Makassarsund er sund milli eyjanna Borneó og Súlavesí í Suðaustur-Asíu. Í norðri liggur sundið inn í Súlavesíhaf en í suðri liggur það að Jövuhafi. Mahakamfljótið á Borneó rennur út í sundið.
Helstu hafnir við sundið eru Balikpapan á Borneó og Makassar og Palu á Súlavesí. Borgin Samarinda stendur við Mahakamfljót um 25 km frá sundinu.
Sundið er fjölfarin siglingaleið sem er notuð af skipum sem eru of stór til að komast um Malakkasund.