Johan Cruyff

Johan Cruyff, 1974.

Johan Cruyff (Hendrik Johannes Cruijff, fæddur 25. apríl 1947 í Amsterdam - 24. mars 2016) var hollenskur knattspyrnumaður og þjálfari, sem lék aðallega með Ajax Amsterdam og Barcelona. Hjá báðum félögum var hann síðar meir þjálfari. Cruyff hefur löngum þótt með snjallasti miðvörðum. Þrisvar var hann kjörinn knattspyrnumaður ársins í Evrópu og einnig knattspyrnumaður aldarinnar. Með landsliði Hollands komst Cruyff í úrslit á HM 1974.

Ferill

Unglingsárin

Johann Cruyff fæddist og ólst upp í austurhluta Amsterdam, aðeins steinsnar frá heimavelli félagsins Ajax (sem þá var Stadion De Meer). Aðeins sjö ára gamall hóf hann að æfa með Ajax og var fastráðinn að gerast knattspyrnumaður. Cruyff var tólf ára gamall þegar faðir hans lést, þannig að móðir hans hóf að starfa í ræstingu og eldhúsi vallarins. Þetta þýddi að Cruyff var öllum stundum á vellinum eftir skólatíma, kynntist fólki og knattspyrnumenningunni. Til að verja meiri tíma í æfingar ákvað hann að hætta í menntaskóla og komst brátt í unglingalið Ajax.

Ajax

Johan Cruyff í úrslitaleik á HM 1974. Á eftir honum hleypur Þjóðverjinn Berti Vogts.

1964 fékk Cruyff að leika sinn fyrsta leik í Eredivisie (hollensku 1. deildinni), er liðið lék gegn FC Groningen. Leikurinn tapaðist 1-3 en Cruyff skoraði þar sitt fyrsta mark. Fyrir leiktíðina 1965-66 fékk Cruyff samning og varð þar með loks atvinnumaður. Þegar nýr þjálfari, Rinus Michels, var ráðinn til liðsins í janúar 1965 breyttist allt. Michels trúði á Cruyff og lét hann byggja upp vöðva með sér æfingum, ásamt daglegu skógarhlaupi. Samfara þessu breytti Michels gjörvallri skipulagningu liðsins. Cruyff var settur á miðjuna og varð leikstjórnandi. Árangurinn lét ekki á sér standa. 1966 varð Ajax hollenskur meistari. Þau ár sem Cruyff lék með félaginu (1965-1973), varð Ajax ávallt hollenskur meistari (sex sinnum), nema einu sinni. Auk þess varð hann á þessum tíma fjórum sinnum bikarmeistari með liðinu. Johan Cruyff varð skjótt að einum mesta knattspyrnusnillingi Hollendinga, þrátt fyrir að þjóðin hafi ávallt átt úrvals knattspyrnumönnum að skipa. Af öðrum þekktum knattspyrnumönnum í liðinu má nefna, Johan Neeskens, Arie Haan, Ruud Krol og Johnny Rep. Öll ár Cruyffs með Ajax var leikið í Evrópukeppni. 1969 komst félagið í úrslit, en tapaði þar fyrir AC Milan. En þetta var aðeins byrjunin. 1971, 1972 og 1973 náði Ajax þeim ótrúlega árangri að verða Evrópumeistar í þrjú skipti í röð. 1971 sigraði liðið Panathinaikos Aþenu 2-0. 1972 sigraði það Inter Milan 2-0. Í þeim leik skoraði Cruyff bæði mörk Ajax. 1973 sigraði liðið Juventus 1-0. Auk þess varð Ajax heimsbikarmeistari 1972 með sigri á Independiente frá Argentínu. Þessi tími hefur verið kallaður gullaldarár Ajax, en félagið var orðið eitt allra besta félagslið heims. Johan Cruyff var leikstjórnandi liðsins og var valinn knattspyrnumaður ársins í Evrópu 1971 og 1973. Strax á fyrsta atvinnumannaárinu hjá Ajax var Cruyff kallaður í landslið Hollands. Fyrsti leikur hans var 7. september 1966. Leikið var í forkeppni EM gegn Rúmeníu og lyktaði leiknum með 2-2 jafntefli. Í öðrum leik sínum fékk Cruyff að líta rauða spjaldið og varð því fyrsti Hollendingurinn í sögunni sem vísað var af velli í landsleik. Í kjölfarið setti hollenska knattspurnusambandið Cruyff í ársbann fyrir landsleiki. Cruyff var alla tíð mjög gagnrýnin á knattspyrnusambandið og það pirraði hann mjög að Holland skyldi ekki hafa komist í úrslitakeppni HM síðan 1938. Á HM 1970 í Mexíkó var Holland einnig fjarri góðu gamni.

Barcelona

Þjálfarinn Rinus Michels hafði tekið að sér að þjálfa Barcelona og var áfjáður í að fá til sín fyrrum nemanda sinn Cruyff. Undir lok síðasta keppnistímabils síns í Ajax hafði Cruyff verið ósáttur. Þegar Michels falaðist eftir honum, sló hann til. Barcelona keypti Cruyff á metfé og varð hann til skamms tíma dýrasti knattspyrnumaður heims. Fyrsti leikur hans fyrir Barcelona var í október 1973 og skoraði hann strax tvö mörk í 4-0 sigri á Granada. Cruyff smellpassaði í liðið. Það spilaði 24 leiki í röð án taps og niðurlægði Real Madrid með 5-0 sigri á Bernabéu. Cruyff varð spænskur meistari strax á fyrstu leiktíð með Börsungum. Mikil stemning varð í kringum hann og hlaut hann viðurnefnið El Salvador (Frelsarinn). Auk þess varð Cruyff valinn knattspyrnumaður ársins í Evrópu 1974. Sama ár komst Holland í fyrsta sinn í langan tíma í úrslitakeppni HM í Þýskalandi. Í milliriðli sigruðu Hollendingar meðal annars Argentínu og Brasilíu og komust í úrslit. Þar lentu þeir í harðri rimmu við Þjóðverja. Það fór enda svo að Þjóðverjar sigruðu leikinn 2-1. Cruyff varð því aldrei heimsmeistari en stóð með silfrinu á hátindi ferils síns. Cruyff spilaði með Börsungum til 1978 en náði ekki að sigra deildina aftur. Hins vegar varð hann bikarmeistari með liðinu á síðasta árinu. Eftir sigurinn lýsti hann því óvænt yfir að hann sé nú hættur að spila knattspyrnu. 28. maí 1978 var haldinn kveðjuleikur fyrir hann á Camp Nou þar sem Barcelona lék gegn Ajax. Cruyff lék einn hálfleikinn með hvoru liði fyrir sig. Hann tók ekki þátt í HM í Argentínu þetta árið.

Bandaríkin

Öllum að óvörum dúkkaði Cruyff upp í Bandaríkjunum í upphafi árs 1979 og hóf að spila með Los Angeles Aztecs. Áður höfðu menn á borð við Franz Beckenbauer, Gerd Müller og George Best spilað með bandarískum liðum. Eftir fyrsta árið í Los Angeles var Cruyff kjörinn knattspurnumaður ársins í Bandaríkjunum. Síðara árið lék hann með Washington Diplomats. Þegar félagið komst í fjárhagsvandræði yfirgaf Cruyff liðið og fór heim til Evrópu.

Levante

Cruyff var í viðræðum við enska liðið Leicester City. Samningar tókust hins vegar ekki og því byrjaði hann að leika með spænska félaginu Levante árið 1981 en það lék þá í 2. deild. En sökum tíðra meiðsla og ósætti við stjórnina lék hann einungis tíu leiki. Levante náði ekki að komast í 1. deild og því yfirgaf Cruyff félagið eftir tímabilið.

Ajax í annað sinn

Cruyff gefur eiginhandaráritanir 1982

Allt útlit var fyrir því að Cruyff væri hættur að leika knattspyrnu. Í nóvember 1981 var hann hins vegar ráðinn sem íþróttaráðunautur þjálfarans Leo Beenhakkers. 6. desember reimdi hann á sig skóna og lék sjálfur fyrir félagið í annað sinn á ferlinum. Liðið spilaði gegn FC Haarlem. Cruyff skoraði tvö mörk í 4-1 sigri. Sem leikstjórnandi tókst honum að verða hollenskur meistari á ný 1982. Árið 1983 gerði liðið gott um betur og varð bæði meistari og bikarmeistari. Þrátt fyrir það ákvað stjórnin hins vegar að endurnýja ekki samning sinn við Cruyff í lok keppnistímabilsins 1983. Hundfúll yfirgaf hann félagið og réði sig hjá erkifjendunum í Feyenoord.

Feyenoord

Með Feyenoord spilaði Cruyff einungis eitt keppnistímabil, 1983-84. Hann var orðinn 37 ára gamall en enn í fantaformi. Hann var potturinn og pannan í leik liðsins, sem fyrir vikið varð bæði hollenskur meistari og bikarmeistari. Í lok tímabilsins var Cruyff á ný kjörinn knattspyrnumaður ársins í Hollandi. Síðasti leikur hans sem knattspyrnumaður var gegn Zwolle 13. maí 1984. Í Feyenoord kynntist Cruyff hinum kornunga Ruud Gullit, sem seinna meir kvæntist Estelle Cruyff, frænku Johans.

Árangur sem leikmaður

  • Hollenskur meistari (9): 1966, 1967, 1968, 1970, 1972, 1973, 1982, 1983, 1984
  • Hollenskur bikarmeistari (6): 1967, 1970, 1971, 1972, 1983, 1984
  • Spænskur meistari (1): 1974
  • Bikarmeistari (1): 1978
  • Evrópumeistari félagsliða (3): 1971, 1972, 1973
  • Sigurvegari í Super Cup í Evrópu (2): 1972, 1973
  • Heimsbikarmeistari (1): 1972
  • Markakóngur Hollands (2): 1967 (33 mörk), 1972 (25 mörk)
  • Knattspyrnumaður ársins í Evrópu (3): 1971, 1973, 1974
  • Knattspyrnumaður ársins í Bandaríkjunum (1): 1979
  • Knattspyrnumaður ársins í Hollandi (1): 1984
  • Knattspyrnumaður aldarinnar í Evrópu: 1999
  • Silfurverðlaunafi á HM 1974

Þjálfari

Johan Cruyff sneri enn á ný til Ajax sumarið 1985 en að þessu sinni sem eftirmaður þjálfarans og lærimeistara síns Rinus Michels. Cruyff notaði kerfið sem Michels hafði komið á með Ajax og þróaði það enn frekar. Í þau þrjú ár sem hann þjálfaði liðið missti hann ætíð naumlega af meistaratitlinum en varð þó tvisvar bikarmeistari. 1987 varð Ajax meira að segja Evrópumeistari bikarhafa með 1-0 sigri á Lokomotive Leipzig. Í liðinu þjálfaði hann marga unga menn sem seinna voru kallaðir í hollenska landsliðið. Má þar nefna leikmenn eins og Marco van Basten, Frank Rijkaard og Dennis Bergkamp. 1988 sneri El Salvador aftur til Barcelona sem þjálfari. Í stað þess að nota stjörnur eins Bernd Schuster og Gary Lineker, ákvað Cruyff að setja traust sitt á leikmenn á borð við Guardiola, Ferrer og son sinn Jordi Cruyff. Einnig náði hann í nýja leikmenn, eins og Hristo Stoitchkov, Ronald Koeman og Michael Laudrup. Árangurinn var frábær. 1989 varð Barcelona Evrópumeistari bikarhafa eftir 2-0 sigur á Sampdoria Genua í úrslitaleik. 1991-94 varð Barcelona fjórum sinnum spænskur meistari í röð, 1990 bikarmeistari, 1992 Evrópumeistari (síðasta árið áður en meistaradeildin var stofuð) og sama ár sigruðu Börsungar Super Cup keppnina í Evrópu með sigri á Borussia Dortmund í tveimur úrslitaleikjum. Johan Cruyff er því sigursælasti knattspyrnuþjálfari sem Barcelona hefur átt. Vendipunkturinn kom í úrslitaleik meistaradeildarinnar 1994, er Börsungar steinlágu fyrir AC Milan 0-4. Liðið náði ekki að vinna neina titla í tvö ár. Cruyff reyndi að endurnýja mannskapinn en lenti í ósætti við stjórnina. Honum var sagt upp störfum 18. maí 1996. 1999 sneri Cruyff sér aftur að þjálfun, er knattspyrnusamband Katalóníu (héraðið í kringum Barcelona) réði hann sem landsliðsþjálfara. Katalónía er þó eingöngu með óopinbert lið (enda ekki sjálfstætt ríki) og leikur eingöngu vináttuleiki. Sama ár, 1999, var Johan Cruyff kjörinn knattspyrnumaður aldarinnar í Evrópu, eini maðurinn sem hlotið hefur slíkan heiður.

Árangur sem þjálfari

  • Hollenskur bikarmeistari (2): 1986, 1987
  • Spænskur meistari (4): 1991, 1992, 1993, 1994
  • Spænskur bikarmeistari (1): 1990
  • Evrópumeistari bikarhafa (2): 1987, 1989
  • Evrópumeistari meistaraliða (1): 1992
  • Sigurvegari í Super Cup í Evrópu (1): 1992

Frekari störf

Johan Cruyff árið 2009

2008 tók Cruyff að sér að byggja upp nýtt lið með Ajax. Fyrsta verk hans var að ráða Marco van Basten sem þjálfara. Árið 2010 tilkynnti stjórn félagsins Barcelona að Cruyff hefði verið valinn heiðursforseti félagsins. Hins vegar var Sandro Rosell ráðinn sem forseta, sem afturkallaði val Cruyffs.

Annað markvert

  • Johan Cruyff var reykingamaður alla sína tíð. Jafnvel meðan hann sýndi snilli sína á knattspyrnuvellinum keðjureykti hann. Stundum kveikti hann sér í sígarettu meðan hálfleikur stóð yfir í leik. Í febrúar 1991, meðan hann þjálfaði Barcelona, fékk hann hjartaáfall og þurfti að fara í hjáveituaðgerð. Eftir það hætti hann öllum reykingum.
  • Árið 1996 var hollenska Super Cup keppnin (milli meistara og bikarmeistara síðasta keppnistímabils) nefnt eftir Cruyff og heitir í dag Johan Cruyff bikarinn (Johan Cruijff Schaal).
  • Hin árlegu verðlaun fyrir efnilegustu leikmenn í hollensku deildinni kallast Johan Cruyff verðlaunin (Johan Cruijff Prijs).
  • Johan Cruyff er nafngefandi fyrir tvo háskóla í Amsterdam (Johan Cruyff College og Johan Cruyff University. Í himingeimnum er smástirni nefnt eftir Cruyff, honum til heiðurs (smástirnið 14282).

Heimildir