggur sitthvoru megin við ána Maas syðst í Hollandi. Vestri borgarmörkin nema við belgísku landamærin. Til þýsku landamæranna eru aðeins um 15 km til austurs. Næstu borgir eru Aachen í Þýskalandi til austurs (20 km), Liége í Belgíu til suðurs (20 km), Genk í Belgíu til norðvesturs og Roermond í Hollandi til norðurs (40 km). Maastricht er að öðru leyti syðsta borgin í Hollandi, en nokkrir smábæir eru þó aðeins sunnar.

Fáni og skjaldarmerki

Fáni Maastricht er alrauður með hvítri fimmarma stjörnu vinstra megin við miðju. Fáni þessi kom fyrst fram 1545, en veik fyrir öðrum fána sem var nauðalíkur pólska fánanum. Þetta leiddi oft til misskilnings og því var gamli fáninn tekinn í notkun á ný 1. janúar 1994. Ekki er ljóst hvað stjarnan merkir, en hún tengist kommúnisma á engan hátt. Skjaldarmerkið sýnir fánann, nema hvað hlutföllin eru breytt og stjarnan er beint fyrir miðju. Fyrir ofan er kóróna og verndarengill.

Orðsifjar

Borgin hét upphaflega Traiectum ad Mosam á tímum Rómverja. Það þýðir vað eða yfirferð yfir ána Maas. Mosam er Maas í þágufalli. Trajectum breytist í –trecht með tímanum.

Saga Maastricht

Upphaf

Það voru keltar sem reistu bæinn fyrst, en þar með er Maastricht með elstu borgum Hollands. Rómverjar hertóku svæðið og borgina um tímamótin. Á tímum Ágústusar keisara var reist brú yfir Maas, en handan hennar lá þjóðvegur beint austur til Colonia Agrippina (Kölnar). Snemma varð Maastricht að biskupssetri sökum þess hve vel hún var varin. Borgin var hluti af þýska ríkinu. 1202 varð hún eign tveggja aðila. Í fyrsta lagi greifans af Brabant fyrir hönd keisara, en í öðru lagi biskupanna af Liège. 1204 hlaut hún borgarréttindi. Fyrsta brúin yfir Maas, Servatíusbrúin, var smíðuð 1280. Hún var í fleiri hundruð ár nyrsta brúin yfir Maas. Í kjölfarið varð Maastricht að verslunarborg, þar sem iðnaðarvörur eins og ull og leðurvörur voru framleiddar og seldar. Þessi velmegun hélst til sjálfstæðisstríðs Niðurlanda.

Frelsisstríð

Árás Spánverja á Maastricht 29. júní 1579

Karl V keisari var tíður gestur í Maastricht á fyrri hluta 16. aldar. Þegar mótmælendatrúin barst til Niðurlanda, voru mótmælendur eltir og fangaðir. Siðaskiptin náðu sér ekki á strik í borginni, sem hélst kaþólsk og er það enn. Þegar Margrét af Parma var landstjóri Niðurlanda fyrir Spánarkonung, sendi hún lítið herlið til Maastrich árið 1567. Borgin tók hins vegar ekki á móti þeim og lét gera þá afturreka með aðstoð þýskra leiguliða. En Spánverjar tóku borgina síðar á árinu. Þeir þóttu afar óvinsælir meðal borgarbúa. 1676 gripu þeir til sinna ráða og handtóku spænska fulltrúann í borginni, Francisco de Montesdoca. Spæanskur her sótti þá á borgina, frelsaði Montesdoca og rændu borgina. Margir borgarbúar voru drepnir. Á næsta ári yfirgáfu Spánverjar borgina aftur er borgarstjórinn lofaði að vera þeim vilhallur. En hann var drepinn og snerist þá borgin aftur gegn Spáni. Nýr landstjóri Spánverja á Niðurlöndum varð Alexander Farnese. Hann fór með herliði til Maastricht 1579 og hóf umsátur. Það hófst í mars og stóð í fjóra mánuði. 29. júní réðust Spánverjar á borgina í miklu áhlaupi og tókst að hertaka hana. Þeir rændu allt sem þeir gátu og drápu þúsundir borgarbúa. Sumar heimildir nefna að allt að 4.000 hafi verið drepnir. Spánverjar héldu borginni í 53 ár. 1632 náði Friðrik Hinrik af Óraníu að frelsa borgina úr höndum Spánverja og setti hana undir yfirstjórn hollensku fylkjanna. Borgin var þó nær innikróuð yfirráðasvæði Spánverja.

Frakkar

Þegar verslunarstríð Hollendinga og Englendinga stóð yfir 1672-79 notuðu Frakkar sér ástandið og sátu um borgina Maastricht 1673. Það var Loðvík XIV sem sóttist eftir að stækka ríki sitt. Einn af hans mönnum var d’Artagnan, einn af skyttum Frakklandskonungs. Þegar Frakkar voru að sækja á Tongershliðið við suðvesturmúr borgarinnar 25. júní, féll d’Artagnan fyrir byssukúlu, en hún hæfði hann í barkakýlið. Árið 2003 var reistur minnisvarði um skyttuna frægu á staðnum, en hliðið sjálft er löngu horfið. Frakkar náðu að hertaka borgina, en héldu henni aðeins til 1678. Í austurríska erfðastríðinu voru Frakkar aftur á ferð 1748 og hertóku borgina, en skiluðu henni skömmu seinna. Enn hertóku Frakkar Maastricht 1794 er Niðurlönd voru hertekin. Að þessu sinni var Maastricht innlimuð Frakklandi, sem varð að franskri borg í 20 ár, eða meðan Napoleons naut við. Hún var gerð að höfuðborg sýslunnar (dpepartement) Meuse-Inférieure.

Höfuðborg

Módel af Maastricht á 18. öld. Horft til suðvesturs.

1815 varð Maastricht hluti af konungdæmi sameinaðra Niðurlanda. Hún varð að höfuðborg héraðsins Limburg, sem þá var talsvert stærri en í dag. 1830 gerðu Belgar uppreisn og lýstu yfir sjálfstæði. Maastricht var boðið upp á að ráða sjálf hvort hún vildi tilheyra Belgíu eða Hollandi, og var niðurstaðan sú að borgin valdi Holland. Þetta kom á óvart, því Maastricht var með meiri tengsl við suðurhluta Niðurlanda og var að auki kaþólsk. Héraðið Limburg var því skipt. Vestur- og suðurhlutinn tilheyrði Belgíu, en austur- og norðurhlutinn tilheyrði Hollandi. Maastricht var höfuðborg hollenska hlutans, sem þó var ekki formlega tekinn upp sem sjálfstætt hérað Hollands fyrr en 1839. Af þessum sökum er Maastricht sú borg Hollands sem síst hefur hollenskan blæ á sér. Þar er auk þess töluð sérstök mállýska, limbúrgíska. Þessi sérstaki blær var sérlega áberandi alla 19. öldina og eymir af honum enn í dag. Sökum mikilla tengsla við Þýskaland og Belgíu hófst iðnvæðingin í Maastricht fyrr en í öðrum hollenskum borgum. 1853 hlaut borgin járnbrautartengingu, reyndar til þýsku borgarinnar Aachen.

Nýrri tímar

Þýskir skriðdrekar í Maastricht 10. maí 1940

Í byrjun 20. aldar urðu hollensk áhrif á borgina sterkari, sérstaklega meðan heimstyrjöldin fyrri geisaði. 10. maí 1940 réðust Þjóðverjar inn í Holland. Maastricht var meðal allra fyrstu borga sem þeir réðust á, sökum legu hennar. En Hollendingar veittu slíka mótspyrnu að það tók nasista langan tíma að ná borginni. Allar brýr yfir Maas voru eyðilagðar. Borgin féll síðdegis og var hún síðasta borgin í Limburg til að falla í hendur nasistum. Hún var einnig fyrsta hollenska borgin sem bandamenn frelsuðu 1944. 1976 var háskólinn Maastricht University stofnaður. Hann er þekktur fyrir nútíma kennslufræði og hefur hlotið háar alþjóðlegar viðurkenningar. Um helmingur stúdenta eru útlendingar. 1992 voru Maastricht-samningarnir undirritaðir í borginni, en þeir marka upphafið að Evrópusambandinu (sem arftaki Evrópubandalagsins). Samningarnir tóku gildi 1. nóvember 1993.

Viðburðir

TEFAF er heiti á listasýningu í Maastricht, þeirri stærstu og merkustu í heimi. Sýningin er liðuð í eftirfarandi flokka:

  • Antík (s.s. húsgögn, styttur)
  • Egypskir og klassískir listmunir
  • Handrit, sjaldgæfar bækur og kort
  • Málverk, teikningar og þrykkimyndir
  • Nútímalist
  • Skartgripir

Karneval er haldið árlega að hausti.

Íþróttir

Amstel Gold Race er hjólreiðakeppni sem fram fer árlega í og við Maastricht. Vegalengdin eru rúmir 250 km og er keppnin hluti af heimsbikarkeppninni. Síðustu tvö árin sigraði belgíski hjólreiðakappinn Philippe Gilbert. Hjólreiðagoðsögnin Eddie Merckx vann keppnina 1973 og 1975. Daginn fyrir keppnina sjálfa er haldin hjólreiðakeppni fyrir almenning.

Helsta knattspyrnulið borgarinnar er MVV Maastricht, sem í dag spilar í 2. deild. Besti árangur félagsins er 7. sætið í úrvalsdeildinni (1991 og 1992).

Vinabæir

Maastricht viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

Byggingar og kennileiti

  • Servatíuskirkjan er elsta kirkja borgarinnar og talin elsta kirkja Hollands sem enn stendur. Eftir af biskupinn af Tongeren, Servatíus, lést í borginni, var reist kapella yfir gröf hans. Þessi kapella varð gríðarlega vinsæl meðal pílagríma. Í lok 10. aldar var ákveðið að stækka kapelluna og reisa veglega kirkju. Hún var í smíðum allt til 12. aldar, en hlaut nokkrar viðbætur á 13. og 14. öld. 1556 var þriðji turninn reistur milli vesturturnanna tveggja, en hann þurfti að víkja á ný á 18. öld. Frakkar notuðu kirkjuna sem hesthús í hersetu þeirra. Eftir hana var kirkjan gerð upp. 1955 skemmdist hún talsvert í bruna.
  • Frúarkirkjan er önnur helsta kirkjan í Maastricht og er kaþólsk. Vesturhlið kirkjunnar er frá 11. öld, en skipið sjálft og kórinn frá 12. öld. Nunnuklaustur hafði afnot af kirkjunni, en Frakkar lögðu það niður í lok 18. aldar. Sjálfir notuðu þeir bygginguna sem hesthús. Eftir brotthvarf Frakka var kirkjan gerð upp og notuð fyrir kaþólskar messur á ný. Helsta listaverk kirkjunnar er Maríustyttan Stjarna hafsins (Sterre der Zee), en hún er notuð í skrúðgöngu safnaðarins einu sinni á ári.
  • Helpoort er gamalt borgarhlið. Það var reist 1229 og er elsta borgarhlið Hollands sem enn stendur. Hel- merkir helja og er heitið tilkomið af því að óvinir borgarinnar óttuðust hið mikla hlið. Strax á 14. öld var borgarmúrinn stækkaður og missti hliðið þá hlutverk sitt. Í upphafi 20. aldar var það notað sem stúdíó fyrir listamenn. Í dag er í því veitingahús.

Heimildir

Fyrirmynd greinarinnar var „Maastricht“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 4. nóvember 2011.