Gandálfur

Gandálfur er einn af dvergunum sem seiðkonan eða völvan nefnir í dvergatali Völuspár. Nafnið var síðar notað og gert heimsfrægt af rithöfundinum J.R.R. Tolkien sem nafn á galdramanni í bókum hans, Hobbitinn og Hringadróttinssögu, en Tolkien hafði mikið dálæti á Eddukvæðum, norrænni goðafræði, norrænu máli og fornmenningu norðurlanda.

Í Völuspá segir:

10.

Þar var Mótsognir
mæstur um orðinn
dverga allra
en Durinn annar;
þeir mannlíkön
mörg um gerðu
dvergar úr jörðu,
sem Durinn sagði

11.

Nýi og Niði,
Norðri og Suðri,
Austri og Vestri,
Alþjófur, Dvalinn,
Bívör, Bávör,
Bömbur, Nóri,
Án og Ánar,
Ái, Mjöðvitnir

12.

Veigur og Gandálfur,
Vindálfur, Þráinn,
Þekkur og Þorinn,
Þrár, Vitur og Litur,
Nár og Nýráður,
nú hef ég dverga
- Reginn og Ráðsviður, -
rétt um talda

Dvergatalið heldur áfram og hefur alls að geyma nöfn 42 dverga til viðbótar.