Frankar

Ríki Franka og stækkun þess fram til ársins 814.

Frankar nefnist germönsk þjóð sem samanstóð af nokkrum vesturgermönskum þjóðflokkum. Upprunaleg heimkynni Franka voru í norðvestur Germaníu; í núverandi Niðurlöndum og í vesturhluta Þýskalands. Seint í fornöld settust þeir einnig að í norðanverðri Gallíu, og urðu þar bandalagsþjóð Rómverja. Frankar lögðu undir sig núverandi Frakkland á 5. og 6. öld og stofnuðu þar sambandsríki. Þegar komið var fram á 9. öld náði ríki þeirra yfir meirihluta þess sem í dag eru Frakkland og Niðurlönd auk vesturhéraða Þýskalands og hluta Ítalíu og Spánar.

Saga

Uppruni

Heimkynni Franka voru upphaflega norðan og austan Rínar en seint á fjórðu öldinni flutti hluti þeirra sig suður yfir Rín, inn á yfirráðasvæði Rómaveldis. Þar gerðust þeir bandamenn (foederati) Rómverja og reyndust mikilvægir í að verja heimsveldið gagnvart árásum Alemanna.[1] Ólíkt því sem gerðist hjá flestum germönskum þjóðflokkum áttu sér ekki stað þjóðflutningar á stórum skala hjá Frönkum, heldur stækkuðu þeir yfirráðasvæði sitt smám saman og héldu yfirráðum yfir upprunalegu heimkynnum sínum.[2]

Mervíkingar

Fyrsti konungur Franka sem náði að leggja öll konungsríki þeirra undir sig var salísk-frankverski konungurinn Klóvis 1., sem ríkti frá 481 til 511. Klóvis var af ætt hins goðsagnakennda konungs Merovech og því hefur ættarveldi hans verið kallað Mervíkingar (eða Meróvingar).[3] Hann lagði mikinn metnað í það að stæka ríki sitt og árið 486 lagði hann undir sig síðustu leifar Vestrómverska ríkisins, en það var svæði í Gallíu sem rómverski hershöfðinginn Syagrius stjórnaði.[4] Í tveimur herferðum, árin 496 og 501, innlimaði hann einnig svæði Alemanna, þar sem nú er Suðvestur-Þýskaland. Í fyrri herferðinni, árið 496, snerist Klóvis til kaþólskrar trúar (í stað aríanisma sem flestar aðrar germanskar þjóðir höfðu gengist undir) og varð þar með fyrsti germanski kóngurinn sem var trúbróðir páfans í Róm.[5] Vestgotar, sem réðu yfir Íberíuskaganum og suðvestur-hluta Gallíu, aðhylltust aríanisma, en flestir íbúar þessara svæða, sem áður voru þegnar Rómaveldis, voru kaþólikkar. Klóvis áleit þetta vera óviðunandi ástand og sneri sér því að því að leggja undir sig svæði Vestgota í Gallíu. Hann sigraði þá árið 507 í bardaganum við Vouillé og hrakti þá út úr Gallíu, suður yfir Pýreneafjöllin.[6]

Eftir að Klóvis lést árið 511 tóku fjórir synir hans við og stækkuðu ríkið enn frekar; þeir lögðu undir sig ríki Thurungía árið 531, ríki Búrgunda árið 534 og hertóku Provence árið 536. Klóthar 1. var sá sonur Klóvisar sem lifði lengst og því ríkti hann að lokum yfir öllu ríki Franka. Þegar Klóthar lést, árið 562, var ríkinu aftur skipt í fernt, á milli sona hans. Ríkið skiptist þá í raun í fjögur konungsríki sem voru að einhverju leyti sjlfstæð frá hverju öðru. Ríkin voru Austrasía, Neustría, Bourgogne og Aquitanía[7] Fljótlega var Aquitaníu skipt á milli hinna ríkjanna og árið 593 rann Bourgogne saman við Austrasíu. Theodórik konungur Austrasíu lést árið 613 og var Klóthar 2. af Neustríu þá fenginn til þess að ríkja yfir öllu ríkinu og sameinaði þannig Frankaríki aftur undir einum konungi.[8] Sonur Klóthars 2., Dagobert, var síðasti mervíski konungurinn sem var virkur stjórnandi yfir öllu Frankaríki því eftir hans dag skiptist ríkið enn og aftur, nú í Austrasíu og Neustríu, og átök um völdin brutust út. Völd konunganna tóku að minnka til muna og staða hallarbryta varð sífellt mikilvægari. Pepin frá Herstal varð Hallarbryti í Austrasíu og undir hans forystu var Neustría lögð að velli í bardaganum við Tertry, árið 687. Pepin gerði Theodórik 3. að konungi yfir öllu ríkinu en það var þó engu að síður Pepin sem stjórnaði, allt til dauðadags árið 714.[9]

Karlungar

Karl Martel, sonur Pepins frá Herstal, varð valdamesti maðurinn í Frankaríki þegar faðir hans lést, þó hann væri að nafninu til aðeins hallarbryti.[10] Valdaættin Karlungar er kennd við Karl Martel og því má segja að með honum hafi valdatími Karlunga hafist, jafnvel þó hann hafi sjálfur ekki haft konungstign. Karl Martel er einna helst þekktur fyrir að hafa stöðvað innrásarher múslima, sem réðist inn í Frankaríki frá yfirráðasvæði múslima á Íberíuskaganum. Karl sigraði þá í bardaganum við Tours árið 732 og er bardaginn almennt talinn hafa stöðvað framrás múslima inn í Evrópu.[11] Þegar konungurinn Theuderik 4. lést, hafði Karl ekki fyrir því að skipa nýjan konung en hélt áfram að stjórna sem hallarbryti og hertogi.[12] Sonur Karls, Pepin litli, skipaði Hildrík 3., af ætt Mervíkinga, sem konung, en sendi síðar sendinefnd til Rómar til þess að fá samþykki páfans um að víkja Hildríki frá og taka konungstignina sjálfur. Páfinn gaf samþykki sitt og eignaðist þar með bandamann, í Pepin, gegn Langbörðum sem ógnuðu valdi hans yfir Rómaborg. Þegar Langbarðar hófu umsátur um Róm árið 756 brást Pepin skjótt við og mætti með her sinn og létti umsátrinu. Þau landsvæði sem Pepin vann af Langbörðum á mið-Ítalíu lét hann páfann fá til að stjórna. Þetta var upphafið að Páfaríkinu sem stóð til 1870.[13]

Hásæti Karlamagnúsar í höll hans í Aachen

Sonur Pepins, Karlamagnús, er líklega þekktasti konungur Karlunga. Hann ríkti frá 768 til 814 og undir hernaðarforystu hans stækkaði ríkið talsvert. Þar að auki var hann hæfur stjórnandi og mikill velunnari menningar og lista. Karlamagnús taldi að konungsríki Langbarða á Ítalíu væri ógn við hagsmuni Franka á Ítalíu og við öryggi páfans í Róm. Árið 773 leiddi hann her sinn yfir Alpana og hertók höfuðborg Lombarða, Paviu. Karlamagnús stjórnaði ríki Langbarða eftir þetta en lét þó krýna son sinn Pepin, sem konung Langbarða. Eftir þetta var krúnu Langbarða haldið af Karlungum. Karlamagnús einsetti sér einnig að leggja undir sig ríki Saxa, í norðanverðu Þýskalandi, og að snúa íbúum þess til kristni. Það tók hann mörg ár og margar herferðir, frá 772 til 785, að ná takmarki sínu, en árið 785 gafst leiðtogi Saxa upp og tók kristna trú.[14], Árið 800 krýndi Leo 3. páfi Karlamagnús sem „Keisara Rómverja“[15], titill sem eftirmenn Karlamagnúsar erfðu sem „Heilagir rómverskir keisarar.“ Karlungar ríktu yfir stórum hluta þess sem í dag er Vestur-Evrópa norðan Pýreneafjalla til ársins 888 þegar ríkinu var endanlega skipt upp.

Tilvísanir

  1. Tierney (1999): 67.
  2. Tierney (1999): 71.
  3. Tierney (1999): 73.
  4. Tierney (1999): 69.
  5. Tierney (1999): 71.
  6. Tierney (1999): 73.
  7. Tierney (1999): 95.
  8. Tierney (1999): 96-97.
  9. Tierney (1999): 103-104.
  10. Tierney (1999): 104.
  11. Tierney (1999): 126.
  12. Tierney (1999): 130.
  13. Tierney (1999): 131.
  14. Tierney (1999): 139.
  15. Tierney (1999): 135.

Heimildir

Tierney, Brian, Western Europe in the Middle Ages: 300 – 1475 (McGraw-Hill College, 1999).