Ástæður þess að Able Archer 83 varð jafnafdrifarík og raun bar vitni voru margar. Ronald Reagan varð Bandaríkjaforseti 1981 og málflutningur hans gagnvart Sovétríkjunum var mun herskárri en fyrirrennara hans. Sama ár hleyptu leyniþjónusturnar KGB og GRURJAN-njósnaáætluninni af stokkunum sem fólst í því að reyna að komast að því hvort Bandaríkjamenn ætluðu sér að gera kjarnorkuárás. Á sama tíma hertu Bandaríkjamenn á vopnakapphlaupinu og stunduðu sálfræðihernað með því að senda kafbáta og flugvélar ítrekað inn á áhrifasvæði Sovétmanna. Auk þess var áætlað að koma fyrir meðaldrægum bandarískum Pershing II-kjarnaflaugum í Vestur-Þýskalandi 1983 sem Sovétmönnum stóð sérstök ógn af þar sem þeir töldu þær gefa vesturveldunum tækifæri til kjarnorkuárásar að fyrra bragði. Spennan milli risaveldanna jókst enn þegar farþegavélin Korean Airlines-flug 007 var skotin niður yfir Japanshafi í september.
Heræfingin sjálf fól í sér ýmsar nýjungar sem gerðu hana raunsærri en fyrri æfingar, eins og notkun dulkóðaðra samskiptaleiða, talstöðvarbann og þátttöku evrópskra stjórnarleiðtoga. Allt fékk þetta ýmsa háttsetta aðila í Sovétríkjunum til að álykta að æfingin væri í raun herbragð til að fela undirbúning fyrir kjarnorkuárás að fyrra bragði. Sovétmenn settu því kjarnorkuflaugar sínar og flugheri í Póllandi og Austur-Þýskalandi í viðbragðsstöðu. Ótti Sovétmanna við innrás tók enda þegar æfingunni lauk 11. nóvember.
Able Archer 83 myndar sögulegan bakgrunn þýsku sjónvarpsþáttaraðarinnar Þýskaland '83 frá 2015.