John Maynard Keynes, fyrsti baróninn af Keynes (5. júní1883 – 21. apríl1946) var mikilsvirtur hagfræðingur, og kenningar hans um að ríkisvaldinu bæri að stýra heildareftirspurninni í samfélaginu höfðu mikil áhrif á hagstjórn í heiminum eftir heimsstyrjöldina fyrri. Þekktasta bók hans, Altæka kenningin um atvinnu, vexti og peninga (enska: The General Theory of Employment, Interest and Money),[1] kom út árið 1936 og hefur áhrif enn þann dag í dag á hagfræðina, þó að margir telji kenningar hans ekki hafa staðist tímans tönn. Þær hafa ætíð verið umdeildar.
Í kreppunni miklu á 4. áratug 20. aldar olli Keynes byltingu með því að gagnrýna kenningar nýklassískrar hagfræði um að frjáls markaður myndi til skemmri tíma skapa fulla atvinnu sjálfkrafa, að því gefnu að verkafólk væri sveigjanlegt í launakröfum sínum. Hann færði rök fyrir því að heildareftirspurn (heildarneysla í tilteknu hagkerfi) réði efnahagsumsvifum, þannig að minni heildarneysla gæti leitt til mikils atvinnuleysis til lengri tíma, og þar sem laun og launakostnaður væru tregbreytanleg niður á við myndi full atvinna ekki komast á sjálfkrafa.[1] Keynes hvatti til þess að nota ríkisfjármál og peningamálastefnu til að milda áhrif efnahagslægða og efnahagskreppa. Eftir að kreppan mikla skall á 1929 varð Keynes líka afhuga hugmyndinni um frjálsa verslun og gagnrýndi kenningu David Ricardo um hlutfallslega yfirburði sem lágu henni til grundvallar. Keynes varð þannig fylgjandi efnahagslegri verndarstefnu.[5][6][7] Seint á 4. áratugnum voru kenningar hans lagðar til grundvallar hagstjórnarstefnu helstu ríkja á Vesturlöndum og tveimur áratugum eftir lát Keynes árið 1946 höfðu nær öll kapítalísk hagkerfi gert það. Keynes kom líka að stofnun helstu alþjóðastofnana á sviði hagstjórnar eftir síðari heimsstyrjöld.
Á 8. áratugnum tóku áhrif Keynes að dvína, einkum vegna kreppuverðbólgu sem hrjáði efnahagslífið í Bretlandi og Bandaríkjunum á þeim tíma, en líka vegna gagnrýni hagfræðinga sem aðhylltust peningamagnhyggju, eins og Milton Friedman.[8] Þessir hagfræðingar efuðust um getu ríkisins til að hafa áhrif á hagsveifluna með fjármálastefnu.[9] Kenningar Keynes komust aftur í tísku eftir Lausafjárkreppuna 2007-2008 og voru grundvöllur efnahagsstefnu Barack Obama, Gordon Brown og fleiri stjórnarleiðtoga í kjölfar kreppunnar.[10]
Æviágrip
John Maynard Keynes fæddist 1883 í Cambridge á Englandi. Faðir hans var hagfræðingur og móðir hans var fyrsta konan til að útskrifast úr King's College í Cambridge-háskóla. Hann lauk B.A. prófi 1904 og M.A. prófi 1909 og starfaði svo við ýmsar stofnanir, m.a. breska seðlabankann. Árið 1919 fór hann til Versala í Frakklandi sem hagfræðilegur ráðgjafi þáverandi forsætisráðherra Bretlands, David Lloyd George. Þar var Versalasamningurinn undirritaður, en þar var kveðið á um stríðsskaðabætur sem Þjóðverjar voru látnir greiða. Keynes taldi þær allt of háar og sagði þær grafa undan efnahag Þjóðverja.[11] Í framhaldi af þessu skrifaði hann bókina Áhrif friðar á efnahag (enska: The Economic Consequences of the Peace). Sú bók var víða lesin en tekið með nokkrum fyrirvara.
Keynes lést í Sussex árið 1946, 63 ára að aldri. Hann er af mörgum talinn einn merkasti hugsuður 20. aldarinnar.
Heimspekingurinn Bertrand Russell sagði að Keynes hefði verið einn gáfaðasti maður sem hann hefði nokkru sinni þekkt og bætti við: „Ætíð þegar ég átti í rökræðum við Keynes fannst mér ég hafa líf mitt í lúkunum og gekk sjaldan frá slíkum rökræðum án þess að finnast ég vera svolítill kjáni.“[12] Keynes á að hafa sagt konu sinni að hann hefði hitt guð á 5:15 lestinni þegar hann hafði hitt lærisvein Russells, Ludwig Wittgenstein.
Hagfræði
Kenningin
Helsta verk Keynes var kenningin um hlutverk ríkisvalds í efnahagsstjórnun. Kenningar hans urðu fyrst kunnar 1929 og voru þá settar inn í stefnuskrá frjálslynda flokksins í Bretlandi. Sumir vilja meina að þar hafi grunnur verið lagður að hugmyndafræði miðjuaflanna, þar sem öfgum til hægri og vinstri hafi verið hafnað.
Keynes taldi að kreppan mikla hefði komið til vegna þess að minna var notað og meira sparað af tekjunum. Eyðslan og eftirspurnin var ekki nóg. Þar með var til komið fjármagn á lausu; það ætti ríkið að taka að láni og koma í umferð meiri peningum en það gat aflað með sköttum. Út af því fjármagni sem lá óhreyft í sparnaði átti fjármagnsinnspýtingin ekki að valda verðbólgu, heldur myndi jafnvægi milli eyðslu og sparnaðar nást aftur.
Keynes sagði, að út af fyrir sig, væri það gott að borga hópi manna til að moka skurð einn dag og fylla svo aftur upp í skurðinn næsta dag, til þess eins að koma peningum af stað. Reyndar taldi hann að vegagerð væri heppilegustu verkefnin til að veita fólki vinnu og auka peningaflæði um hagkerfið. Hann mat margföldunaráhrifin vera á milli 2 og 3, sem þýðir að fyrir hverja krónu sem notuð var umfram tekjur á krepputíma, yrðu til verðmæti upp á tvær eða þrjár krónur úti í samfélaginu.[13]
„Og það skrýtna var að í sögunni hjá Keynes var enginn skúrkur sem kenna mátti um allt saman. Það þýddi ekkert að skamma kapítalistana fyrir að vilja ekki fjárfesta. Þeir voru allir af vilja gerðir en það var engin eftirspurn, studd peningum til að kaupa vörurnar. Og það þýddi lítið að skamma atvinnuleysingjana sem samkvæmt kenningunni brugðust skyldu sinni um að spara.“[14] Þetta var því ekki það vegasalt sem kapítalistar höfðu haldið fram að hagkerfið væri, heldur lyfta, sem stundum færi upp en dytti stundum niður. Þegar það gerðist þyrfti að setja rafmagnið á aftur til að hún fengist haggað upp á við.
Mótrök
Kenningin var hins vegar langt í frá gallalaus. Stór galli var á gjöf Njarðar sem ekki kom fyllilega í ljós fyrr en 1931. Aukin kaupgeta á heimamarkaði leiðir nefnilega óumflýjanlega til aukins innflutnings sem aftur leiðir til þess að gjaldeyrisjöfnuðinum er ógnað. Breska pundinu, sem enginn bjóst við að yrði haggað, skrikaði fótur.
Keynes tók kenninguna og prjónaði örlítið við hana. Hann sagði að þegar ríkið fengi peninga að láni og kæmi þeim inn í hagkerfið til að auka eftirspurn, yrðu innflutningstollar, innflutningsstýring eða eitthvað sambærilegt að fylgja.
Mörgum hefur þótt hugmyndafræði Keynes ekki hafa staðist tímans tönn. Ef til vill sást honum yfir að hagkerfi er ekki eins og vel smurð vél og mannlega hegðun er ekki hægt að kryfja til mergjar. Það skapar augljósa hættu að færa miðstýrt fjárfestingarvald á hendur fárra eins og mörg ríki hafa sopið seyðið af, þar á meðal Ísland.[15]
Margir töldu að hagkerfið myndi ævinlega leita jafnvægis við fulla nýtingu framleiðsluþátta fyrir tilverknað hinnar ósýnilegu handar markaðarins. Íhlutun í þann viðkvæma stillibúnað hagkerfisins gerði því aðeins illt.[16] Austurríski hagfræðingurinn Schumpeter var ætíð á öndverðum meiði við Keynes. Schumpeter taldi að kapítalisminn væri bestur óheftur og að ríkisafskipti dræpu að lokum frumkvöðulinn í dróma og kapítalismann í leiðinni.
Bandaríski hagfræðingurinn Milton Friedman lýsti Almennu kenningunni um atvinnu, vexti og peninga sem „merkilegri bók“ en hélt því þó fram að keynesisminn gæti leitt til lítillar framleiðslu og hárrar verðbólgu líkt og hagkerfi iðnríkja upplifðu snemma á áttunda áratugnum. Friedman fannst Tract on Monetary Reform, sem kom út árið 1923, vera mun álitlegra rit og besta rit Keynes vegna þeirrar áherslu að halda stöðugleika í verðgildi. Hagfræðingurinn Friedrich von Hayek gagnrýndi kenningu Keynes einnig og sagði að Keynes fæli ríkisvaldinu allt of mikið vald og að það leiddi til sósíalisma.
Kenningin í reynd
Segja má að sátt hafi ríkt um uppbyggingu velferðarkerfa í anda kenninga Keynes frá lokum fjórða áratugarins og fram á þann áttunda, bæði á Íslandi og annars staðar. Forseti Bandaríkjanna á sjöunda áratugnum, John F. Kennedy, framfylgdi til að mynda kenningum Keynes og í kjölfarið fylgdi lengsta hagvaxtarskeið BNA til þeirra tíma.[17] En þegar kom fram á áttunda áratuginn fóru að koma upp efasemdir um að þessi hagfræði stæðist. Til dæmis fór hagvöxtur minnkandi víða í Vestur-Evrópu auk þess sem verðbólga og atvinnuleysi fóru vaxandi. Hagfræðingar fóru að telja rót vandans felast í útþenslu ríkisins, sem í vaxandi mæli sogaði til sín fjármagn og hefði lamandi áhrif á frumkvæðieinstaklinga og fyrirtækja.[18]
Upp úr þessu unnu þeir sigur í kosningum sem afneituðu keynesismanum. Kosning Ronald Reagan í Bandaríkjunum og Margaret Thatcher í Bretlandi eru órækar sannanir þess. Reyndar mistókust margar aðgerðir Reagans, en núorðið telja menn að það megi rekja til þess að bandarískur iðnaður hafi ekki verið undir þær búinn. Seinna var róið að því öllum árum að efla samkeppnishæfni fyrirtækja og einstaklinga og hefur það skilað tilætluðum árangri. Má í því sambandi nefna Bill Clinton, sem notaði það sem eitt af sínum aðalkosningamálum í forsetakosningunum árið 1992.
General Theory of Employment, Interest and Money
Helsta verk John Maynard Keynes er eflaust bók hans Almenna kenningin um atvinnu, vexti og peninga (e. The General Theory of Employment, Interest and Money) sem gefin var út árið 1936. Bókin, sem gjarnan er kölluð Almenna kenningin, hefur haft gríðarleg áhrif á hagfræði dagsins í dag, hefur verið kölluð biblía þjóðhagfræðinnar og má segja upphafið af því sem kallað er keynísk hagfræði.[19]Henni er skipt niður í sex bækur sem hver tekur fyrir ákveðin atriði.Helstu hugmyndir Keynes í Almennu kenningunni snúa að samsetningu á lögmálinu um virka eftirspurn, lausafjárhneigð og jaðarafköstum fjármagns og afkastavexti jaðar fjárfestinga.
Í bókinni setur Keynes fram rök sem fara gegn skoðunum hinna klassísku hagfræðinga að hagkerfi í ójafnvægi muni ná jafnvægi á ný án utanaðkomandi afla og að hagkerfi í jafnvægi geti sjálft náð fullu atvinnustigi.[20] Keynes hafnar því Laissez-faire kenningum og færði rök fyrir því að atvinnustig ráðist af eftirspurninni en ekki verð vinnunnar sem gefur til kynna að hagkerfi geti ekki náð jafnvægi af sjálfu sér eftir tímabundna niðursveiflu. Hann taldi að það væri til staðar öfugt samband milli verðbólgu og atvinnustigs og lagði þannig áherslu á hvernig peningastefna hins opinbera getur vegið á móti því. Á krepputímum ætti hið opinbera að auka útgjöld sem skapað getur atvinnu. Þannig sé hægt að auka peningaflæði í hagkerfinu til að koma í veg fyrir enn meiri verðbólgu og atvinnuleysi. [19]Bókin færði þar með góð rök fyrir inngripum hins opinbera á mörkuðum en hagkerfi eru mörg hver, enn til dagsins í dag, rekin á forsendum sem Keynes lagði fram í bókinni.
Klassískir hagfræðingar héldu því fram að fjárfesting væri ákvörðuð af sparnaði og jaðarframleiðni fjármagns, sem í jafnvægi, væru jöfn vöxtum. Í bókinni færir Keynes hins vegar rök fyrir því að það væri öfugt, að fjárfesting er ákvörðuð af markaðsvöxtum og jaðarhagkvæmni fjármagns, og að þau valdi breytingum á heildartekjum og þar með sparnaði. Ennfremur taldi Keynes að vextir gegna frábrugðnu hlutverki en það að samræma sparnað og fjárfestingu sem klassísk hagfræði hafði haldið fram. Keynes taldi hlutverk vaxta vera að halda jafnvægi, en ekki milli eftirpsurnar og framboðs á fjármagnsvörum, heldur á milli eftirspurnar og framboðs peninga. Hann taldi því að vextir væru ákveðin umbun fyrir að eiga lausafé og ástæður fyrir eftirspurn eftir lausafé væru þrjár, viðskipakvöt, varúðarráðstöfun og vangaveltur.[19]
Keynes hafði miklar áhyggjur af hagkerfi síns tíma og hvernig það hegðaði sér og vonaðist eftir því að rit sitt myndi setja mark sitt á samfélagið. Hann var í raun viss um að þetta rit hans myndi hafa byltingarkennd áhrif á það hvernig fólk horfir á hagræn vandamál, sem varð heldur betur raunin. Bókin er fullkomið dæmi um vald gagnrýnnar hugsunar. Með róttækri endurskoðun á sumum grundvallarreglum og viðurkenndum kenningum klassískrar hagræði á þeim tíma, olli það byltingu í efnahagslegri hugsun og efnahagsstefnu stjórnvalda. Sjálfur forseti bandaríkjanna Richard Dixon sagði í viðtali „við erum öll Keynesar í dag“.
Arfleifð Keynes
Áhrif Keynes eru óumdeilanlega gríðarlega mikil enda frumkvöðullinn að heilum hagfræðiskóla sem nefndur er eftir honum sjálfum, Keynísk hagfræði sem segja má að hafi myndast út frá kenningum hans um hlutverk hins opinbera í efnahagsstjórnun. Þá trúði hann því innilega að ríkið búi yfir því valdi sem til þarf til þess að leysa helstu vandamál kapítalismans. Flestir kannast við viðurnefni Adam Smith, föður hagfræðinnar, en má þá kalla John Maynard Keynes föður nútímahagfræðinnar. Hann lést þann 21. apríl árið 1946, aðeins 62 ára gamall. Hagfræðingsins, rithöfundarins, viðskiptamannsins og yfirburðar hugsuðarins Keynes, var sárt saknað af bresku þjóðinni en um það var rætt að þjóðin hafi einmitt þurft á skynsemi hans og snilligáfu að halda á þeim tímapunkti er hann féll frá.
Hagfræðin
Keynes sagði að hagfræðin sem slík væri einfalt fag, sem fáir gátu náð góðum tökum á. Segja má að hann hafi sjálfur skilgreint snilligáfu sína og hvað það þýðir að raunverulega vera hagfræðingur og skilja fagið: “Sérfræðingur í hagfræði þarf að búa yfir sjaldgæfri samsetningu hæfileika. Hann þarf að vera stærðfræðingur, sagnfræðingur og heimspekingur að einhverju leyti. Hann þarf að skilja tákn en nota orð”. Þó Keynes sé ekki að lýsa sjálfum sér hér, heldur sínum gamla kennara, Alfred Marshall, þá á þetta vel við hann sjálfan. “Hann þarf að læra í nútíðinni í ljósi fortíðarinnar, fyrir framtíðina.”[21]
Kenningar Keynes hafa, eins og áður hefur komið fram, haft gríðarlega áhrif á nútímahagfræði. Það hefur þó ekki verið raunin alla tíð. The General Theory of Employment, Interest and Money, helsta rit Keynes, sem hann skrifaði á tímum kreppunnar miklu, var mjög vel tekið. Hins vegar, eftir seinni heimsstyrjöldina var hugmyndafræði Keynes gagnrýnd. Einn helsti gagnrýnandi þessarar hugmyndafræði var Milton Friedman, en hann benti á hvernig hún geti leitt til kreppuverðbólgu, þ.e. samspil stöðnunar og verðbólgu. Þetta varð síðan raunin á áttunda áratugnum en var þá frekar horft til peningamagns til þess að leiðrétta verðbólgu. Keynísk hugmyndafræði lét því undan. Það var síðan eftir fjármálakreppuna 2007-2008 þar sem verður eins konar endurvakning Keynisma.
Pólitískar og samfélagslegar skoðanir
Keynes hafði mikil áhrif á pólitík í Bretlandi á sinni ævi. Hann var ævilangt meðlimur í frjálslynda flokknum, sem fram að 1920 hafði verið annar af tveimur helstu stjórnmálaflokkum í Bretlandi. Hann aðstoðaði flokkinn í kostningabaráttum og viðburðum en neitaði samt alltaf að bjóða sig sjálfur fram, þrátt fyrir að vera margoft beðin um það. Frá 1926, þegar David Lloyd George varð leiðtogi frjálslynda flokksins, gegndi Keynes lykilhlutverki í að móta stefnu flokksins í efnahagsmálum en þá var flokkurinn ekki með sambærilegt fylgi vegna vaxandi áhrifa verkamannaflokksins. Keynes fékk svo tækifæri árið 1939 að fara á þing sem sjálfstæður þingmaður fyrir hönd Háskólans í Cambridge, en hann afþakkaði sætið þar sem hann taldi sig geta haft víðtækari áhrif sem sjálfstæður hagfræðingur.
Keynes var brautryðjandi í réttindum kvenna og jafnrétti kynjanna sem var fremur sjaldgæft á fyrri hluta 20. aldarinnar. Árið 1923 varð hann varaforseti Marie Stopes Society for Constructive Birth Control og hélt margvíslega fyrirlestra um mikilvægi getnaðarvarna og ábata þess að eignast heilbrigð börn. Keynes gagnrýndi samfélagslega uppbyggingu samtíma síns. Hann taldi vandamál liggja sérstaklega í takmörkuðu framboði á getnaðarvörnum, skortur á kynfræðslu, refsiaðgerðir gegn samkynhneigð, mismunun í starfi og launum gegn konum og að hjónabands- og skilnaðarráðgjöf meðhöndli kvenfólk sem undirmenn. Hann hélt því fram að ofangreind dæmi væru öll “miðaldra og algjörlega úr tengslum við siðmenntaðar skoðanir og venjur samtímans”.[22]
Framlög John Maynard Keynes til nútímas eru gríðarlega mikilvæg og hafa haft víðtæk áhrif, sérstaklega kenningar hans um íhlutun stjórnvalda í efnahagslífið sem enn eru áberandi í umræðum um stjórnun efnahagssamdrátta og stöðugleika í hagkerfinu. Kenningar Keynes veittu hugmyndafræðilegan grunn fyrir nútíma hagstjórn og stefnu sem mælir með virkri þátttöku stjórnvalda til að draga úr samdrætti, eins og hann setti fram í þekktu riti sínu The General Theory of Employment, Interest, and Money (1936). Kenningar hans mynduðu grunn fyrir kenningar Keynes um að á tímum efnahagssamdráttar ættu stjórnvöld að eyða umfram það sem þau afla sér til að örva eftirspurn, skapa störf og ýta undir hagvöxt. [23]
Hagfræðingasagnfræðingurinn Robert Heilbroner talar um Keynes sem einn af helstu áhrifavöldum nútíma hagfræðihugsunar. Heilbroner hrósar Keynes ekki aðeins fyrir tæknilegar innsýnir sínar heldur einnig fyrir heildræna sýn sína á hagfræði sem fræði sem tengist siðfræði, stjórnmálum og velferð samfélagsins. Heilbroner bendir á trú Keynes á að hagfræði ætti að þjóna samfélaginu og létta byrðar þess, frekar en að einblína eingöngu á kenningarlegan eða stærðfræðilegan stöðugleika. [24]
Áhrif Keynes eru greinileg enn í dag í aðgerðum sem beitt er á krepputímum, svo sem í fjármálakreppunni 2008 og efnahagslegum samdrætti í kjölfar COVID-19 faraldursins, þar sem stjórnvöld víðsvegar um heiminn gripu til Keynesískra hugsunarhátta. Þessar aðgerðir endurspegla trú hans á að á krepputímum geti ríkisútgjöld endurheimt traust, stutt við störf og endurnýjað efnahagslífið – meginreglur sem eru í góðu samræmi við sýn Heilbroners á hagfræði sem beinist að því að finna hagnýtar lausnir fyrir velferð samfélagsins.
Samruni Keynesískrar hagfræði og mannúðarsjónar Heilbroners endurspeglar hvernig kenningar Keynes hafa mótað hagkerfi þar sem ákvarðanir um efnahagsstefnu byggjast ekki aðeins á markaðsöflum heldur einnig á því markmiði að ná fram meiri efnahagslegu jafnrétti og stöðugleika.
The Economic Consequences of the Peace (1919)
Þessi bók var gefin út skömmu eftir lok fyrri heimsstyrjaldar og er að gagnrýna Versalasamninginn. Keynes taldi Versalasamninginn leggja óréttlátar og skaðandi efnahagslegar skaðabætur á Þýskaland. Keynes tók þátt í Parísar friðarviðræðunum sem hluti af bresku sendinefndinni, þar sem hann varð vitni að því hvernig samningurinn var uppbyggður. Hann sagði sig frá störfum í mótmælaskyni við skilmálana og trúði því að skaðandi skilmálar skaðabótanna og landamæra breytinga myndu skapa óstöðugleika í Evrópu.
Rök Keynes voru tvenns konar. Í fyrsta lagi hélt hann því fram að skaðabætur sem krafist var af Þýskalandi voru efnahagslega skaðandi. Þýskaland, sem var veiklegt eftir stríðið myndi ekki geta greitt slíkar upphæðir, sem myndi leiða til mikils efnahagslegs hruns. Í öðru lagi hélt hann því fram að þessi efnahagsleg óstöðugleiki myndi hafa pólitískar afleiðingar, sem gæti leitt til framtíðar átaka.
Keynes var einnig gagnrýninn á þá skammsýni sem einkenndi afstöðu Bandamanna til Þýskalands, þar sem hann taldi að þeir vanræktu að sjá fyrir þær afleiðingar sem þvinganirnar gætu haft á þýska samfélagið. Hann áleit að ef Þýskaland yrði of veikburða efnahagslega yrði ekki aðeins framtíðarhagkerfi landsins í hættu heldur einnig stöðugleiki alls Evrópusvæðisins. Í sínum huga voru samningarnir ekki aðeins óréttlátir, heldur stefndu þeir heildarhagkerfi heimsálfunnar í hættu með því að grafa undan forsendum fyrir jafnvægi og viðskiptasamböndum milli ríkja.
Bókin var ekki bara efnahagsleg greining heldur einnig siðferðileg gagnrýni. Keynes gagnrýndi leiðtoga Bandamanna, sérstaklega Georges Clemenceau frá Frakklandi, Woodrow Wilson frá Bandaríkjunum og David Lloyd George frá Bretlandi, fyrir að setja pólitíska hagsmuni og hefnd fram yfir langtímajafnvægi. Spádómar Keynes urðu því miður að veruleika: erfiðar efnahagslegar aðstæður í Þýskalandi eftir stríðið stuðluðu að uppgangi nasistaflokksins og upphafi síðari heimsstyrjaldar. The Economic Consequences of the Peace varð mjög áhrifamikil og styrkti orðspor Keynes sem opinberan hugsuð og gagnrýnanda á ríkjandi stefnu.
The Economic Consequences of Mr. Churchill
Seinna verk hans einblínir á ákvörðun Breta um að snúa aftur að gullfætinum árið 1925, undir forystu Winston Churchill, sem þá var fjármálaráðherra. Keynes gagnrýndi þessa ákvörðun harðlega, sérstaklega vegna þess að pundið var endurreist í gildi sínu fyrir stríð, sem Keynes hélt fram að væri ofmetið. Hann hélt því fram að þessi ákvörðun myndi leiða til verðhjöðnunar, samdráttar í útflutningi og atvinnuleysis, og síðar reyndust þessi orð rétt.
Gagnrýni Keynes snerist um takmörk í fjármálastýringu gullfótarins. Hann hélt því fram að þetta fjármálakerfi hindraði ríkisstjórnir í að nýta peningastefnu til að bregðast við efnahagslegum niðursveiflum eða atvinnuleysi. Með því að endurreisa pundið á fyrirstríðsgenginu gerði breska ríkisstjórnin útflutningsvörur sínar dýrari og minna samkeppnishæfar á alþjóðamörkuðum. Afleiðingarnar voru verulegar aukningar á atvinnuleysi, sérstaklega í iðngreinum eins og kolanámu- og framleiðsluiðnaði, sem þegar áttu í erfiðleikum.
Keynes gagnrýndi einnig Churchill fyrir að skilja ekki efnahagsleg flækjustig málsins og hélt því fram að ákvörðunin væri byggð á úreltum efnahagslegum hugsunarhætti. Hann hélt í staðinn fram fyrir sveigjanlegra gjaldmiðla kerfi sem gæti brugðist betur við þörfum hagkerfisins.
Bæði þessi verk sýna hversu framsýnn John Maynard Keynes var ásamt trú hans á raunsæja efnahagsstefnu sem leggur áherslu á stöðugleika og atvinnu fram yfir stífa hlýðni við úrelt kerfi. Gagnrýni hans í þessum verkum lagði grunn að mörgum hugmyndum hans síðar, sem höfðu mikil áhrif á efnahagsstefnu 20. aldarinnar.