Gungnir
Gungnir nefndist geir Óðins. Nafnið merkir hið skjálfandi spjót. Með því helgaði hann sér hina föllnu.
Geir þennan gerðu dvergar sem nefndir voru Ívaldasynir. Frá því segir í 43. kafla í Skáldskaparmálum eftir Snorra Sturluson:
- Hví er gull kallað haddur Sifjar? Loki Laufeyjarson hafði það gert til lævísi að klippa hár allt af Sif. En er Þórr varð þess varr, tók hann Loka og myndi lemja hvert bein í honum, áður hann svarði þess, að hann skal fá af Svartálfum, að þeir skulu gera af gulli Sifju hadd þann, er svá skal vaxa sem annað hár. Eftir það fór Loki til þeira dverga, er heita Ívaldasynir, og gerðu þeir haddinn og Skíðblaðni og geirinn, er Óðinn átti, er Gungnir heitir. Þá veðjaði Loki höfði sínu við þann dverg, er Brokkur heitir, hvárt bróðir hans, Sindri, myndi gera jafngóða gripi þrjá sem þessir váru. En er þeir kómu til smiðju, þá lagði Sindri svínskinn í aflinn og bað blása Brokk og létta eigi fyrr en hann tæki það ór aflinum, er hann hafði í lagt. En þegar er hann var genginn ór smiðjunni, en hinn blés, þá settist fluga ein á hönd honum og kroppaði, en hann blés sem áður, þar til er smiðurinn tók ór aflinum, og var það göltur, og var burstin ór gulli. Því næst lagði hann í aflinn gull ok bað hann blása ok hætta eigi fyrr blæstrinum en hann kæmi aftr. Gekk hann á braut. En þá kom flugan og settist á háls honum ok kroppaði nú hálfu fastara en áðr, en hann blés, þar til er smiðrinn tók ór aflinum gullhring þann, er Draupnir heitir. Þá lagði hann járn í aflinn og bað hann blása og sagði, að ónýtt myndi verða, ef blástrinn felli. Þá settist flugan milli augna honum og kroppaði hvarmana, en er blóðit fell í augun, svá at hann sá ekki, þá greip hann til hendinni sem skjótast, meðan belgurinn lagðist niður, og sveipaði af sér flugunni, og þá kom þar smiðrinn og sagði, að nú lagði nær, að allt myndi ónýtast, er í aflinum var. Þá tók hann ór aflinum hamar. Fékk hann þá alla gripina í hendur bróður sínum Brokk og bað hann fara með til Ásgarðs og leysa veðjunina. En er þeir Loki báru fram gripina, þá settust æsirnir á dómstóla og skyldi það atkvæði standast, sem segði Óðinn, Þórr, Freyr. Þá gaf Loki Óðni geirinn Gungni, en Þór haddinn, er Sif skyldi hafa, en Frey Skíðblaðni og sagði skyn á öllum gripunum, að geirrinn nam aldri staðar í lagi, en haddrinn var holdgróinn, þegar er hann kom á höfuð Sif, en Skíðblaðnir hafði byr, þegar er segl kom á loft, hvert er fara skyldi, en mátti vefja saman sem dúk og hafa í pungi sér, ef það vildi.
Geirinn er einnig nefndur í 51 kafla Gylfaginningar eftir Snorra en þar stendur:
- Æsir hervæða sig og allir einherjar og sækja fram á völluna. Ríður fyrstur Óðinn með gullhjálm og fagra brynju og geir sinn er Gungnir heitir. Stefnir hann móti Fenrisúlfi, en Þór fram á aðra hlið honum, og má hann ekki duga honum, því að hann hefur fullt fang að berjast við Miðgarðsorm. Freyr berst móti Surti og verður harður samgangur áður Freyr fellur. Það verður hans bani er hann missir þess hins góða sverðs er hann gaf Skírni.
|
---|
Helstu goð | | |
---|
Aðrir | |
---|
Staðir | |
---|
Hlutir | |
---|
Atburðir | |
---|
Rit | |
---|
Goðakvæði og sögur | |
---|
Trúfélög | |
---|
|
|