Haag

Haag
Skjaldarmerki Haag
Staðsetning Haag
LandHolland
HéraðSuður-Holland
Stjórnarfar
 • BæjarstjóriJan van Zanen
Flatarmál
 • Samtals98,13 km2
Mannfjöldi
 (2021)
 • Samtals549.163
 • Þéttleiki6.523/km2
TímabeltiUTC +1 / UTC +2 (sumar)
Vefsíðadenhaag.nl

Haag (hollenska Den Haag, formlega 's-Gravenhage) er stjórnsýsluleg höfuðborg Hollands og höfuðborg héraðsins Suður-Hollands. Í borginni eru báðar deildir hollenska þingsins, skrifstofur ráðuneyta, hæstiréttur, sendiráð erlendra ríkja og þar er aðsetur Vilhjálms Alexanders konungs. Engu að síður er Amsterdam skilgreind sem höfuðborg Hollands í stjórnarskrá. Innan borgarmarkanna búa rúmlega 500 þúsund manns en að úthverfum meðtöldum er íbúafjöldinn um það bil 700 þúsund. Borgin er sú þriðja stærsta í Hollandi á eftir Amsterdam og Rotterdam. Í Haag eru nokkrar alþjóðastofnanir, svo sem Alþjóðadómstóllinn.

Lega og lýsing

Haag liggur við Norðursjó og er vestasta stórborg Hollands. Næstu borgir eru Rotterdam til suðausturs (10 km), Leidschendam-Voorburg til austurs (5 km) og Leiden til norðausturs (20 km). Haag stendur á stórri sandöldu við Norðursjó og því er þar minna um læki og síki en í öðrum hollenskum borgum. Miklar sandstrendur skilja að borgina og sjóinn. Þrátt fyrir það hefur lítil höfn verið grafinn í sandinn og er sandinum haldið frá með löngum hafnargörðum.

Fáni og skjaldarmerki

Skjaldarmerki borgarinnar sýnir hvítstork með svartan ál í nefinu á gulum grunni. Álar voru gjarnan veiddir í tjörnum við Haag á árum áður og var einnig mikilvæg fæða fyrir ýmsa fugla. Storkurinn verpti í og við Haag á öldum áður og var hann einkennismerki Haag allt frá miðöldum. Gulu ljónin sem skjaldberar og kórónan efst eru síðari tíma viðbætur.

Fáninn samanstendur af tveimur láréttum röndum. Appelsínugul efst, en græn neðst. Litirnir eru teknir úr skjaldarmerkinu en þar er græni liturinn grunnur merkisins og táknar landið. Appelsínuguli liturinn vísar bæði til aðallitar skjaldarmerkisins en einnig til lits Óraníuættarinnar.

Orðsifjar

Bærinn var ávallt kallaður Haghe eða Den Haghe. En 1602/3 ákváðu borgaryfirvöld að breyta nafninu í 's-Gravenhage en það merkir veiðiland greifans. ('s = greinir (eignarfall, stytting fyrir "des"), Graven = greifi, hage = veiðilenda). 's-Gravenhage er enn opinbert heiti borgarinnar á hollensku en Den Haag er alþýðuheiti hennar. Bæði heitin eru jafngild. Heitið er gjarnan þýtt á önnur mál. Þannig heitir það The Hague á ensku, La Haye á frönsku, Der Haag eða Den Haag á þýsku, L´Aia á ítölsku, La Haya á spænsku.

Saga Haag

Upphaf

Þegar á 11. öld hafði myndast þorp á núverandi borgarstæði, en þar höfðu greifar héraðsins Holland reist sér veiðiaðsetur sem þeir dvöldu gjarnan í á veiðiferðum sínum. Árið 1248 lét Vilhjálmur II greifi af Hollandi reisa sér forlátan kastala í Haag. Hann lést þó áður en kastalinn var tilbúinn. Sonur hans, Floris V lauk verkinu, en kastalinn er hluti af þinghúsum Haags í dag. Á 14. öld var kastalinn orðin að aðalaðsetri greifanna. Við það stækkaði bærinn í kring, en hann hlaut þó ekki borgarréttindi. Í upphafi 15. aldar erfði Búrgúnd öll Niðurlönd. Landstjórinn sem fór með mál Búrgúnd fékk aðsetur í Haag og því má segja að þetta hafið verið upphafið að höfuðborginni Haag. Landstjórar sátu þar þó aðeins til 1477 en þá var Niðurlöndum stjórnað frá Brussel.

Sjálfstæðisstríð

Haag 1649, ári eftir að sjálfstæðisstríðinu lauk formlega

1560 var fyrsta ráðhúsið reist í Haag og í kjölfarið var farið að reisa varnarmúra í kringum bæinn. Þeir voru enn í byggingu þegar sjálfstæðisstríð Hollendinga braust út. Það reyndist borginni illa, því Spánverjar hertóku hana nær vandræðalaust í upphafi stríðsins og rændu hana gengdarlaust. Borgin varð að aðsetri spænska hersins í stríðinu. Þegar þeir yfirgáfu borgina um áratug síðar var hún í rústum. Hollendingar íhuguðu að jafna hana við jörðu en Vilhjálmur af Óraníu lét byggja hana upp á ný. Frá og með 1588 var hún aðalaðsetur uppreisnarstjórnarinnar gegn Spánverjum það sem eftir lifði stríðs. Þegar friður var saminn 1648 varð Haag að höfuðborg hinna sjö sameinuðu Niðurlanda. Við það upplifði borgin mikið blómaskeið og uppvöxt. Við uppbyggingu borgarinnar kom sér vel að borgarmúrar voru nær engir og því takmarkaðist uppbyggingin ekki við miðborgina, eins og hjá öðrum evrópskum borgum þessa tíma.

Franski tíminn

Haag slapp við öll stríðátök í Evrópu næstu 300 árin. Lítið fór fyrir borginni á franska tímanum. 1806 veitti Loðvík Bonaparte, konungur Niðurlanda, Haag loks formlega borgarréttindi. Þegar Frakkar hurfu úr landi stofnuðu Holland, Belgía og Lúxemborg konungsríki. Ríkið var formlega með tvær höfuðborgir, Brussel og Haag. Borgirnar skiptust á um heiðurinn á tveggja ára fresti. Þingað var í annarri borginni í tvö ár og svo í hinni. Þetta fyrirkomulag hélst allt til 1830 er Belgía sleit sig úr sambandinu og stofnaði eigið konungsríki. Hollenska þingið fundaði þá að staðaldri í Haag en opinberlega var Amsterdam kjörin höfuðborg landsins.

Nýrri tímar

Þjóðverjar réðust inn í Holland 10. maí 1940. Ætlunin var að taka landið í einu hendingskasti. Til þess var þýsk fallhlífasveit látin lenda í Haag til að taka Vilhelmínu drottningu, þingið og aðrar mikilvægar stöðvar. Þetta var fyrsta fallhlífaárás sögunnar. En aðgerðin í Haag mistókst. Kom þar til að hollenskar sveitir veittu nasistum meira viðnám en reiknað var með. Drottningin komst úr landi og þingmenn tvístruðust. Fjórum dögum seinna, 14. maí, var enn barist í tveimur borgum: Rotterdam og Haag. Þjóðverjar gerðu mikla loftárás á Rotterdam og eyddu borginni. Þegar þeir hótuðu að gera slíkt hið sama við Utrecht, gafst hollenski herinn í Haag upp. Borgin var formlega hertekin af nasistum 15. maí. Þýski herforinginn, Arthur Seyss-Inquart, var settur í embætti sem æðsti ráðamaður þýska ríkisins í Hollandi í Riddarasalnum í þinghúsinu. Fangelsið í borgarhlutanum Scheveningen var breytt í herfangelsi þar sem andspyrnumenn voru lokaðir inni. Það hlaut viðurnefnið Oranje-Hotel. Þann 3. mars 1945 gerðu Bretar loftárás á Haag og ætluðu að sprengja eldflaugaskotpalla. En af misgáningi var árásin gerð á hverfið Bezuidenhout. Í henni létust 500 manns, en 3000 hús eyðilögðust. Eftir stríð þandist borgin enn út og náði mest 600 þúsund íbúum árið 1965 en íbúatalan hefur dalað síðan. Þann 13. september 1974 fór fram gíslataka er hryðjuverkasamtökin Japanski rauði herinn ruddist inn í franska sendiráðið.

Alþjóðastofnanir

Friðarhöllin er aðsetur Alþjóðadómstólsins

Fyrir utan að vera openbert aðsetur þjóðhöfðingja Hollands og þingsins, eru ýmsar alþjóðastofnanir með aðsetur í Haag. Fyrsta eiginlega friðarráðstefnan í borginni fór fram 1899. Síðan þá hafa ýmsar stofnanir fengið aðsetur í Haag. Má þar nefna:

Viðburðir

Indónesískur danshópur á Tong Tong hátíðinni

KoninginneNach (Drottningarnótt) er mikil útitónleikahátíð sem haldin hefur verið síðan 1989. Hún er haldin kvöldið fyrir drottningardaginn (óopinberan þjóðhátíðardag) en þaðan kemur heitið. Hér er um stærstu útihátíð Hollands að ræða. Meðal annarra tónlistarhátíða í Haag eru: Beatstad, Crossing Border, Parkpop, State-X New Forms, Het Paard van Troje.

Tong Tong hátíðin er stærsta Indó-hátíð heims (evrópsk-indónesísk menning) en Indónesía var áður fyrr hollensk nýlenda. Hátíðinni var hleypt af stokkunum 1959 og er haldin snemmsumars. Boðið er upp á tónlist, mat, drykki, markaði og ýmislegt annað frá Indónesíu.

Nederlandse Veteranendag er hátíðsdagur til heiðurs gamalla hermanna. Hann hefur verið haldin síðasta laugardag í júní ár hvert síðan 2005 og er það ríkisstjórnin sem skipuleggur hann. Á deginum eru gamlir hermenn og stríðshetjur heiðraðar.

Íþróttir

Helsta knattspyrnulið borgarinnar er ADO Den Haag, sem varð hollenskur meistari 1942 og 1943.

CPC Loop Den Haag (City-Pier-City Loop) er árleg hlaupakeppni í Haag, þar sem hlaupið er hálfmaraþon. Hlaupið hófst 1975, en þá var hlaupin vegalengdin 14,5 km. Ári síðar var vegalengdin komin upp í hálfmaraþon og hefur hún haldist þannig síðan. Sigurvegarar í karlaflokki síðan 1998 hafa ávallt verið frá Afríku (Kenía, Eþíópíu eða Tansaníu).

Aðrar vinsælar íþróttagreinar í Haag eru hokkí, krikket og ruðningur.

Vinabæir

Haag viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

Byggingar og kennileiti

Madurodam er nokkurs konar lítið Holland
  • Binnenhof er heiti á kastalasamsetningu í Haag. Hún er aðsetur hollenska þingsins. Í Riddarasalnum, sem er tengibygging, er opinbert hásæti þjóðhöfðingja Hollands.
  • Friðarhöllin er mikil bygging í hallarlíki sem hýsir Alþjóðadómstólinn.
  • Mauritshuis er lítill kastali í Haag, nefndur eftir Márits herforingja í sjálfstæðisstríði Hollendinga. Húsið er málverkasafn í dag en þar eru málverk eftir Jan Vermeer, Rembrandt, Rubens, Frans Hals, Jan Brueghel og fleiri.
  • Madurodam er skemmtigarður með módel af þekktum byggingum í Hollandi. Svæðið er á um 18 þúsund m2 og inniheldur rúmlega 300 módel af þekktum húsum og öðru í mælikvarðanum 1:25. Garðurinn var opnaður 1952 af Maduro-hjónunum, en þau reistu garðinn til minningar um son sinn sem lést í útrýmingarbúðunum í Dachau í Þýskalandi. Segja má að garðurinn sé nokkurs konar lítið Holland.
  • Gamla ráðhúsið var reist 1561-1565 að fyrirmynd ráðhússins í Antwerpen. Húsið var stækkað 1883 og er talið ein merkasta bygging í endurreisnarstíl í Hollandi. Júlíana drottning og Bernhard zur Lippe-Biesterfeld voru gefin saman í hjónaband í húsinu árið 1937.
  • Grote Kerk er aðalkirkjan í miðborginni og er frá 14. öld. Turninn er 100 metra hár. Hann er einstakur í Hollandi að því leyti að hann er sexhyrndur. Spírunni var bætt við 1861. Nasistar fjarlægðu klukkurnar í turninum 1941 til að nota málminn í hergagnaiðnaðinn. Stærsta klukkan passaði hins vegar ekki í gegnum nein göt í turninum lengur og fékk því að vera í friði. 1959 var nýtt klukknaspil sett upp í turninn. Í því eru 51 klukka og er það þarmeð stærsta klukknaspil Hollands.

Heimildir