Göttingen

Göttingen
Skjaldarmerki Göttingen
Staðsetning Göttingen
SambandslandNeðra-Saxland
Flatarmál
 • Samtals116,89 km2
Hæð yfir sjávarmáli
150 m
Mannfjöldi
 (2019)
 • Samtals119.000
 • Þéttleiki1.000/km2
Vefsíðawww.goettingen.de

Göttingen er borg í þýska sambandslandinu Neðra-Saxland með 119 þúsund íbúa (2019).

Lega

Naflinn í Göttingen

Göttingen liggur við ána Leine allra syðst í Neðra-Saxlandi, steinsnar frá þeim punkti þar sem sambandslöndin Þýringaland, Hessen og Neðra-Saxland skerast. Næstu borgir eru Kassel til suðvesturs (40 km), Hildesheim til norðurs (70 km), Brúnsvík til norðausturs (90 km) og Erfurt til suðausturs (100 km).

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Göttingen sýnir gyllt ljón á rauðum grunni, með kastala í bakgrunni. Ljónið er merki Welfen-ættarinnar en borgin var á áhrifasvæði hennar. Kastalinn merkir borgina sjálfa. Merki þetta kom fyrst fram 1278 en var formlega tekið upp 1961.

Orðsifjar

Borgin fékk heiti gamals bæjar í nágrenninu sem hét Gutingi, sem breyttist í Gotinge og Gottingen á 13. öld, og loks í Göttingen. Guntingi merkir annað hvort eitthvað í sambandi við guði (sbr. guð, gud, god) eða eitthvað í sambandi við rennandi vatn en lækurinn Gote rann í gegnum þorpið.[1]

Söguágrip

Upphaf

Upphaf Göttingen var litla þorpið Gutingi en það heiti kemur fyrst við skjöl 953 hjá Otto I keisara. Seinna var keisaravirki (Pfalz) reist norðvestur af þorpinu, við ána Leine. Þar myndaðist síðan borgin, sem fékk lánað heiti þorpsins í grennd. Það var líklega Hinrik ljón sem veitti Göttingen borgarréttindi í kringum 1150-1180. Árið 1286 fékk greifinn Albrecht der Feiste yfirráð yfir suðurhluta Neðra-Saxlands og valdi Göttingen sem aðsetur. Borgin vex mikið við það. 1318 fékk greifinn Otto hinn mildi yfirráð yfir Göttingen, sem varð að hluta furstadæmisins Braunschweig-Lüneburg. Um þetta leyti mun Göttingin hafa gengið í Hansasambandið, því hún tók þátt í Hansadögum 1351. Borgin gengur hins vegar sjálfviljug úr sambandinu 1572.

Siðaskipti og stríð

Göttingen 1585

1529 barst lúterstrú fyrsti til borgarinnar en formlega fóru siðaskiptin fram ári síðar. 1625 settist Wallenstein úr kaþólska keisarahernum um borgina í 30 ára stríðinu en létti umsátrinu er hann fékk afhendar 1000 kýr fyrir her sinn. En aðeins ári seinna kom Tilly með kaþólskum her til Göttingen og gerði umsátur um hana í fimm vikur. Hann náði þó ekki að vinna borgina fyrr en her hans hafði breytt farvegi árinnar Leine á ævintýralegan hátt. Tilly gerði sér heimakært í Göttingen og sat þar í sex heil ár. Hann yfirgaf ekki borgina fyrr en hann tapaðí fyrir Svíum í orrustunni við Breitenfeld 1631. En þá komu Svíar sér fyrir í borginni og þurftu borgarbúar að greiða þeim mat og skatt í nokkur ár. 1641 settist Piccolomini úr keisarahernum í síðasta sinn um borgina en hún stóðst áhlaupin. Miklar þrengingar urðu fylgifiskar stríðsins og fækkaði íbúum um helming.

Umbreytingar

Carl Friedrich Gauss var prófessor við háskólann í Göttingen

1737 var háskólinn Georg August Universität stofnaður í borginni, (hann er nefndur eftir Georg II Englandskonungi sem ættar var frá Hannover). Margir þekktir einstaklingar námu við skólann, svo sem Otto von Bismarck, Alexander von Humboldt, Max Planck, Werner Heisenberg og fleiri. 1757-62 var franskur her í borginni í 7 ára stríðinu. Þekktasti prófessorinn var án efa Carl Friedrich Gauss. Að því loknu voru borgarmúrarnir rifnir til að skapa byggingarpláss, enda fór íbúum ört fjölgandi. Héraðið allt var hertekið af Frökkum í upphafi 19. aldar. 1807 var Göttingen innlimað í konungsríkið Vestfalíu. Eftir tap Napoleons við Leipzig 1813 hurfu allir Frakkar. Konungsríkið Vestfalía er leyst upp og Göttingen innlimað konungsríkinu Hannover allt til 1866 er prússar hertaka ríkið.

Nýrri tímar

1944 varð Göttingen fyrir loftárásum bandamanna en þær voru til að gera litlar og skemmdir takmarkaðar. Hins vegar skemmdust Hannover, Kassel og Brúnsvík töluvert og fylltist Göttingen af flóttamönnum þaðan. Ári síðar var borgin hertekin af Bandaríkjamönnum bardagalaust og hún eftirlátin Bretum, enda var borgin á hernámssvæði Bretlands. 1957 hittust 18 þýskir kjarneðlisfræðingar í Göttingen og sömdu sameiginlega yfirlýsingu þess eðlis að Þýskaland ætti ekki að hervæðast á ný og þaðan af síður að eignast kjarnorkuvopn, eins og Konrad Adenauer kanslari hafði bryddað upp á. Meðal þekktra eðlisfræðinga sem undirrituðu yfirlýsinguna voru Max Born, Otto Hahn, Werner Heisenberg og Max von Laue, allt Nóbelsverðlaunahafar.

Frægustu börn borgarinnar

Byggingar og kennileiti

Gamla ráðhúsið
  • Gamla ráðhúsið var notað í 500 ár. Byrjað var að reisa það 1270 og var notað til 1978, er nýtískulegt hús var tekið í notkun. 1632 skemmdist húsið töluvert í 30 ára stríðinu er herir mótmælenda hrifsuðu borgina úr höndum keisarahersins. Í dag er húsið notað sem viðhafnarbygging og fyrir sýningar alls konar. Þar er einnig upplýsingaskrifstofa ferðamanna.
  • Albanskirkjan stendur á stað þar sem gamla kirkjan frá 953 í Gutingi stóð áður. Núverandi kirkja var reist 1400-1467 í gotneskum stíl. Nokkrar gersemar eru í kirkjunni, til dæmis gamalt hliðaraltari en hafa ber í huga að engar skemmdar voru unnar á kirkjunni í heimstyrjöldinni síðari. Þegar viðgerðir stóðu yfir 1996, fundust gamlar veggjamyndir á lofti kirkjunnar.
  • Jakobskirkjan er hæsta og elsta nústandandi kirkjubygging borgarinnar. Kirkjan var reist 1361-1433 í gotneskum stíl. Turninn er 72 metra hár. Kirkjan er helguð Jakobi postula (hinum eldra), verndardýrlingi pílagríma. 1642 skemmdist turninn töluvert í eldingu og brann allur að innan. 1696 var litla hvolfþakið smíðað á turninn, sem gefur honum einkennilegt útlit. Eftir frekari viðgerði á kirkjuskipinu stendur turninn eins og svartur skorsteinn upp úr. Kirkjan er einnig notuð fyrir listasýningar í dag.
  • Bismarckhúsið er síðasti hluti gamla borgarvirkisins sem enn stendur. Hann var reistur 1447 og hét þá allt annað. Núverandi heiti fékk turninn eftir einum frægasta stúdenti borgarinnar, Otto von Bismarck, sem stundaði nám við háskólann 1831-32 og bjó þá í turninum. Hann sjálfur var þá aðeins 17 ára gamall og lagði stund á lögfræði. Í dag er turninn safn og minningarhús um gamla ríkiskanslarann.
  • Gänseliesel er lítil bronsstytta við brunninn á aðalmarkaðssvæði borgarinnar, beint fyrir framan gamla ráðhúsið. Hún var reist 1901 og var strax í byrjun einkennismerki Göttingen. Mjög snemma myndaðist sá siður að unglæknar klifruðu upp á styttuna, kysstu Liesel og skildu eftir blóm, til að árna sér heilla. Síðan 1995 fer fram keppnin Miss Göttingen og er sú heppna krýnd sem lifandi Liesel.

Myndasafn

Tilvísanir

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 115.

Heimildir

Fyrirmynd greinarinnar var „Göttingen“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt mars 2010.