Í Evrópu einkenndist áratugurinn öðru fremur af ófriði. Svíar tóku þátt í Þrjátíu ára stríðinu og náðu miklum árangri til að byrja með, auk þess að tryggja beina þátttöku Frakka í stríðinu gegn keisaranum. Í Skotlandi urðu deilur um bænabók til þess að Karl Englandskonungur beið ósigur fyrir Sáttmálamönnum í Biskupastríðunum og neyddist til að kalla enska þingið saman sem aftur leiddi til Ensku borgarastyrjaldarinnar.
Helstu atburðir og aldarfar
Þrjátíu ára stríðið
Eftir nær samfellda sigurgöngu í Þrjátíu ára stríðinu fyrstu tvö árin misstu Svíar konung sinn Gústaf 2. Adolf í orrustunni við Lützen1632. Ríkiskanslarinn Axel Oxenstierna tók þá við stjórnartaumunum fyrir hönd hinnar barnungu Kristínar drottningar, hélt sjálfur til Þýskalands og sá til þess að sænski herinn hélt herförum sínum þar áfram. Herstjóri keisarans, Albrecht von Wallenstein var myrtur 1634 vegna gruns um að hann ætti í friðarviðræðum við Svía. Í orrustunni við Nördlingen1634 biðu Svíar sinn fyrsta afgerandi ósigur gegn keisarahernum en Oxenstierna samdi þá við Frakka um enn frekari stríðsstyrk og tryggði beina þátttöku þeirra í stríðinu, en fram að því höfðu þeir látið sér nægja að fjármagna það.
Einangrun Japans
Í Japan hófst einhliða einangrun Japans fyrir alvöru árið 1636 með því að sjóguninn bannaði allar ferðir Japana til og frá landinu að viðlagðri dauðarefsingu. Skipulegar ofsóknir gegn kristnum Japönum höfðu hafist í upphafi áratugarins. Shimabara-uppreisnin var uppreisn kristinna bænda gegn herstjóraveldinu. Hún var barin niður 1638 þegar hersveitir herstjórans tóku Harakastala á Shimabara. Um 37 þúsund uppreisnarmenn voru hálshöggnir og kristin trú bönnuð með öllu í landinu.
Biskupastríðin í Skotlandi
Karl 1. Englandskonungur hélt áfram einveldistilburðum sínum og ríkti án enska þingsins. Tilraun hans til að koma á nýrri bænabók í Skotlandi varð til þess að upp úr sauð og Skotar hófu Biskupastríðin gegn konungi. Á endanum neyddist Karl til að boða nýtt þing1640 til þess að semja við Skota um friðarskilmála. Þetta sama þing átti síðar eftir að steypa Karli af stóli og taka hann af lífi.
Verslunarstaðir, nýlendur og landkönnun
Hollendingar áttu sitt mesta útþensluskeið í Austur-Indíum þar sem þeir reistu bækistöðvar og hröktu Portúgali frá verslunarstöðum. Konungssamband Portúgals og Spánar leið svo undir lok 1640 þegar Jóhann 4. var hylltur sem konungur Portúgals. Uppihald hins vel þjálfaða spænska atvinnuhers og stríðið við Frakkland var orðið íþyngjandi fyrir héruð undir stjórn Spánar sem leiddi til Sláttumannaófriðarins1640.
Englendingar héldu áfram að stofna nýlendur á austurströnd Norður-Ameríku. Þessar nýlendur efldust og voru í stakk búnar til að verjast árásum indíána sem reyndu að reka Evrópubúana af höndum sér.