Mótmælin á Torgi hins himneska friðar, oft kölluð 4. júní-atvikið (六四事件) á meginlandi Kína, voru stúdentamótmæli sem áttu sér stað í Peking, höfuðborg Alþýðulýðveldisins Kína, árið 1989. Mótmælin voru kæfð niður eftir að Li Peng forsætisráðherra alþýðulýðveldisins lýsti yfir herlögum. Kínverskir hermenn vopnaðir sjálfvirkum rifflum og skriðdrekum skutu á mótmælendur sem reyndu að loka leið þeirra á Torg hins himneska friðar í hinum svokölluðu Tianamen-fjöldamorðum. Óvíst er hve margir létust en talningar á hinum dauðu hafa verið á bilinu 180 upp í 10.454.[1][2]
Þegar mótmælin brutust út var Kína að ganga í gegnum stórtækar og skyndilegar efnahags- og samfélagsbreytingar í kjölfar dauða Maó Zedong og mikil spenna ríkti meðal Kínverja um framtíð landsins. Efnahagsumbætur níunda áratugarins höfðu leitt til sköpunar markaðshagkerfis sem hagnaðist mörgum Kínverjum en var öðrum til miska. Jafnframt var farið að bera á gagnrýni á flokksræðikínverska kommúnistaflokksins. Fjölmargir Kínverjar kvörtuðu yfir verðbólgu, lélegum undirbúningi háskólanáms fyrir vinnu í nýja hagkerfinu og takmörkunum á þátttöku í stjórnmálum. Kínverskir stúdentar kröfðust lýðræðis, prentfrelsis og tjáningarfrelsis. Stúdentahreyfingarnar voru þó aðeins lauslega skipulagðar og markmið þeirra voru margbreytileg.[3][4] Á hápunkti mótmælanna safnaðist um ein milljón Kínverja saman á torginu.[5]
Mótmælin leiddu í ljós ágreining meðal kínverskra valdsmanna þar sem ekki voru allir sammála um það hvort rétt væri að leita sátta við mótmælendurna eða bæla mótmælin niður.[6] Í maí leiddi hungurverkfall stúdentanna til þess að stuðningur við mótmælin stórjókst og mótmælin breiddust út til um 400 borga. Deng Xiaoping, leiðtogi alþýðulýðveldisins, komst að endingu að þeirri niðurstöðu að mótmælin væru ógn við stjórnvöldin og ákvað að beita valdi til að kveða þau niður.[7][8] Ríkisráð alþýðulýðveldisins lýsti yfir herlögum þann 20. maí og sendi um 300.000 hermenn til Peking. Hermennirnir skutu á mótmælendurna með sjálfvirkum skotvopnum og drápu marga þeirra.
Kínversk stjórnvöld voru fordæmd víða um heim fyrir að beita ofbeldi gegn mótmælendunum. Vesturveldin beittu refsiaðgerðum og viðskiptabönnum á kínversk fyrirtæki og embættismenn.[9] Kínverska stjórnin brást við með því að hella sér yfir mótmælendurna og sakaði vesturveldin um að skipta sér að innanríkismálum Kína.[10][11][12] Kínversk stjórnvöld handtóku fjölda mótmælenda, bældu niður mótmæli víðs vegar um landið, ráku burt erlenda blaðamenn, ritskoðuðu umfjöllun um atburðina í innlendum fjölmiðlum, styrktu lögregluna og öryggissveitir innan landsins og hreinsuðu burt embættismenn sem grunaðir voru um samúð með mótmælendunum.[13] Hreinsanirnar sem fylgdu í kjölfar mótmælanna hægðu tímabundið á frjálslyndisvæðingu níunda áratugarins. Mótmælin mörkuðu tímamót í stjórnmálasögu Kína og settu greinileg mörk á tjáningarfrelsi um stjórnmál í landinu allt fram á 21. öld. Minningin um atburðina er nátengd gagnrýni á yfirráð kommúnistaflokksins í landinu og enn er umfjöllun um þá mjög viðkvæmt málefni sem er stranglega ritskoðað í Kína.[14][15]