Darmstadt

Darmstadt
Skjaldarmerki Darmstadt
Staðsetning Darmstadt
SambandslandHessen
Flatarmál
 • Samtals122,11 km2
Hæð yfir sjávarmáli
144 m
Mannfjöldi
 • Samtals160.000 (2.019)
 • Þéttleiki1.226/km2
Vefsíðawww.darmstadt.de
Miðborgin í Darmstadt

Darmstadt er fjórða stærsta borgin í þýska sambandslandinu Hessen með 160 þúsund íbúa (2019) Darmstadt er mikill skólabær og er með auknefnið Wissenschaftsstadt (Vísindaborgin).

Lega

Darmstadt liggur mjög sunnarlega í Hessen og er hluti af stórborgarsvæði Frankfurt. Næstu borgir eru Frankfurt am Main til norðurs (20 km), Wiesbaden og Mainz til norðvesturs (20 km), Mannheim til suðurs (40 km) og Würzburg til austurs (70 km).

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Darmstadt er tvískiptur skjöldur. Fyrir ofan er rautt ljón á gulum fleti. Ljónið var tákn greifanna frá Katzenelnbogen, en þeir réðu lengi yfir borginni. Fyrir neðan er hvít lilja á bláum fleti. Merking hennar er óviss en talið er að hún sé tákn fyrir Maríu mey, verndardýrling höfuðkirkjunnar í Darmstadt. Skjaldarmerki þetta kom fyrst fram á 15. öld en var tekið upp í núverandi mynd 1917.

Orðsifjar

Byggðin hét upphaflega Darmundestat og er samsett úr Darmunde eða Darimund (mannanafn) og stat, sem merkir staður. Ekki er þó vitað hver Darmunde var.[1] Ýmsar útskýringar hafa litið dagsins ljós og jafnvel þjóðsögur um tilurð heitisins, en það er eftir sem áður umdeilt.

Saga Darmstadt

Upphaf

Talið er að byggðin Darmstadt hafi verið mynduð af frönkum á 8. eða 9. öld. Hún kemur þó ekki fyrir í skjölum fyrr en í lok 11. aldar. Bærinn var eign greifanna af Katzenelnbogen, en hann kom lítið sem ekkert við sögu næstu aldir. Lúðvík IV keisari veitti Darmstadt borgarréttindi árið 1330. Skjalið með innsigli keisara er enn til og er til sýnis á safni í borginni. Í kjölfarið fékk Darmstadt varnarmúra. 1479 dó ætt greifanna af Katzenelnbogen hins vegar út. Þeir höfðu reist kastala þar en hann var þó ekki aðalaðsetur þeirra. Heinrich III frá Oberhessen erfði þá borgina, en engir greifar sátu lengur í Darmstadt. Hún varð eftir þetta aðeins að lítilli útborg í Hessen.

Stríð

Darmstadt 1655. Mynd eftir Matthäus Merian.

1518 réðist landgreifinn Filippus hinn kjarkmikli á borgina. Filippus var nýgenginn í lið með mótmælendum og barðist af alefli gegn kaþólsku kirkjunni. Borgarmúrar Darmstadt voru tiltölega nýir, en lélega hannaðir. Filippus náði að brjótast inn og eyddi stórum hluta borgarinnar. 1527 fóru siðaskiptin fram í borginni. Borgarmúrarnir voru endurreistir, en aðeins eins og þeir voru áður. Það voru mikil mistök, því þegar borgin stóð með herjum mótmælenda í trúarstríðinu (Schmalkaldischer Krieg) mætti keisaraherinn á staðinn og hafði lítið fyrir því að komast inn í borgina. Hún var þá lögð í rúst í annað sinn á skömmum tíma. En þetta var aðeins byrjunin. Næstu 100 árin var borgin rústuð þrisvar í viðbót. Eftir tvær skæðar pestir 1585 og 1633 ruddust Frakkar inn í landið 1635 í 30 ára stríðinu. Þeir brenndu nærsveitir, eyðilögðu akra og rændu borgina. Aðeins fjórum árum síðar gerði bæverskur her, hliðhollur keisaranum, nákvæmlega það sama, nema hvað þeir nær gjöreyddu borginni í þokkabót. Nærri stríðslokum 1647 hertók franskur her borgina á nýjan leik og eyðilagði það sem tekist hafði að byggja upp aftur. 1693 var enn ráðist á borgina í erfðastríðinu í Pfalz. Að þessu sinni náðu borgarbúar að verjast. Skemmdir urðu litlar miðað við fyrri stríð.

Nýrri tímar

Darmstadt 1900. Öll húsin eyðilögðust í loftárásum seinna stríðs

Eftir hörmungar síðustu alda var Darmstadt lútersk. Það var ekki fyrr en 1790 landgreifinn Lúðvík X leyfði kaþólikkum að iðka trú sína í borginni. Nokkrum árum síðar fengu gyðingar leyfi til að kaupa fasteignir og 1796 fengu þeir jafnvel almenn borgararéttindi, eitthvað sem ekki tíðkaðist almennt. 1806 gekk Ludwig landgreifi í Rínarbandalagið og fyrir vikið veitti Napoleon honum því nafnbótina stórhertoga. Hessen-Darmstadt breyttist því úr greifadæmi í stórhertogadæmi. Það var lagt niður 1918 er Þjóðverjar töpuðu heimstyrjöldinni fyrri. Darmstadt varð hluti af lýðveldinu Hessen (Volksstaat Hessen) innan Weimar-lýðveldisins. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir gríðarlegum loftárásum, samtals 36 sinnum og eyðilagðist 99% miðborgarinnar. Það var jafnframt hlutfallslega næstmesti mannsskaði allra borga Þýskalands í loftárásum (á eftir Pforzheim). Í stríðslok hertóku Bandaríkjamenn borgina og varð hún hluti af hernámssvæði þeirra. Sökum fjölda skóla (háskóla og tækniskóla) í borginni var auknefnið Wissenschaftsstadt (Vísindaborgin) bætt við borgarheitið.

Viðburðir

Hljómsveitin Empty Trash á sviði í Schlossgrabenfest

Schlossgrabenfest er heiti á stærsta open-air tónleikum innanborgar í Þýskalandi. Þeir hófu göngu sína 1999 og fara fram árlega síðustu helgina í maí. Sú tónlist sem boðið er upp á er rokk, popp, reggí, hipp-hopp, soul og jazz. Árið 2006 tróðu 60 hljómsveitir upp. Aðgangur er ókeypis.

Heinerfest er þjóðhátíðin í borginni og er hún næststærsta þjóðhátíð í suðurhluta Hessen. Hátíðin hóf göngu sína 1951 til að lífga upp á endurreisn borgarinnar eftir skemmdir í seinna stríðinu. Hátíðin stendur í fimm daga í kringum fyrsta sunnudag í júlí. Þá er boðið upp á útiskemmtanir, sem og leikhús, sýningar, tónleika, kvikmyndir og íþróttaviðburði. Við lok hátíðarinnar er flugeldasýning. Heinerfest er dregið af gælunafni íbúa Darmstadt, en þeir eru kallaðir Heiner.

Vinabæir

Darmstadt viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

Byggingar og kennileiti

Rússneska kapellan
  • Kastalinn í Darmstadt var aðsetur greifanna í borginni. Elstu hlutar hans eru frá miðri 13. öld og voru reistir af greifunum í Katzenelnbogen. Þegar ættin dó út, komst borgin í eigu greifanna í Hessen-Darmstadt, sem bættu við álmum. En 1518 eyðilagði Filippus hinn kjarkmikli kastalann að stórum hluta er hann réðist á borgina. Hann var endurreistur, en eyðilagðist aftur í trúarstríðinu 1547. Aftur var endurbyggt og aftur brann höllin 1693 þegar Frakkar gerðu atlögu að borginni. Núverandi bygging er frá 1715-26. Kastalinn brann svo í fjórða sinn í loftárásum 1944. Í dag er í honum bókasafn, deild frá tækniháskólanum í borginni, lögreglustöð, leikhús og stúdentakjallari.
  • Waldspirale er eflaust skrýtnasta hús í borginni og þótt víðar væri leitað. Þetta hús er úr hugmyndasmiðju austurríska listamannsins Friedensreich Hundertwasser og var reist árið 2000. Hér er um íbúðablokk að ræða í spíralformi. Þaðan er heitið komið, en Waldspirale merkir skógarspírall. Húsið stendur ekki í skógi, heldur á húsið að vera hluti náttúrunnar. Tré vaxa á þakinu og víðar, en þakið er aflíðandi, þannig að hægt er að ganga upp á það. Á húsinu eru ca. 1000 gluggar, allir mismunandi og enginn eins. Engin horn eru á húsinu, hvorki að utan né að innan.
  • Rússneska kirkjan var reist 1897-1899 af rússneska keisaranum Nikulási II, en eiginkona hans Alexandra var frá Hessen-Darmstadt. Kirkjan stendur á Matthildurhæðinni. Í kirkjunni fara fram guðsþjónustur rétttrúnaðarkirkjunnar.

Tilvísanir

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 75.

Heimildir

Fyrirmynd greinarinnar var „Darmstadt“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt mars 2010.