Fyrri Indókínastyrjöldin var háð frá 1946 til 1954 á milli Frakklands og víetnömsku sjálfstæðishreyfingarinnar Việt Minh undir forystu Ho Chi Minh. Styrjöldinni lauk með því að Frakkar misstu stjórn í franska Indókína, nýlendum sínum þar sem nú eru ríkin Víetnam, Laos og Kambódía. Stríðið leiddi til þess að Víetnam var skipt í tvo hluta, sem leiddi nokkrum árum síðar til Víetnamstríðsins.
Bakgrunnur
Árið 1945 ákvað Frakkland að breyta nýlendum sínum í Indókína í ríkjasamband sem skyldi hafa sjálfstæði innan nýs fransks samveldis. Margir litu á þetta sem framlengingu á nýlendustjórn Frakka í heimshlutanum sem hafði verið við lýði frá níunda áratugi 19. aldar.
Þegar Japanir, sem höfðu hertekið hluta af franska Indókína, gáfust upp eftir seinni heimsstyrjöldina í ágúst 1945 leyfðu þeir þjóðernissinnuðum hreyfingum að taka yfir opinberar byggingar og fangelsa franska embættismenn í því skyni að skapa erfiðleika fyrir bandamenn eftir styrjöldina. Việt Minh og önnur þjóðernissamtök tóku þannig stjórn í mörgum bæjum og byggðum og mynduðu eigin stjórn þar sem Võ Nguyên Giáp varð innanríkisráðherra. Frakkar vildu hins vegar endurheimta stjórn í gömlum nýlendum sínum í Indókína. Í janúar 1946 drógu Bretar burt herlið sem þeir höfðu haft í landinu frá stríðslokum og síðar sama ár gerðu Kínverjar slíkt hið sama eftir vilyrði frá Frökkum um að þeir myndu láta af kröfum sínum um landsvæði í Kína.
Þegar Japanir höfðu sig á brott var upplausn eftir í Indókína sem Frakkar gátu ekki náð stjórn á. Víetnamski sjálfstæðisforinginn Hồ Chí Minh nýtti sér þetta ástand og lýsti yfir sjálfstæði Víetnams frá Frakklandi þann 2. september árið 1945. Hồ Chí Minh, sem hafði barist gegn japanska hernámsliðinu á stríðsárunum, hafði átt von á því að bandamenn styddu sjálfstæðisyfirlýsinguna. Eins árs samningaviðræður við Frakka skiluðu hins vegar engum árangri. Þann 23. nóvember 1946 gerðu Frakkar loftárásir á hafnarbæinn Haiphong í noðurhluta Víetnams og þann 19. desember sama ár tóku Frakkar yfir Hanoi.
Gangur stríðsins
Þegar Frakkar sendu herlið til Indókína nokkru síðar tókst þeim aðeins að ná stjórn í hluta landsins, sér í lagi í norðurhluta Víetnams. Frakkar náðu stjórn í stórborgunum og Việt Minh dró því hermenn sína út á hálendið til að há skæruhernað. Árið 1950 lýsti stjórn Harry S. Truman Bandaríkjaforseta yfir stuðningi við Frakkland í stríðinu, sem var fyrsta skref Bandaríkjamanna að hernaðarinngripi í Indókína.
Võ Nguyên Giáp átti fyrst um sinn erfitt með að stýra árásum gegn nýlenduher Frakka en staða víetnamskra sjálfstæðissinna batnaði mjög eftir að Maó Zedong vann sigur gegn Chiang Kai-shek í kínversku borgarastyrjöldinni árið 1949 þar sem Việt Minh gat þá komið sér upp öruggum bækistöðvum innan landamæra Kína.[26] Árið 1953 stjórnaði Việt Minh stórum hlutum af norðanverðu Víetnam en Frakkar viðhéldu stjórn í suðurhlutanum.[26]
Brátt varð ljóst að stríðið yrði langvinnt og mannfall Frakka færðist mjög í aukana. Á árunum 1946 til 1952 féllu um 90.000 franskir hermenn í valinn í stríðinu. Frakkar buðust þá til að viðurkenna sjálfstæði Víetnams en Việt Minh treystu ekki vilyrðum Frakka og stríðið hélt áfram.[26]
Mótmæli gegn stríðinu í Frakklandi
Í Frakklandi jókst mótstaða gegn stríðinu smám saman, einkum vegna fjögurra þátta:[26]
Mikils mannfalls;
Mikils kostnaðar, á sama tíma og endurbygging eftir seinni heimsstyrjöldina stóð enn yfir;
Skorts á skýrri sýn um það hvernig skyldi endanlega leyst úr átökunum;
Síaukinna efasemda innan Frakklands um að Frakkar hefðu neinn siðferðislegan rétt til að ráða yfir Indókína.
Diên Biên Phu
Í ljósi þróunar á almenningsáliti heima fyrir vildi franski herinn mæta Việt Minh í einni stórorrustu þar sem hægt væri að vinna fullnaðarsigur til að ljúka styrjöldinni. Í desember 1953 komu Frakkar sér upp herstöð við Diên Biên Phu til þess að loka birgðalínum Việt Minh í gegnum Laos.[26] Việt Minh hóf í kjölfarið 57 daga umsátur um herstöðina[27] með herafla alls staðar að úr Víetnam sem alls nam um 70.000 mönnum.[26] Umsátrið og stórskotaliðsárásir Víetnama stóðu þar til orrustan við Dien Bien Phu var háð þann 13. mars 1954. Orrustunni lauk með ósigri Frakka þann 7. maí 1954 þegar Christian de Castries varð að gefast upp eftir átta vikna umsátur.
Eftirmálar
Eftir Genfarráðstefnuna 1954 var Víetnam formlega skipt í tvo hluta og Frakkar drógu her sinn burt frá landinu.
Sigur Việt Minh gegn frönsku nýlendustjórninni var mikilvægur þáttur í afnýlendun á alþjóðavísu[27] þar sem þetta var fyrsti stóri sigur asískrar andspyrnuhreyfingar gegn nýlenduher í hefðbundnum hernaði. Þar með rauf sigurinn hugmyndina um að vestrænu nýlenduveldin væru ósigrandi.[27]
Tilvísanir
↑ 1,01,1Dalloz, Jacques (1987). La Guerre d'Indochine 1945–1954 [Indókínastríðið 1945–1954] (franska). Paris: Seuil. bls. 129–130, 206.