Á þessum áratug efldust margar evrópsku nýlendurnar í Norður-Ameríku og breyttust úr hokurbýlum í blómlegar byggðir. Á sama tíma hófst hið langvinna og mannskæða Þrjátíu ára stríð í Evrópu sem jók enn á aðdráttarafl nýlendnanna. Japan hóf að loka fyrir aðgang útlendinga að landinu og á Íslandi var einokunarverslun fest í sessi með upptöku samræmds verslunartaxta fyrir allt landið.
Þrjátíu ára stríðið hófst árið 1618 með því að stéttaþingin í Bæheimi neituðu að kjósa hinn óbilgjarna kaþólikka Ferdinand sem konung yfir sig og völdu þess í stað Friðrik 5. kjörfursta í Pfalz sem var kalvínisti. Uppreisnin í Bæheimi var barin niður af her keisarans og furstans af Bæjaralandi en ófriðurinn breiddist út enda snerist hann öðrum þræði um uppgjör milli mótmælendatrúar og kaþólskrar trúar í Evrópu og eins um völd Habsborgara á meginlandinu.
Skipulegar nornaveiðar hófust í löndum mótmælenda og í Danmörku gaf Kristján 4. út konungsbréfið „Um töframál“ sem kvað á um að allur galdur (bæði svartigaldur og hvítigaldur) skyldi refsiverður. Bréfið var ekki lögtekið á Íslandi fyrr en mörgum árum síðar.