Frumbyggjar Alaska komu fyrst yfir Beringssund fyrir um 14.000 árum en þá var þar landbrú milli meginlandanna. Evrópuþjóðir fengu áhuga að nýta svæðið á 18. öld. Rússar námu þar land og rússneskir veiðimenn veiddu otra en skinn þeirra var verðmætt. Árið 1799 tók rússneskt verslunarfélag sér verslunarrétt á svæðinu. [2]. Bandaríkin keyptu síðan landið af Rússum fyrir $7,2 milljónir ($113 milljónir í dag) árið 1867.[3] Það var fyrir milligöngu William Seward, utanríkisráðherra BNA. Kaupin voru umdeild og talað var meðal annars um ísbox Sewards (Sewards icebox) og mistök Sewards (Sewards folly).
Árið 1898 kom upp gullæði í Alaska og fóru þúsundir þangað til að freista gæfunnar. Gullæðið gekk yfir á rúmlega 30 árum.
Í seinni heimstyrjöld hertóku Japanir 3 eyjar í Aljúteyjum við Vestur-Alaska. [4]
Árið 1959 varð Alaska 49. fylki Bandaríkjanna. Einn stærsti jarðskjálfti sem mælst hefur varð í Alaska árið 1964, 9,2 á Richter. Stór flóðbylgja fylgdi og olli skemmdum á vesturströnd Bandaríkjanna, á Hawaii og í Japan. 139 manns fórust. Á 7. og 8. áratugnum fundust stórar olíulindir í Alaska og í kjölfar þess var lögð olíuleiðsla þvert yfir fylkið, frá Norður-Íshafinu að Valdez á suðurströndinni, alls um 1200 kílómetra leið.
Landafræði og náttúrufar
Alaska er stærsta fylki Bandaríkjanna að flatarmáli en jafnframt fjórða fámennasta fylkið. Það er 1.723.337 km² að stærð en íbúar þess aðeins rúm 700 þúsund. Alaska liggur að kanadíska sjálfstjórnarsvæðinu Júkon og fylkinu Bresku Kólumbíu í austri, Alaskaflóa og Kyrrahafi í suðri, Beringshafi, Beringssundi og Tjúktahafi í vestri og Beauforthafi og Norður-Íshafi í norðri. Fjöldi eyja tilheyrir fylkinu og þar eru flest hæstu fjöll Bandaríkjanna. Kodiakeyjaklasinn er úti fyrir suðurströndinni og er þar Kodiakeyja stærst. Hæsta fjall Norður Ameríku, Denali (áður Mt. McKinley) rís nær 6200 metra yfir sjávarmál og er hluti af Alaska-fjallgarðinum sem spannar meira en 600 km í suðurhluta fylkisins. Fljótið Júkon rennur í gegnum Alaska frá austri til vesturs.
Jöklar þekja 41.440 km² svæði í fylkinu. Mýrar og freðmýrar þekja nálægt 487.000 km².
Tæplega 740.000 manns búa í Alaska (2020). Höfuðborgin er Juneau. Langflestir búa í borginni Anchorage eða um 290 þúsund manns. Eina borgin inni í landi er Fairbanks. Um 67% íbúa eru hvítir, 15% frumbyggjar, 5% asíubúar og 3% svartir. Í dag lifa íbúarnir aðallega á fiskveiðum, olíu- og jarðgasframleiðslu auk skógarhöggs.[8] Ferðaþjónusta er einnig mikilvæg.