Baldur Guðlaugsson

Jón Baldur Guðlaugsson (f. 8. desember 1946) er íslenskur hæstaréttarlögmaður og í leyfi frá störfum sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis. [1] Baldur var fundinn sekur um innherjasvik í aðdraganda bankahrunsins. Hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum fyrir 192 milljónir króna.[2][3] Baldur vissi vegna stöðu sinnar af slæmri stöðu Landsbankans og var því innherji.[4] Lögmaður Baldurs hefur látið að því liggja að rannsóknin gegn Baldri sé pólitísk.[5] Snemma árs 2010 var kröfu Baldurs um að rannsókn sérstaks saksóknara gegn honum yrði hætt vísað frá.[6] Baldur er eini opinberi starfsmaðurinn sem opinbert er að sérstakur saksóknari sé að rannsaka vegna saknæms athæfis í tengslum við bankahrunið. Þann 7. apríl 2011 var Baldur dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Ferill

Baldur er tengdur Sjálfstæðisflokknum og var í hinum svonefnda Eimreiðarhóp á yngri árum.[7] Hann hefur skrifað bókina 30. marz 1949 um inngöngu Íslands í NATO 30. mars 1949 og óeirðirnar á Austurvelli vegna hennar en hún kom út 1976. Baldur hefur setið í stjórn Eimskipa og starfað sem lögfræðingur á vegum Landsvirkjunar.[8] Í viðtali í tímaritinu Frjáls verslun árið 1999 var hann sagður „manna fróðastur um [íslensku] hlutafélagalögin”.[9]

Innherjastaða Baldurs

Baldur seldi bréf sín í Landsbankanum um mánuði áður en íslenska ríkið tók yfir rekstur bankans og hlutabréfin urðu verðlaus. Baldur hefur staðfastlega neitað að hafa haft fyrirfram vitneskju um það hrun sem var í vændum. Hann hefur frá þeim tíma síðan hann tók við stöðu ráðuneytisstjóra árið 2000 ekki keypt nein ný hlutabréf.[10] Baldur hafði hvorki tilkynnt fjármála- né viðskiptaráðherra um þessa hagsmuni sína.[11] Þó hefur komið í ljós að tveimur vikum áður en hann seldi hlutabréf sín hafi hann setið fund ásamt Björgvini G. Sigurðssyni og Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, þar sem vandamál vegna Icesave-reikninga Landsbankans voru rædd.[12] Í viðtölum við Morgunblaðið og Viðskiptablaðið um tilefni þess að hann seldi hlutabréfin sagðist Baldur hafa ákveðið að selja eftir að hafa lesið um bága stöðu Landsbankans í fjölmiðlum.[13] Hann segist hafa ráðagert í langan tíma að selja bréfin en beðið með það fram á miðjan september. Öll umræða um að hann hefði haft innherjaupplýsingar væri ásakanir sem væru af pólitískum toga.[14]

Fleiri en lögmaður Baldurs hafa komið honum til varnar. Á vefsíðu sinni segir Jón Baldur Lorange um Baldur: „Þó hefur mér fundist hér traustur embættismaður á ferð enda farsæll starfsferill að baki. Vissulega virðist hann hafa misstigið sig í öllu brjálæðinu sem gekk yfir þjóðfélagið á síðustu 2 árum ef rétt er að hægt sé að rekja sölu hlutabréfa hans í Landsbankanum til innherjaupplýsinga. Það hefur hins vegar ekki verið til siðs hér á landi að taka hart á slíku enda virðast þeir sem áttu að hafa eftirlit hafa verið áköfustu klappstýrur hrunaliðsins. Hvort er líklegra að fyrrnefndur embættismaður reyni að koma fjármunum undan eða forhertur fjárglæframaður sem er sérfræðingur í hringrásum sýndarfjármuna í aflandsfélögum? Hetjan í kastala réttlætisins fær örugglega hrós frá útrásargosunum sem hlæja sig máttlausa yfir uppákomunni. Þjóðinni er hins vegar ekki hlátur í huga.”[15] Í staksteinum Morgunblaðsins undir fyrirsögninni „Reitt hátt til höggs” eru þessi skrif Jóns Baldurs tekin upp og bætt við: „Stóra fréttin í þessu undarlega máli er auðvitað sú að 14 mánuðum eftir „hrun“ þá skuli fyrsta frystingin á fjármunum beinast að embættismanni úr fjármálaráðuneytinu. Þeir sem óðu um bankana með eignarhaldsfélögin sín og slógu hundraða milljarða lán jafn létt og aðrir drekka vatn eru ekki enn komnir á blað. Þetta lofar ekki góðu og er fremur grátlegt en hlægilegt.“.[16] Að mati vefritsins Eyjan leynir sér ekki að Davíð Oddsson haldi um pennann í þessum skrifum blaðsins, en Davíð og Baldur séu nánir persónulegir vinir og pólitískir samherjar um áratugaskeið.[17]

Hlutverk í bankahruninu

Laugardaginn 27. september 2008 sat Baldur afdrifaríkan fund ásamt Geir Haarde forsætisráðherra, Davíð Oddssyni, Eiríki Guðnasyni og Ingimundi Friðrikssyni seðlabankastjórum, Tryggva Þór Herbertssyni, efnahagsráðgjafa Geirs, og Bolla Þór Bollasyni ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins.[18] Á þessum fundi var Geir Haarde gert grein fyrir fjárhagsvanda Glitnis sem leiddi síðar til bankahrunsins. Í krafti stöðu sinnar hefur Baldur verið sagður „ráða miklu um það að fjármálaráðuneytið lagðist lengi vel gegn beiðni um aðstoð [Alþjóðagjaldeyrissjóðsins]”.[19]

Annað

Fjármálaráðherra skipar stjórn Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda og formann hennar.[20] Ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins hverju sinni hefur verið skipaður formaður stjórnar.[21] Baldur gegndi þeirri stöðu 4. júlí 2008, þegar héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að undirmenn Baldurs í fjármálaráðuneytinu hefðu vegna undirmannavanhæfis verið vanhæfir þegar þeir ákváðu árið 2005 að staðfesta breytingar á samþykktum lífeyrissjóðsins Gildis, þar sem Baldur hefði vegna stöðu sinnar sem formaður stjórnar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda verið vanhæfur ef hann hefði tekið þessa ákvörðun.[22]

Tengt efni

Tilvísanir

  1. „Indriði verður ráðuneytisstjóri tímabundið“. 2. febrúar 2009.
  2. „Baldur hefur fengið stöðu sakbornings“. 19. nóvember 2009.
  3. „Rannsókn á máli Baldurs langt komin“. 18. desember 2009.
  4. „Segir Baldur hafa sagt ósatt“. 17. desember 2009.
  5. „Spyr hvort að rannsókn á Baldri sé pólitísk“. 24. nóvember 2009.
  6. „Dómari fellst ekki á kröfu Baldurs“. 6. janúar 2010.
  7. „EIMREIÐARHÓPURINN - OKKAR ZEITGEIST?“. Afrit af upprunalegu geymt þann 3 nóvember 2009. Sótt 19. desember 2009.
  8. Val á tíu áhrifamestu mönnum viðskiptalífsins
  9. Nú er tími aðalfunda, viðtal í tímaritinu Frjáls verslun árið 1999.
  10. „Ráðuneytisstjóri í Fjármálaráðuneytinu seldi hlutabréf í Landsbankanum mánuði fyrir þjóðnýtingu“. 16. október 2009.
  11. „Björgvin vissi ekki um eignarhlut Baldurs í Landsbankanum“. 10. desember 2008.
  12. „Ráðuneytisstjórinn ræddi vanda Icesave rétt áður en hann seldi bréf í bankanum“. 11. nóvember 2008.
  13. „Seldi eftir að fréttir birtust í fjölmiðlum“. 29. október 2008.
  14. „Taldi sig ekki þurfa að upplýsa ráðherra“. 11. nóvember 2009.
  15. „Mér er ekki hlátur í huga“. 17. nóvember 2009.
  16. „Reitt hátt til höggs“. 19. nóvember 2009.
  17. „Davíð til varnar Baldri. Grátlegt að eignir hans séu frystar en útrásarmenn ekki komnir á blað“. 19. nóvember 2009.
  18. Guðni Th. Jóhannesson (2009). Hrunið. JPV útgáfa. ISBN 9789935110633., bls 39-40
  19. Guðni Th. Jóhannesson (2009). Hrunið. JPV útgáfa. ISBN 9789935110633., bls 233
  20. „Samþykktir og lög“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. mars 2016. Sótt 16 janúar 2021.
  21. „Eldri Ársskýrslur“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. mars 2016. Sótt 16 janúar 2021.
  22. Ráðuneytisstjóri vanhæfur til að samþykkja breytingar lífeyrissjóðs

Tenglar

Fréttir