Völva eða vala er í norrænni trúspákona sem sér framtíðina með því að fremja seið.[1] Völvuheitið er dregið af orðinu „völur“ sem merkir göngustafur.[2] Hugsanlega flakkaði völvan milli bæja með staf (sbr. orðið „stafkerling“). Stafurinn gæti líka tengst seiðnum og verið eins konar tákn fyrir ferðir völvunnar milli heima eftir veraldartrénu Ygdrasil. Eitt þekktasta Eddukvæðið er Völuspá („spádómur völvunnar“). Völvur koma fyrir í Íslendingasögum, Íslendingaþáttum og konungasögum sem eru ritaðar nokkrum öldum eftir kristnitöku.
Nokkur kuml hafa fundist á Norðurlöndum með gripum sem þykja benda til þess að þar gæti hafa legið seiðkona eða völva. Nokkur völvuleiði eru líka þekkt á Íslandi (aðallega á Austurlandi) og eru þar álagablettir sem stundum er heitið á til góðrar ferðar.[3]