Jethro Tull er bresk rokk-hljómsveit sem var stofnuð í bænum Blackpool á Englandi árið 1967. Tónlist Tull einkennist af hrjúfri röddu og áberandi þverflautu Ians Anderson. Tónlist bandsins hefur verið undir áhrifum úr blús, framsæknu rokki og þjóðlegum áhrifum. Gítarleikarinn Martin Barre var meðlimur sveitarinnar síðan 1969 en ýmsir meðlimir hafa sinnt öðrum stöðum í bandinu. Ian Anderson hefur verið aðalkjölfestan í bandinu og samið velflest af efninu.
Í upphafi
Fyrstu plötur sveitarinnar voru undir áhrifum blús en með tilkomu plötunnar Aqualung varð stílbreyting og lagasmíðarnar urðu framsæknari og vinsældir hljómsveitarinnar jukust[1]. Í tímans rás urðu áhrifin af ýmsum toga; frá klassískri tónlist, jazzi, framsæknu rokki og þjóðmenningu sem dæmi má nefna. Plöturnar Thick as a Brick og Passion Play voru langar, flóknar og samfelldar þemaplötur.
Á plötunum Songs from the Wood, Heavy Horses og Stormwatch einbeitti sveitin sér meira að þjóðlegu rokki með framúrstefnuáhrifum. Litið er á þær sem ,,þjóðlagaþrennuna" (folk trilogy). Bassaleikari sveitarinnar John Glascock lést árið 1979 sökum meðfædds hjartagalla og spilaði Anderson bassann mestmegnis á Stormwatch.
9. og 10. áratugarnir
Á níunda áratugnum hóf Jethro Tull að nota hljómborð og hljóðgervla í samræmi við tíðarandann. Plöturnar A ( sem átti upphaflega að vera sólóplata Andersons) og Under Wraps einkenndust sérstaklega af því. Broadsword and the Beast var mest selda plata sveitarinnar í Þýskalandi. Á Under Wraps tónleikaferðalaginu ofreyndi Anderson raddböndin og fékk berkjubólgu. Frá því atviki hefur hann ekki geta haldið fullum raddstyrk. Anderson tók sér hlé og einbeitti sér að laxeldi í Skotlandi þar til hann sneri aftur með sveitinni með plötuna Crest of a Knave árið 1987.
Árið 1989 kom það öllum að óvörum að Tull vann til verðlauna sem besta þungarokksbandið á Grammyverðlaunahátíðinni fyrir Crest of a Knave ( en Metallica þóttu líklegir til að vinna með ... And Justice for All). Plötufyrirtækið þeirra, Crysalis Records, hvatti þá hvorki né styrkti til að vera viðstaddir þannig að svo fór að Alice Cooper sem var kynnir á hátíðinni tók við verðlaununum. Verðlaunin voru umdeild þar sem almennt var ekki litið á Tull sem þungarokkshljómsveit.
Plöturnar Rock Island og Catfish Rising svipuðu til stíls hljómsveitarinnar Dire Straits. Seinni tíma verk sveitarinnar eru lágstemmdari. Á einkum Roots to Branches og J-tull.com komu þjóðlegu áhrifin sterk inn aftur.
Eftir aldamót
Árið 2003 kom út platan Jethro Tull Christmas Album. Anderson gaf út Thick as a Brick II undir sínu eigin nafni árið 2012 og kemur fram textinn, Jethro Tull's Ian Anderson, á plötuumslaginu. Stuttu síðar ákvað hann að Jethro Tull yrði ekki vera virk og að hann myndi vera sóló-tónlistarmaður eftirleiðis en spila Tull lög meðfram því. Þegar hér var komið hafði Martin Barre, gítarleikari Tulls til margra áratuga, hætt í sveitinni.
Aftur á móti á 50 ára afmæli hljómsveitarinnar tók Anderson aftur upp þráðinn og endurvakti hljómsveitina með heimstónleikaferðalagi frá 2017-2019. Meðlimir úr sólóbandi Andersons skipuðu þá restina af Tull. Gítarleikaranum Martin Barre sinnaðist við Anderson og spilaði með sínu eigin sólóbandi frá 2012.
Árið 2022 kom út fyrsta Tull platan í 18 ár, The Zealot Gene. Henni var strax fylgt eftir árið eftir með Rökflöte sem byggði á norrænni goðafræði.
Punktar
Nafnið Jethro Tull er komið frá breskum uppfinningamanni á sviði landbúnaðar á 18 öld.
Gítarleikarinn Tony Iommi (Black Sabbath) var nokkrar vikur í Tull og spilaði með þeim í sjónvarpi (Rolling Stones rock n'roll cirkus)
David Palmer fyrrum hljómborðsleikari sveitarinnar er nú eftir aðgerð, kvenmaðurinn Dee Palmer.
Jethro Tull og Ian Anderson hafa nokkrum sinnum komið til Íslands. Tull kom hingað árið 1992 og svo eftir aldamót. Ian Anderson hefur spilað í Laugardalshöll og Hörpu eftir aldamót og kom út platan Thick as a brick: Live in Iceland af tónleikunum í Hörpu.
Unnur Birna Björnsdóttir, spilaði á fiðlu og söng með Ian Anderson þegar hann túraði 2015-2017 og spilaði Jethro Tull lög. Hún las norræna goðafræði inn á plötuna Rökflöte (2023)
Hljómsveitarmeðlimir
(liðskipan árið 2024):
Ian Anderson (frá 1968) - gítar, þverflauta, mandólín, söngur
Jack Clark (frá 2024) - gítar.
Scott Hammond (frá 2017) - trommur og slagverk
John O'Hara (frá 2006) - hljómborð
Dave Goodier (frá 2006) - bassi
Fyrrum meðlimir
Mick Abrahams – gítar, söngur (1967–1968)
Clive Bunker – trommur (1967–1971)
Glenn Cornick – bassi (1967–1970)
Martin Barre – rafmagns- og akústískir gítarar, mandólín, lúta, flauta(1968–2012)
John Evan – hljómborð (1970–1980)
Jeffrey Hammond – bassi, söngur (1971–1975)
Barriemore Barlow – trommur (1971–1980)
John Glascock – bassi, bakraddir (1975–1979)
Dee Palmer – hljómborð (1977–1980; vann í skipulagningu fyrir sveitina 1967 til 1976)