Danska (dansk; framburðurⓘ) er norrænt tungumál af germanskri grein indóevrópsku málaættarinnar.
Nú á dögum er danska aðallega töluð af þeim sem búa í Danmörku, þ.e. íbúum á Jótlandi, eyjunum Fjóni og Sjálandi og um 130 smáeyjum að auki. Danska er einnig töluð á svæðum í Norður-Þýskalandi nálægt landamærum Danmerkur og Þýskalands og hún er kennd í skólum á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi. Færeyjar og Grænland eru með heimastjórn í ríkjasambandi við Danmörku en á Íslandi er danska kennd af sögulegum ástæðum (Ísland var undir danskri stjórn fram til 1944).
Danskan fór að mótast sem eigið mál aðgreint frá fornnorrænu á 13. öld en það er frá og með fyrstu Biblíuþýðingunni 1550 sem hún aðgreinist verulega frá sænsku og verður eigið mál. Það er þó enn mun auðveldara fyrir svía og dani að skilja ritað mál hvors annars en talmál. Nútíma danska einkennist af sterkri tilhneigingu til að sleppa mörgum hljóðum í framburði sem gerir hana erfiða að skilja fyrir útlendinga.
Þjóðtungur eða mállýskumunur
Ef farið væri eftir venjulegum reglum um skilgreiningu á sjálfstæðum málum mundu skandinavísku málin, danska, norska og sænska vera álitin mállýskuafbrigð af sameiginlegu tungumáli. Af sögulegum (meðal annars mörgum og löngum stríðum milli danaveldis og svía á 16. og 17. öld) og pólitískum ástæðum hafa þó skapast sérstakar reglur fyrir hvert mál um málfræði og orðaforða. Mælendur á dönsku, norsku og sænsku geta skilið megnið af máli hvers annars en kannanir sýna að Norðmenn eiga mun auðveldara með að skilja bæði dönsku og sænsku en Svíar og Danir hvorir aðra.
Söguágrip
Fornausturnorræna er í Svíþjóð nefnd rúnasænska og í Danmörku rúnadanska, þó að fram á 12. öld hafi sama mál verið talað á báðum landsvæðunum. Málin eru nefn rúnamál vegna þess að allt ritmál sem til er frá þessum tíma er rúnaletur. Megnið af fornnorrænu rúnasteinunum eru áletraðir með yngra Fuþark stafrófinu sem einungis hafði 16 bókstafi. Vegna þess að svo fáa stafi var um að velja var hver stafur notaður fyrir mörg hljóð. Til dæmis var sérhljóðið u einnig notað fyrir o, ø og y, og rúnin i var notuð fyrir e.
Ein af þeim breytingum sem aðgreindi fornausturnorrænu (rúna- sænsku og dönsku) var hljóðbreyting tvíhljóðsins æi (fornvesturnorræna ei) í einhljóðið e, eins og í stæin yfir í sten. Þetta sést á rúnasteinunum þar sem á þeim eldri stendur stain og yngri stin. Einnig breytist au eins og í dauðr yfir í ø eins og í døðr. Á sama hátt breyttist tvíhljóðið øy (fornvesturnorræna ey) yfir í ø.
Á miðöldum breytist smám saman við ritun latínutexta á Norðurlöndum "ae" í æ – og einnig stundum í a' –. Samsetningin "aa" varð á sama hátt að aa, og "oe" varð oe. Þessir þrír bókstafir urðu á dönsku æ, å og ø.
Dönsk tunga var fyrir og um ár 1000 mikið töluð í norðausturhluta Englands. Á þeim tíma var tungumál norrænna manna nefnd dönsk tunga hvort sem þeir komu frá Danmörku, Noregi eða Svíþjóð.
Nútímadanska einkennist mjög af áhrifum frá þýsku (ekki minnst lágþýsku) og einnig frönsku. Þýsk orð komu inn í málið þegar á miðöldum gegnum verslunarsamskipt við hansakaupmenn. Einnig var algengt að danskir handverksmenn færu til Evrópu í leit að þjálfun og vinnu og urðu þeir að læra þýsku til að geta haft samskipti við fólk. Þegar þeir sneru heim héldu þeir oft áfram að nota fræðiorð sem þeir höfðu lært erlendis og tengdust iðn þeirra. Frönsk áhrif voru sterk innan dómskerfisins og stjórnkerfisins og franska leikhúsið, myndlist og tónlist leiddu af sér mörg tökuorð sem nú eru álitin fullkomlega eðlileg í dönsku, eins og orðin genre og bureau. Danska tók greiðlega við öllum þessum nýju orðum, oft þar sem hliðstæð heiti voru ekki til í dönsku. Stafsetningin hélst yfirleitt óbreytt en framburður og beyging tökuorðanna varð smám saman dönsk.
Mállýskur
Stöðluð danska (rigsdansk eða rigsmål) byggir á þeim mállýskum sem talaðar voru í og kringum Kaupmannahöfn. Mállýskumunur var áður mjög áberandi í dönsku hafur nú mikið minnkað og allar mállýskurnar hafa mjög aðlagast ríkisdönskunni.
Mállýskurnar eru flokkaðar í: Østdansk („austurdanska“), ødansk („eyjadanska“) og jysk („jóska“)
Sögulega séð er austurdanska það sem nú er suðursænska mállýskan skánska, og mállýskan sem töluð var á eyjunni Borgundarhólmi. Skánn, ásamt héruðunum Blekinge og Halland, voru hluti af Danmörku til 1658. Þó margt sé enn líkt í skánsku og bornhólmsku hafa báðar mállýskurnar í reynd aðlagast sitt hverju ríkismáli. Bornhólmskan hefur til dæmis þrjú kyn nafnorða öfugt við samkyn og hvorugkyn í venjulegri dönsku.
Framburður
Hljóðkerfið í dönsku er nokkuð sérstakt. Sérhljóð eru mörg, 16 að tölu, og með mismunandi lengd eru í dönsku 24 sérhljóðafónem. Nútímadanska einkennist af tilhneigingu til að sleppa hljóðum í talmáli.
Að telja á dönsku
Danska talnakerfið er byggt á grunneiningunni tuttugu eins og í frönsku ólíkt öðrum norrænum málum. Þetta þýðir að 20 (tyve) er grunnurinn: Tres (stytting á tresindstyve) þýðir þrisvar sinnum 20, það er 60; firs (stytting á firsindstyve) þýðir fjórum sinnum 20 það er 80. Halvtreds þýðir (3 - 1/2) sinnum 20 (bókstaflega, „hálfur þriðji“, það er tvisvar sinnum 20 plús helmingur af 20), það er 50; halvfjerds þýðir (4 - 1/2) sinnum 20, það er 70; og halvfems þýðir (5 - 1/2) sinnum 20, það er 90.
10-Ti, 20-Tyve, 30-Tredive, 40-Fyrre, 50-Halvtreds, 60-Tres, 70-Halvfjerds, 80-Firs, 90-Halvfems, 100-Hundrede
Ritmál
Danska notar latneska stafrófið að viðbættum þremur bókstöfum: æ, ø, og å. Danska og norska nota sömu stafrófsröð. Breytingar voru gerðar á stafsetningu 1948 þar sem bókstafurinn „å“ (sem þegar var notaður í norsku og sænsku) var tekinn upp í stað „aa“. Í nöfnum er gamla stafsetningin stundum enn notuð (til dæmis er Ålborg stundum stafað Aalborg).
Danska og norska nota sama stafróf með 29 bókstöfum:
A, B, C, D, E, F, G, H, I, J, K, L, M, N, O, P, Q, R, S, T, U, V, W, X, Y, Z, Æ, Ø, Å.
Tengt efni