Bergoglio fæddist í Búenos Aíres og vann í stuttan tíma sem efnafræðingur og dyravörður í næturklúbbi áður en hann hóf guðfræðinám. Hann varð kaþólskur prestur árið 1969 og var héraðsforingi Jesúítareglunnar í Argentínu frá 1973 til 1979. Bergoglio var leiðtogi argentínskra Jesúíta á tíma skítuga stríðsins í Argentínu þar sem herforingjastjórn landsins lét um 30.000 stjórnarandstæðinga sína „hverfa“. Gerðir hans í skítuga stríðinu hafa í seinni tíð reynst viðkvæmt málefni og Bergoglio hefur sætt ásökunum um að hafa ekki gert nóg til að vernda presta undir sinni umsjá gegn ofríki herstjórnarinnar. Sér í lagi hefur reynst umdeilt að Bergoglio vísaði árið 1976 tveimur prestum úr Jesúítareglunni fyrir „óhefðbundnar skoðanir“ rétt áður en herforingjastjórnin lét ræna þeim og myrða þá.[1]
Eftir kjör Bergoglio til páfa árið 2013 sagði argentínski Nóbelsverðlaunahafinn Adolfo Pérez Esquivel að Bergoglio hefði skort hugrekki sem aðrir biskupar sýndu með því að styðja mannréttindabaráttuna á tíma einræðisins, en tók jafnframt fram að Bergoglio hefði aldrei verið bandamaður herforingjastjórnarinnar og að hann hefði gert það sem hann gat miðað við aldur sinn á þessum tíma.[2][3]
Bergoglio varð erkibiskup Búenos Aíres árið 1998 og var útnefndur kardináli árið 2001 af Jóhannesi Pál 2. páfa. Sem kardináli var Bergoglio þekktur fyrir nægjusemi, bjó á fábrotinn máta og nýtti sér almenningssamgöngur frekar en einkabifreið.[1]
Þegar Benedikt 16. sagði af sér þann 28. febrúar 2013 var Bergoglio kjörinn eftirmaður hans þann 13. mars.
Alla ævi sína hefur Frans verið rómaður fyrir hógværð sína, áherslu á miskunnsemi Guðs, baráttu gegn fátækt og stuðning við samræður á milli mismunandi trúarhópa. Nálgun hans á páfastól þykir alþýðlegri og óformlegri en hjá forverum hans. Til dæmis dvelur hann í gestahíbýlunum í Domus Sanctae Marthae frekar en í páfaíbúðunum þar sem forverar hans bjuggu. Hann heldur auk þess upp á einfaldari og látlausari klæðaburð. Hann hefur talað fyrir því að kristnar kirkjur eigi að vera opnari og velkomnari. Hann styður hvorki óheftan kapítalisma,[4]Marxisma né marxískar túlkanir á frelsunarguðfræði. Frans hefur haldið sig við hefðbundnin kaþólsk viðhorf gagnvart fóstureyðingum,[5] samfélagskennslu, réttindum kvenna innan kirkjunnar og skírlífi presta. Hann hefur þó sagt að það sé ekki hans hlutverk að dæma samkynhneigt fólk sem þjónar guði.[4] Í október 2020 lýsti hann jafnframt yfir stuðningi við staðfesta samvist samkynhneigðra.[6] Í desember 2023 veitti Frans kaþólskum prestum heimild til að blessa samkynja pör svo lengi sem greinamunur væri gerður á því og á eiginlegum hjónavígslum.[7]
Frans er andsnúinnn neysluhyggju, óábyrgri uppbyggingu og hefur talað fyrir því að hert sé á losun gróðurhúsalofttegunda. Frans lagði sitt af mörkum til að koma á endurreistu stjórnmálasambandi milli Bandaríkjanna og Kúbu. Frá því hann gaf út ritið Amoris Laetitia (íslenska: „Gleði ástarinnar“) árið 2016 hefur Frans sætt æ opinskárri gagnrýni af hálfu íhaldssamra kaþólikka. Í ritinu sagði Frans að kaþólskum prestum bæri að sýna fráskildu fólki meiri skilning og kærleik.[8] Árið 2019 gekk hópur 19 íhaldssamra biskupa svo langt að hvetja til þess að Frans yrði fordæmdur fyrir villutrú.[9]