Hollenska (Nederlands; framburðurⓘ), er lágþýskttungumál sem talað er af u.þ.b. 24 milljónum manna, aðallega í Hollandi og Belgíu. Þær hollensku mállýskur sem talaðar eru í Belgíu eru stundum kallaðar flæmska. Hollenska er stundum í daglegu tali kölluð Hollands í heimalandinu, en sú orðnotkun fer minnkandi.
Fornt handritsbrot á hollensku segir: „Hebban olla vogala nestas hagunnan, hinase hic enda tu, wat unbidan we nu“ („Allir fuglar hafa hafist handa við að byggja hreiður, nema ég og þú, hvers bíðum við nú“). Handritið var skrifað um 1100 af flæmskum munki í nunnuklaustri í Rochester á Englandi. Lengi vel var litið á þessa setningu sem elsta dæmi um ritaða hollensku, en síðan hafa fundist enn eldri brot eins og „Visc flot aftar themo uuatare“ („Fiskur synti í vatninu“) og „Gelobistu in got alamehtigan fadaer“ („Trúirðu á Guð, almáttugan föður“). Það síðarnefnda var skrifað um 900. Prófessor Luc de Grauwe frá Gent-háskóla efast þó um að þarna sé um hollensku að ræða, og telur að á ferðinni sé fornenska, svo að enn eru deilur um þessi handrit.
Hebban olla vogala-handritsbrotið.
Samræming tungumálsins hófst á miðöldum, einkum undir áhrifum búrgúndísku greifahirðarinnar í Dijon (Brussel eftir 1477). Flæmskar og brabantskar mállýskur voru um þær mundir áhrifamestar. Á 16. öld jókst samræmingin enn frekar, og hafði borgarmállýska Antwerpen þá mest áhrif. Árið 1585 féll Antwerpen í hendur Spánverja, og flúðu þá margir til héraðsins Hollands, en innflytjendurnir höfðu mikil áhrif á þéttbýlismállýskur svæðisins. Árið 1637 var tekið mikilvægt skref í átt að samræmdri tungu,[1] þegar út kom fyrsta stóra hollenska biblíuþýðingin sem fólk þvert yfir Sameinuðu héröðin skildi. Þýðingin var byggð á ýmsum (jafnvel lágþýskum) mállýskum, en þó aðallega á þéttbýlismállýskum Hollands.[2]
Frumgermanska orðið *theodisk (sbr. stofnin „þjóð“, þ.e. „fólksins“ eða „tungumál fólksins“, andstætt opinberu eða vísindamáli, sem var latína, síðar franska) hefur í nútímaþýsku orðið að deutsch („þýskur“). Í hollensku hefur það þróast í tvö form: duits („þýskur“) og diets (þýddi u.þ.b. niðurlenskur/hollenskur, en er fallið úr almennri notkun). Enska orðið Dutch er af sama uppruna og merkti fyrst „þýskur“ (náði þá yfir öll málsvæði há- og lágþýskra mála, m.a. hollensku, s.s. allt Þýskaland, Holland, Belgíu, Austurríki, Sviss, o.s.frv.), en fór í byrjun 17. aldar að merkja einungis „hollenskur“ eða „hollenska“. Nokkur dæmi um eldri merkingu orðsins:
William Caxton (c. 1422–1491) skrifaði árið 1490 í inngang sinn að Aeneids að gamall enskur texti væri líkari Dutche en ensku. Í glósum sínum gerir próf. W. F. Bolton það ljóst að orðið merkir „þýska“ í mjög víðri merkingu frekar en „hollenska“.
Cosmography in four books containing the Chronography and History of the whole world eftir Peter Heylyn, annað bindi (London, 1677: 154) segir m.a. „…the Dutch all call Leibnitz“, og bætir við að Dutch sé töluð í hlutum Ungverjalands við landamæri Þýskalands.
Orðið *theodisk er einnig uppruni íslensku orðanna „þjóðverji“, „þýskur“ og „þýska“ (*theodisk > *þjóðiskr > þýðskr > þýzk(u)r > þýskur), og einnig ítalska orðsins tedesco („þýskur“, „þýska“).
Flokkun og skyldleiki við önnur mál
Hollenska er germanskt tungumál, nánar tiltekið vesturgermanskt. Vegna þess að hún varð ekki fyrir háþýsku samhljóðabreytingunni[n 1] (að undanskildu þ→d) er hún stundum flokkuð sem lágþýskt mál, og reyndar er hún skyldust lágþýsku mállýskunum í norðanverðu Þýskalandi. Í raun breytast mállýskurnar smátt og smátt úr lágþýskum í hollenskar, mörkin þar á milli eru óskýr, og lágfrankísku sveitamállýskurnar neðarlega í Rínardalnum eru mikið líkari hollensku en ríkisþýsku. Skipting vesturgermönsku málanna í lág og há á þennan hátt hylur hins vegar þá staðreynd að hollenska er skyldari ríkis(há)þýsku en ensku.
De kleinste kameleon is maar (slechts) 2 cm groot, de grootste kan wel 80 cm worden. (hollenska)
Das kleinste Chamäleon ist nur 2 cm groß, das größte kann auch 80 cm erreichen. (þýska)
Með ögn óalgengara orðalagi má fá fram skyldari orð í þýskunni:
Der kleinste Chamäleon ist nur (schlechthin) 2 cm groß, der größte kann wohl 80 cm werden. (óalgengari þýska)
(Útleggst á íslensku sem „Minnsta kameljónið er aðeins 2 cm langt, það stærsta getur náð 80 cm [að lengd].“)
Frekari dæmi um náinn skyldleika hollensku og þýsku:
Op de berg staat een klein huisje (hollenska) - Auf dem Berg steht ein kleines Häuschen (þýska)
(á íslensku: Á fjallinu stendur lítið hús.)
In de stad leven veel mensen (hollenska) - In der Stadt leben viele Menschen (þýska)
(á íslensku: Í bænum býr margt fólkt.)
Sums staðar (nálægt landamærum Þýskalands og Hollands/Belgíu) talar fólk bæði þýsku og hollensku. Flestir Hollendingar geta lesið þýsku, og þýskumælandi fólk sem einnig kann ensku getur vanalega skilið ritaða hollensku þótt því finnist talmálið mjög skrýtið.
Hollenska hefur enn fallbeygingu, en hún er nánst takmörkuð við fornöfn og föst orðasambönd og hefur að öðru leyti dottið að mestu úr málinu. Tæknilega er enn gerður greinarmunur á málfræðilegu karl- og kvenkyni, en í reynd má segja að nú séu aðeins tvö málfræðileg kyn í hollensku, hvorugkyn (ákv. gr. het) og samkyn (ákv. gr. de), líkt og í dönsku. Beygingakerfi nafnorða og sambanda þeirra hefur verið einfaldað til muna, og líkist fremur því enska en því þýska.
Upprunaleg hollensk orð (þ.e. orð sem ekki eru tökuorð) koma úr sameiginlegum vesturgermönskum grunni, og með tilliti til hljóðbreytinga standa þau einhvers staðar á milli ensku og þýsku. Í töflunni hér að neðan má sjá samanburð þessara mála. Íslenska er nokkuð fjarskyldari (norðurgermanskt, en er engu að síður höfð með til samanburðar og skilningsauka).
Íslenska
Enska
Hollenska
Þýska
Athugasemd
eta köttur tún
eat cat town (bær)
eten kat tuin (garður)
essen Katze Zaun (girðing)
Íslenska, enska og hollenska hafa haldið germönsku t; í þýsku hefur orðið breytingin t→s/z/tz
epli pípa þorp
apple pipe (Scun)thorpe
appel pijp dorp
Apfel Pfeife Dorf
Íslenska, enska og hollenska hafa haldið germönsku p; í þýsku hefur orðið breytingin p→f/pf
þenkja bróðir þorn
think brother thorn
denken broer doorn
denken Bruder Dorn
Íslenska og enska hefur haldið germönsku þ; í hollensku hefur, eins og í þýsku, orðið breytingin þ→d
(í gær) garn dagur
yesterday yarn day
gisteren garen dag
gestern Garn Tag
Í hollensku hefur germanskt g breyst í raddaða önghljóðið /ɣ/ (hefur síðan færst aftar í munninum í mörgum mállýskum), en g haldist í stafsetningunni, og líkist því sjónrænt þýsku; í ensku hefur orðið breytingin g→y
Jafnvel þegar hollenska lítur svipað út og þýska, getur framburðurinn þó verið töluvert ólíkur. Þetta gildir sér í lagi um tvíhljóðana og stafinn g, sem er borinn fram svipað ch í svissneskri þýsku. Framburðinum er erfitt að ná fyrir ensku- og þýskumælandi fólk, þó að um frekar skyld mál sé að ræða, en kokhljóðin og tvíhljóðin reynast mörgum erfiðust. Þýskumælandi fólk virðist þá hafa visst málfræðilegt forskot. Auðveldast er fyrir Norður-Þjóðverja að læra málið, en þó er framburðurinn áfram nokkurt vandamál. Hollenska er yfirleitt ekki á námsskrá þýskra skóla, nema sums staðar rétt við landamærin, t.d. í Aachen eða Oldenburg.
Landfræðileg dreifing
Hollenska er töluð af flestum íbúum Hollands. Hún er einnig töluð af flestum í hinum flæmska norðurhluta Belgíu, að undanskilinni Brussel, en þar er hollenska í minnihluta (ca. 10%) og franska er móðurmál flestra. Nyrst í Frakklandi eru minnihlutahópar sem tala hollensku, en málið er þar oftast kallað Vlemsch. Á karabísku eyjunum Arúba og Hollensku Antillaeyjum er töluð hollenska, en ekki eins mikið og papiamento. Hollenska er einnig töluð í Súrínam og af sumum í Indónesíu. Í Suður-Afríku og Namibíu er töluð afríkanska, en hún er náskyld hollensku og er komin af máli hollenskra innflytjenda á 17. og 18. öld.
Opinber staða
Hollenska er opinbert tungumál Hollands, Belgíu, Evrópusambandsins[3], Súrínam, Arúba og Hollensku Antillaeyja. Hollensk, flæmsk og súrínömsk yfirvöld stjórna saman opinberu formi málsins í Hollenskri málstöð (Nederlandse Taalunie). Afrikaans er opinbert mál í Suður-Afríku. Á Nýja-Sjálandi segja 0,7% að heimilismál þeirra sé hollenska. Þó er þar hlutfall fólks frá Hollandi töluvert hærra, en flestir af annarri kynslóð nota frekar ensku.
Standaardnederlands eða Algemeen Nederlands („Almenn hollenska“, oft stytt í AN) er hið staðlaða mál sem kennt er í skólum og notað af yfirvöldum í Hollandi, Flæmingjalandi, Súrínam og Hollensku Antillaeyjum. Hollensk málstöð ákveður hvað skuli teljast AN og hvað ekki, t.d. hvað varðar stafsetningu. Hugtakið Algemeen Nederlands var tekið upp í stað hins eldra heitis Algemeen Beschaafd Nederlands („Almenn siðmenntuð hollenska“, ABN) þegar það var ekki lengur talið viðeigandi vegna þess að það gaf í skyn að þeir sem ekki töluðu ABN væru ósiðmenntaðir.
Mállýskur
Flæmska er hugtak sem oft er notað yfir þær hollensku mállýskur sem talaðar eru í Belgíu. Flæmska er ekki sérstakt tungumál (þó er hugtakið oft notað til að greina á milli ritstaðals Hollands og Belgíu), enda eru mállýskurnar í Belgíu ekkert skyldari hver annarri en hollenskum mállýskum. Ritstaðallinn er örlítið ólíkur í Hollandi og Belgíu: Flæmingjar nota frekar eldri myndir orða og framburðurinn er oft talinn „mýkri“ en í Hollandi, en það finnst sumum Hollendingum hljóma undarlega eða gamaldags. Aftur á móti líta Belgar á hollenska hollensku sem harðari og kokmæltari; sumum þeirra finnst hún of kraftmikil, óvinsamleg, og jafnvel dálítið hrokafull. Bera mætti þennan mun saman við muninn á breskri og bandarískri ensku, sem nota örlítið mismunandi orðaforða þótt bæði formin séu opinberlega rétt hvort á sínum stað. Hins vegar er bandarísk enska af sumum talin fátæklegri afleiða enskunnar, en hollenska og flæmska eru að þessu leyti sögulega jafnar.
↑Friedrich Maurer uses the term Istvaeonic instead of Franconian; see Friedrich Maurer (1942), Nordgermanen und Alemannen: Studien zur germanischen und frühdeutschen Sprachgeschichte, Stammes- und Volkskunde, Bern: Verlag Francke.