Eygló Þóra Harðardóttir (fædd 12. desember 1972 í Reykjavík) er íslenskur fyrrum þingmaður og fyrrum félags- og húsnæðismálaráðherra.[1] Eygló bauð sig fyrst fram til Alþingis árið 2007 og var varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi þar til Guðni Ágústsson sagði af sér þingmennsku. Í janúar 2009 var hún kjörin ritari flokksins og hefur gegnt þeirri stöðu síðan og skipaði hún annað sæti á lista flokksins í þingkosningunum 2009. Árið 2013 varð hún oddviti Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi og var í kjölfar þingkosninga skipuð félags- og húsnæðismálaráðherra í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Ævi
Eygló fæddist 12. desember 1972 í Reykjavík og eru foreldrar hennar Svanborg Óskarsdóttir og Hörður Rögnvaldsson. Móðir Eyglóar var aðeins 16. ára gömul þegar hún átti hana og bjuggu þær í kjallaraíbúð hjá foreldrum hennar í Hlíðahverfi fyrstu árin á meðan Svanborg lauk stúdentsprófi og fór í kennaranám. Megnið af æskunni bjó Eygló í Breiðholti þar sem hún gekk í Breiðholtsskóla og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1992.[2] Hún lauk Fil.kand prófi í listasögu frá Stokkhólmsháskóla árið 2000 og stundaði framhaldsnám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands frá 2007. Eygló er búsett í Mosfellsbæ og er gift Sigurði E. Vilhelmssyni, en saman eiga þau tvö börn.
Þingstörf
Eygló sat á Alþingi fyrir Suðurkjördæmi frá nóvember 2008. Hún tók sæti á Alþingi fyrir hönd Framsóknarflokksins þegar Guðni Ágústsson fyrrverandi formaður flokksins sagði af sér þingmennsku. Fyrir Alþingiskosningarnar 2009 skipaði hún annað sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi og var 7. þingmaður kjördæmisins.
Eygló sat í heilbrigðisnefnd, iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd Alþingis árin 2008-2009. Hún sat í menntamálanefnd og viðskiptanefnd árin 2009-2011 og allsherjar- og menntamálanefnd árið 2011. Á árunum 2009-2010 sat hún í þingmannefnd [3] til að fjalla um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis[4]. Eygló var formaður verðtrygginganefndar efnahags- og viðskiptaráðherra [5], en nefndin hafði það hlutverk að leita leiða til að draga úr vægi verðtryggingar.
Tilvísanir