Völuspá er kvæði tengt norrænni goðafræði og í dag ein helsta heimild um hana. Í ritinu er sagt frá sögu heimsins, allt frá sköpun til ragnaraka. Boðskapurinn birtist lesanda í gegn um samtal Völvu og Óðins þar sem Völvan segir frá ýmsum fróðleik sem varðar sköpun heims og mannfólks. Völvan rekur atburðarás veraldarinnar frá því að Sól og Máni, Æsir og Vanir, mannfólk og jötnar voru sköpuð, og hvernig þessar verur drífa heiminn til ragnarraka með mistökum og spillingu sín á milli. Eftir ragnarök segir Völvan þó að líf muni rísa á ný, hreint og óspillt, og hvernig menn og verur muni græða heiminn á ný. Völuspá samanstendur af 58-67 vísum sem ortar eru undir fornyrðislagi, en fjöldi kvæða fer eftir útgefanda. Völuspá er hluti Eddukvæða og varðveitt í Konungsbók Eddukvæða frá árinu 1270. Þrátt fyrir að Völuspáin sé almennt tengd goðafræðinni má sjá fjölda tilvitnana í kristna trú, s.s. um fæðingu Jesú Krists. Því má leiða líkum að því að höfundur kunni að hafa velt fyrir sér bæði norrænu goðafræðinni og kristnu trúnni.
Varðveisla
Kvæði Völuspár má finna í margvíslegum íslenskum handritum og bókum. Þekktust þeirra er að öllum líkindum Konungsbók sem talið er að hafi verið skrifuð um 1270. Kvæðin má einnig finna í Hauksbók, Hauks Erlendssonar, og í Snorra-Eddu. Í síðastnefndu bókinni er minnst á mörg kvæðanna og boðskapur þeirra notaður sem einskonar viðmið fyrir gott velgengið líf. [1]
Ágrip
Kvæðin byrja þannig að Völvan biður allar mannverur, syni Heimdalls, um hljóð og spyr Óðin hvort hann vilji að hún kveði upp gömul fræði. Hún segir frá því að hún muni eftir fornum risum sem fæddir voru á fornöld og að þeir risar hafi alið hana upp.
Völvan segir því næst frá upphafi veraldar og segir að heimurinn hafi verið auður þar til synir Bors lyftu jörðinni úr hafi. Æsirnir komu þar næst reglu á hinn efnislega heim með því að finna stað fyrir Sól, Mána og stjörnurnar og settu með því af stað hringrás dags og nætur. Við tók gullöld þar sem Æsirnir höfðu úr nægu gulli að moða og byggðu hallir, hof og útbjuggu ýmis verkfæri. En sú gullöld varði ekki lengi vegna þess að þrjár meyjar frá Jötunheimum birtust í Ásgarði og þar með lauk þeim tíma. Æsirnir brugðust við komu þeirra með því að skapa stofn dverga, en af þeim voru Mótsognir og Durinn voldugastir.
Þegar hér er komið við sögu hafa tíu kvæðanna verið lesin en sex til viðbótar útlista nöfn dverga sem skapaðir voru. Þessi hluti Völuspár hefur verið nefndur Dvergatal og er sleppt í þýðingu nokkrurra höfunda vegna þess að þeir telja upptalninguna vera óþarfa innskot í Völuspá.[2]
Eftir að Dvergatal hefur verið kveðið er sagt frá sköpun mannfólksins. Því næst er sagt frá lífsins tré Yggdrasil. Völvan segir frá minningum sínum um Gullveigu og þeim tíma sem hún var brennd en það leiddi af sér fyrsta stríð Ása og Vana. Völvan kveðst líka muna það skipti er Freyja var gefin risum, sem yfirleitt er álitið vísun í goðsögnina um skapara risanna eins og fram kemur í Gylfaginningu.
Völvan lætur því næst í ljós að hún viti leyndardóma um Óðinn sjálfan, að hann hafi fórnað öðru auga sínu í leit að þekkingu. Hún kveðst vita hvar auga Óðins liggi falið og að hann hafi skipt á því fyrir þekkingu. Völvan spyr nú hvort Óðinn skilji hvað hún kveður eða hvort hann vilji að hún haldi kvæði sínu áfram.
Í Konungsbók Eddukvæða segir Völvan frá því þegar Baldur féll fyrir hönd bróður síns Haðar og hvernig lævísi Loka átti þar hlut í máli. Nú lýsir Völvan því hvernig Æsirnir muni tortímast í eldi og flóðum Ragnaraka. Æsirnir munu heyja sína síðustu bardaga við erkióvini og nokkrum þessara bardaga lýsir hún, og úrslitum þeirra.
Loks rís úr öskunni nýr heimur þar sem Baldur og Höður munu fá að lifa á ný og njóta frjósemi jarðarinnar. Eftirlifandi Æsir koma saman á ný á Iðavöllum og ræða undanfarna atburði. Síðasta kvæði Völuspár fjallar um drekann Níðhögg sem ber lík á vængjum sínum, en að því loknu fellur Völvan úr trans og frásögninni er lokið.[3]
Tilvísanir
↑Flensborg. Sótt þann 17 mars 2014 af: www.flensborg.is/sveinn/Allt/Skrar/Kvæði/Voluspa.html