Sergíus 3. (um 860 – 14. apríl911) var páfi frá 29. janúar904 til dauðadags. Hann ríkti á tímum mikilla átaka milli aðalsfjölskyldna á Mið-Ítalíu um páfastólinn. Sergíus lét hugsanlega myrða báða fyrirrennara sína, Leó 5. og Kristófer mótpáfa. Hann er eini páfinn sem átti son sem síðar varð páfi (Jóhannes 11.).
Hann var einn af þeim sem studdi Lambert keisara gegn Formósus páfa og tók þátt í líkþinginu 897 en þegar hann reyndi að ná páfakjöri eftir lát Þeódórusar 2. árið eftir studdi Lambert heldur Jóhannes 9. Sergíus var í kjölfarið bannfærður og hrakinn í útlegð. Aðstæður breyttust svo þegar Kristófer mótpáfi tók páfastólinn með valdi 903. Þeófylaktus af Tusculum sem Loðvík blindi hafði sett yfir Róm gerði uppreisn gegn Kristófer og fékk Sergíus gerðan að páfa. Við þetta varð hann nátengdur Þeófylaktusi og átti óskilgetinn son með dóttur hans, Maroziu, sem síðar varð Jóhannes 11. páfi. Sergíus lét gera við Lateranhöll og innrétta að nýju eftir jarðskjálftaskemmdir frá 896 og gripdeildir Kristófers mótpáfa.
Sergíus fékk ill eftirmæli. Valdatíð hans er talin vera upphafið að því sem á 16. öld var kölluð myrka öldin (Saeculum obscurum) og þýskir 19. aldar guðfræðingar kölluðu skækjuræði (Pornokratie eða Hurenregiment). Ástæða nafngiftarinnar er sú að á þeim tíma (fyrri hluta 10. aldar) höfðu Tusculum-hertogar mikil völd í Róm og Theodora, eiginkona Þeófylaktusar, og dóttir þeirra Marozia, mikil áhrif á páfastól.