Margrét Sverrisdóttir

Margrét Kristjana Sverrisdóttir (fædd í Reykjavík 8. september 1958) er meðlimur í Samfylkingunni.

Ætt

Faðir Margrétar var Sverrir Hermannsson, fyrrum ráðherra og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, og síðar Frjálslynda flokksins, sem hann stofnaði. Móðir hennar er Gréta Lind Kristjánsdóttir. Margrét er gift Pétri S. Hilmarssyni og eiga þau tvö börn, Kristján Sævald (f. 1987) og Eddu (f. 1989).

Menntun

Margrét er stúdent frá MR 1979 og lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1983, auk B.A. prófs í íslensku frá Háskóla Íslands.

Starfsferill og félagsstörf

Margrét starfaði lengi við uppeldis- og umönnunarmál, meðal annars sem starfsmaður og síðar forstöðumaður félagsmiðstöðvanna Fellahellis og Vitans, og sat í stjórn Samtaka félagsmiðstöðva 1988-1993. Frá 1982 -1992 vann hún sem sjálfboðaliði að málefnum þroskaheftra og 1993-1998 var hún verkefnisstjóri menningarverkefnisins Ungt fólk í Evrópu.

Margrét tók sæti í framkvæmdastjórn Kvenréttindafélags Íslands árið 2000, varð varaformaður félagsins árið 2003 og tók við formennsku í apríl 2008. Frá 2003 hefur hún verið formaður Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins.

Stjórnmálastarf

Árið 1998 varð Margrét framkvæmdastjóri þingflokks Frjálslynda flokksins og varaþingmaður Reykjavíkur. Auk þess varð hún varaborgarfulltrúi flokksins í Reykjavík í kosningum 2002 og aftur 2006. Hún hefur setið í borgarstjórn í forföllum Ólafs F. Magnússonar frá ársbyrjun 2007 og var kjörin forseti borgarstjórnar í Reykjavík 16. október 2007 er nýr meirihluti Framsóknarflokks, Samfylkingar, VG og F-listans tók við völdum.

Frá 1999-2002 sat hún í Ráðherraskipaðri nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum og hefur verið fulltrúi í stjórnarnefnd Landspítala-Háskólasjúkrahúss síðan 2003.

Átökin um Frjálslynda flokkinn

Í aðdraganda landsfundar Frjálslynda flokksins 2007 fór Margrét í launað leyfi frá störfum sem framkvæmdastjóri þingflokksins þann 18. desember 2006. Þingflokkurinn sagði að það væri til þess að hún gæti einbeitt sér að mögulegu framboði sínu á landsfundinum, en Margrét áleit að verið væri að halda henni í skefjum, fyrir áhrif félaga úr Nýju afli, sem nýlega voru gengnir í flokkinn. Bauð hún sig fram til varaformanns, gegn sitjandi varaformanni Magnúsi Þ. Hafsteinssyni, en tapaði kosningunni eftir harða baráttu og mikla kosningasmölun af beggja hálfu, laugardaginn 27. janúar. Á mánudegi, 29. janúar gaf hún út yfirlýsingu þess efnis að í „ljósi þeirra vinnubragða sem viðhöfð voru ... á landsþingi flokksins [væri] ljóst [að hún teldi sér] ekki fært að starfa lengur innan vébanda hans.“ (1) Margrét gekk að því búnu úr flokknum ásamt hópi stuðningsmanna.

Íslandshreyfingin

Merki Íslandshreyfingarinnar

Margrét og stuðningsmenn hennar réðu ráðum sínum og tilkynntu loks að þau hygðust stofna nýtt framboð, umhverfisverndarsinnað en hægra megin við miðju, fyrir kosningarnar 12. maí. Margrét er varaformaður, en meðal annarra forystumanna þess voru Ómar Ragnarsson (formaður), Ósk Vilhjálmsdóttir og Jakob Frímann Magnússon. Sverrir faðir Margrétar tók heiðurssæti á einum listanum. Þann 23. mars 2007 var haldinn blaðamannafundur þar sem framboðið var kynnt. Í næstu skoðanakönnun leit út fyrir að framboðið næði að fá kjörna þingmenn, en í næstu skoðanakönnunum eftir það fór fylgið að dala. Þann 1. maí var framboðið með minna en lágmarksfylgi, þegar innan við tvær vikur voru til kosninga.

Úr minnihluta í meirihluta

Margrét sat í borgarstjórn sem óháður varamaður Ólafs F. Magnússonar frá febrúar 2007. Eftir heitar deilur um Orkuveitu Reykjavíkur í október 2007, tók hún þátt í því, ásamt öðrum sem myndað höfðu minnihluta, að efna til nýs meirihlutasamstarfs, þann 11. október, með Framsóknarflokknum, Samfylkingunni og Vinstrihreyfingunni - grænu framboði. Varð af, að hún yrði forseti borgarstjórnar Reykjavíkur í nokkrar vikur árið 2007. Í ársbyrjun 2008 rauf Ólafur, aðalmaður F-listans, meirihlutann og myndaði nýjan með Sjálfstæðisflokki. Margrét og fleiri sögðust ekki styðja hann í þeirri ákvörðun, en nýi meirihlutinn hélt þó velli með tæpan meirihluta uns Sjálfstæðismenn rufu hann í ágúst 2008 og mynduðu nýjan með Framsóknarflokki.

Tenglar og heimildir