1611-1620

2. áratugurinn: Uppreisn Nurhacis gegn Mingveldinu í Kína, umsátrið um Ósakakastala, upphaf Þrjátíu ára stríðsins, hirð Abbas mikla í Persíu, skírn Pocahontas.
Árþúsund: 2. árþúsundið
Öld: 16. öldin · 17. öldin · 18. öldin
Áratugir: 1591–1600 · 1601–1610 · 1611–1620 · 1621–1630 · 1631–1640
Ár: 1611 · 1612 · 1613 · 1614 · 1615 · 1616 · 1617 · 1618 · 1619 · 1620
Flokkar: Fædd · Dáin · Stofnað · Lagt niður
Ensk hefðarkona árið 1616 með blúnduermar og blúndukraga, hvorttveggja stífað með gulri línsterkju.

1611-1620 var annar áratugur 17. aldar sem er hluti af árnýöld í sögu Evrópu.

Á þessum áratug efldust margar evrópsku nýlendurnar í Norður-Ameríku og breyttust úr hokurbýlum í blómlegar byggðir. Á sama tíma hófst hið langvinna og mannskæða Þrjátíu ára stríð í Evrópu sem jók enn á aðdráttarafl nýlendnanna. Japan hóf að loka fyrir aðgang útlendinga að landinu og á Íslandi var einokunarverslun fest í sessi með upptöku samræmds verslunartaxta fyrir allt landið.

Atburðir og aldarfar

Málverk eftir hollenska málarann Hendrik Avercamp frá frostavetrinum 1615.

Lok Sengokutímabilsins í sögu Japans

Eftir sigur Tokugawa-ættarinnar í japönsku borgarastyrjöldinni sem markar endalok Sengokutímabilsins árið 1615 ákvað herstjórinn Tokugawa Hidetada að loka fyrir aðgang útlendinga að Japan nema í tveimur höfnum.

Uppreisn Mansjúmanna í Kína

Í Kína gerðu Mansjúmenn uppreisn gegn Mingveldinu og stofnuðu Seinna Jinveldið sem þeir töldu vera beint framhald af hinu mongólska Júanveldi.

Upphaf stórveldistíma Svíþjóðar

Svíþjóð átti í styrjöldum við Pólsk-litháíska samveldið og Rússland um landsvæði við Eystrasalt og eftir fremur brösulega byrjun lyktaði þeim með umtalsverðum landvinningum Svía undir stjórn nýs konungs, Gústafs 2.

Þrjátíu ára stríðið hefst

Þrjátíu ára stríðið hófst árið 1618 með því að stéttaþingin í Bæheimi neituðu að kjósa hinn óbilgjarna kaþólikka Ferdinand sem konung yfir sig og völdu þess í stað Friðrik 5. kjörfursta í Pfalz sem var kalvínisti. Uppreisnin í Bæheimi var barin niður af her keisarans og furstans af Bæjaralandi en ófriðurinn breiddist út enda snerist hann öðrum þræði um uppgjör milli mótmælendatrúar og kaþólskrar trúar í Evrópu og eins um völd Habsborgara á meginlandinu.

Vöxtur evrópskra nýlendna í Norður-Ameríku

Eftir mjög erfiða byrjun tók nýlendum Frakka og Englendinga í Nýja heiminum að vegna vel og efnahagslegur grundvöllur þeirra var lagður með útflutningi tóbaks frá Virginíu og skinnaútflutningi frá Québecborg. Árið 1620 kom svo skipið Mayflower með hóp pílagríma sem stofnuðu Plymouth-nýlenduna fyrir innan Þorskhöfða í núverandi Massachusetts.

Upphaf nornaveiða í Norður-Evrópu

Skipulegar nornaveiðar hófust í löndum mótmælenda og í Danmörku gaf Kristján 4. út konungsbréfið „Um töframál“ sem kvað á um að allur galdur (bæði svartigaldur og hvítigaldur) skyldi refsiverður. Bréfið var ekki lögtekið á Íslandi fyrr en mörgum árum síðar.

Einokunarverslun og hvalveiðar Baska við Ísland

Á Íslandi var einkaleyfi til verslunar tekið af kaupmönnum í Málmey, Kaupmannahöfn og Helsingjaeyri árið 1619 eftir að í ljós kom að þeir voru í reynd aðeins leppar Hamborgarkaupmanna sem einokuninni var stefnt gegn. Fyrsta íslenska verslunarfélagið í Kaupmannahöfn fékk þá einkaleyfið og tók upp samræmdan verslunartaxta fyrir allt landið. Það hélt síðan Íslandsversluninni til 1662. Í Vestmannaeyjum hertóku enskir „reyfarar“ danskt kaupskip og fóru ránshendi um eyjarnar í viku sumarið 1614.

Baskneskir hvalveiðimenn hófu að sækja til Íslands vegna minnkandi veiða á Nýfundnalandi. Þeir veiddu í Húnaflóa og áttu vinsamleg viðskipti við Strandamenn, samkvæmt Jóni lærða sem þá bjó á Ströndum og segir þá hafa komið þangað fyrst árið 1613. Eftir óvenjuharðan vetur árið 1615 þar sem hafís gekk meðal annars upp að Suðurnesjum brutu baskarnir skip sín í flóanum í óveðri um haustið og héldu þá á bátum vestur yfir Hornstrandir til að freista þess að komast á haffært skip. Hópur þeirra var drepinn í Æðey á Ísafjarðardjúpi í Spánverjavígunum.

Ráðamenn

Abbas mikli og hirð hans um 1611.
Kristján 4. á málverki frá 1611-1616.
1611 1612 1613 1614 1615 1616 1617 1618 1619 1620
Dalai Lama Yonten Gyatso (1589-1617) Ngawang Lobsang Gyatso (1617-1682)
Dansk-norska ríkið Kristján 4. (1596-1648)
England, Írland og Skotland Jakob 1. (1603-1625)
Eþíópía Susenyos (1608-1632)
Frakkland Loðvík 13. (1610-1643)
Heilaga rómverska ríkið Rúdolf 2. (1576-1611) Matthías keisari Ferdinand 2.
Holland Mórits af Nassá staðarhaldari (1585-1625)
Japan Go-Yōzei (1586-1611) Go-Mizunoo Japanskeisari (1611-1629)
Tokugawa Hidetada sjógun (1605-1623)
Krímkanatið Canibek Giray (1610-1623)
Marokkó Zidan Abu Maali (1603-1627)
Mingveldið Wanli keisari (1572-1620)
Síðara Jinveldið Nurhaci
Mógúlveldið Jahangir (1605-1627)
Ottómanaveldið Akmeð 1. (1603-1617) Mústafa 1. Ósman 2.
Páfi Páll 5. (1605-1621)
Pólsk-litháíska samveldið Sigmundur 3. Vasa (1587-1632)
Rússneska keisaradæmið Vladislás 4. Vasa Mikael Rómanov (1613 - 1645)
Safavídaríkið Abbas mikli (1589-1629)
Síam Si Saowaphak Songtham (1611-1628)
Spánn og Portúgal Filippus 3. Spánarkonungur (1598-1621)
Svíþjóð Karl hertogi (1599-1611) Gústaf 2. Vasa (1611-1632)