Mótmælin á Torgi hins himneska friðar

39°54′12″N 116°23′30″A / 39.90333°N 116.39167°A / 39.90333; 116.39167

Mótmælendur á Torgi hins himneska friðar árið 1989.
Skriðdrekar í Peking í júlí 1989.

Mótmælin á Torgi hins himneska friðar, oft kölluð 4. júní-atvikið (六四事件) á meginlandi Kína, voru stúdentamótmæli sem áttu sér stað í Peking, höfuðborg Alþýðulýðveldisins Kína, árið 1989. Mótmælin voru kæfð niður eftir að Li Peng forsætisráðherra alþýðulýðveldisins lýsti yfir herlögum. Kínverskir hermenn vopnaðir sjálfvirkum rifflum og skriðdrekum skutu á mótmælendur sem reyndu að loka leið þeirra á Torg hins himneska friðar í hinum svokölluðu Tianamen-fjöldamorðum. Óvíst er hve margir létust en talningar á hinum dauðu hafa verið á bilinu 180 upp í 10.454.[1][2]

Þegar mótmælin brutust út var Kína að ganga í gegnum stórtækar og skyndilegar efnahags- og samfélagsbreytingar í kjölfar dauða Maó Zedong og mikil spenna ríkti meðal Kínverja um framtíð landsins. Efnahagsumbætur níunda áratugarins höfðu leitt til sköpunar markaðshagkerfis sem hagnaðist mörgum Kínverjum en var öðrum til miska. Jafnframt var farið að bera á gagnrýni á flokksræði kínverska kommúnistaflokksins. Fjölmargir Kínverjar kvörtuðu yfir verðbólgu, lélegum undirbúningi háskólanáms fyrir vinnu í nýja hagkerfinu og takmörkunum á þátttöku í stjórnmálum. Kínverskir stúdentar kröfðust lýðræðis, prentfrelsis og tjáningarfrelsis. Stúdentahreyfingarnar voru þó aðeins lauslega skipulagðar og markmið þeirra voru margbreytileg.[3][4] Á hápunkti mótmælanna safnaðist um ein milljón Kínverja saman á torginu.[5]

Mótmælin leiddu í ljós ágreining meðal kínverskra valdsmanna þar sem ekki voru allir sammála um það hvort rétt væri að leita sátta við mótmælendurna eða bæla mótmælin niður.[6] Í maí leiddi hungurverkfall stúdentanna til þess að stuðningur við mótmælin stórjókst og mótmælin breiddust út til um 400 borga. Deng Xiaoping, leiðtogi alþýðulýðveldisins, komst að endingu að þeirri niðurstöðu að mótmælin væru ógn við stjórnvöldin og ákvað að beita valdi til að kveða þau niður.[7][8] Ríkisráð alþýðulýðveldisins lýsti yfir herlögum þann 20. maí og sendi um 300.000 hermenn til Peking. Hermennirnir skutu á mótmælendurna með sjálfvirkum skotvopnum og drápu marga þeirra.

Kínversk stjórnvöld voru fordæmd víða um heim fyrir að beita ofbeldi gegn mótmælendunum. Vesturveldin beittu refsiaðgerðum og viðskiptabönnum á kínversk fyrirtæki og embættismenn.[9] Kínverska stjórnin brást við með því að hella sér yfir mótmælendurna og sakaði vesturveldin um að skipta sér að innanríkismálum Kína.[10][11][12] Kínversk stjórnvöld handtóku fjölda mótmælenda, bældu niður mótmæli víðs vegar um landið, ráku burt erlenda blaðamenn, ritskoðuðu umfjöllun um atburðina í innlendum fjölmiðlum, styrktu lögregluna og öryggissveitir innan landsins og hreinsuðu burt embættismenn sem grunaðir voru um samúð með mótmælendunum.[13] Hreinsanirnar sem fylgdu í kjölfar mótmælanna hægðu tímabundið á frjálslyndisvæðingu níunda áratugarins. Mótmælin mörkuðu tímamót í stjórnmálasögu Kína og settu greinileg mörk á tjáningarfrelsi um stjórnmál í landinu allt fram á 21. öld. Minningin um atburðina er nátengd gagnrýni á yfirráð kommúnistaflokksins í landinu og enn er umfjöllun um þá mjög viðkvæmt málefni sem er stranglega ritskoðað í Kína.[14][15]

Tenglar

  • Jón Egill Eyþórsson (24. apríl 2007). „Fyrir hverju var barist í stúdentamótmælunum á Torgi hins himneska friðar? Hvernig brást stjórnin við?“. Vísindavefurinn. Sótt 4. mars 2024.

Tilvísanir

  1. Cheng, Kris (21. desember 2017). „Declassified: Chinese official said at least 10,000 civilians died in 1989 Tiananmen massacre, documents show“. Hong Kong Free Press. Sótt 28. september 2018. Political chief of 38th Army Li Zhiyun and US Government documents, respectively
  2. Jan Wong, Red China Blues, Random House 1997, bls. 278.
  3. Nathan, Andrew J. (janúar-febrúar 2001). „The Tiananmen Papers“. Foreign Affairs. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. júlí 2004. Sótt 28. september 2018.
  4. Tiananmen Square, 1989: The Declassified History; George Washington University
  5. Dingxin Zhao. The Power of Tiananmen: State-Society Relations and the 1989 Beijing Student Movement. Chicago: University of Chicago Press, bls. 153
  6. Anthony Saich, The People's Movement: Perspective on Spring 1989 M.E. Sharpe 1990. bls. 172.
  7. Miles, James (2. júní 2009). „Tiananmen killings: Were the media right?“. BBC News. Sótt 28. september 2018.
  8. „Declassified British cable“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 5. janúar 2017. Sótt 6. janúar 2017.
  9. Clayton Dube, Talking Points, June 3–18, 2014
  10. „China slams U.S. over Tiananmen statement“. CNN. 4. júní 2012.
  11. Vogel, Ezra F. (2011). Deng Xiaoping and the Transformation of China. Belknap Press of Harvard University Press, bls. 634.
  12. „China tightens information controls for Tiananmen anniversary“. The Age. Ástralía. Agence France-Presse. 4. júní 2009. Sótt 28. september 2018.
  13. Miles, James (1997). The Legacy of Tiananmen: China in Disarray. University of Michigan Press, bls. 28.
  14. "The Consequences of Tiananmen", Andrew J. Nathan.
  15. Goodman, David S. G. (1994). Deng Xiaoping and the Chinese revolution. Psychology Press, bls. 112.