Borðtennisstefnan (kínverska: 乒乓外交 Pīngpāng wàijiāo) vísar til þess hvernig Alþýðulýðveldinu Kína tókst að bæta samskipti sín við Bandaríkin snemma á 8. áratug 20. aldar með því að nota íþróttir sem ísbrjót. Í kjölfar heimsmeistaramóts í Nagoya í Japan1971 buðu Kínverjar keppnisliði Bandaríkjanna í borðtennis að heimsækja Kína. Þetta varð fyrsta opinbera heimsókn bandarísks liðs til Kína frá 1949. Níu bandarískir leikmenn, fjórir aðstoðarmenn og tvær eiginkonur heimsóttu landið í apríl 1971.
Í kjölfarið á heimsókninni afléttu Bandaríkjamenn viðskiptabanni gegn Kína og árið eftir hófst vinna við að koma á stjórnmálasamstarfi ríkjanna. Richard Nixon Bandaríkjaforseti heimsótti Kína í febrúar 1972 ásamt utanríkisráðherranum Henry Kissinger. Í apríl sama ár heimsótti borðtennislið frá Kína Bandaríkin.