Kristján 10.

Skjaldarmerki Lukkuborgarar Konungur Danmerkur og Íslands
Lukkuborgarar
Kristján 10.
Kristján X
Ríkisár 1912-1947 (Danmörku)
1918-1944 (Íslandi)
SkírnarnafnChristian Carl Frederik Albert
Alexander Vilhelm Glücksburg
KjörorðMin Gud, mit land, min ære.
Fæddur26. september 1870
 Charlottenlund-höll
Dáinn20. apríl 1947 (76 ára)
 Amalíuborg
GröfHróarskeldudómkirkja
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Friðrik 8.
Móðir Lovisa af Svíþjóð
DrottningAlexandrína af Mecklenburg-Schwerin (g. 1898)
Börn

Kristján X. (Christian Carl Frederik Albert Alexander Vilhelm af Glücksborg) (f. 26. september 1870, d. 20. apríl 1947) var konungur Danmerkur frá 1912 til 1947. Eftir að Ísland varð fullvalda ríki þann 1. desember 1918 var hann einnig konungur konungsríkisins Íslands. Eftir stofnun lýðveldis á Íslandi 1944 var hann einungis konungur Danmerkur. Hann var bróðir Karls Danaprins, sem varð Hákon VII. Noregskonungur 1905.

Kristján var hávaxinn og þótti mynduglegur, alvörugefinn og skyldurækinn. Hann lauk stúdentsprófi 1889 og var fyrstur Danakonunga til að hafa slíkt próf. Því næst þjónaði hann í hernum, í ýmsum herdeildum. Hann varð krónprins 1906 þegar faðir hans, Friðrik VIII., varð konungur, og var sjálfur krýndur konungur að föður sínum látnum, árið 1912.

Kristján þótti nokkuð stjórnlyndur og upptekinn af virðingu konungdæmisins, og var því kannski ólíklegur til vinsælda á tímum lýðræðisvakningar í Evrópu. Hins vegar ávann hann sér djúpa virðingu þegna sinna og annarra með táknrænni forystu í báðum heimsstyrjöldunum og hafa fáir Danakonungar verið jafnvinsælir.

Fyrri heimsstyrjöld

Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914, átti Kristján fund með Hákoni Noregskonungi (bróður sínum) og Gústaf V. Svíakonungi (náfrænda móður þeirra) og ákváðu þeir að halda Norðurlöndunum utan við ófriðinn.

Árið 1915 var stjórnarskrá Danmerkur breytt og konum (og vinnuhjúum) veittur kosningaréttur. Við það tækifæri gengu um 20.000 manns, að miklu leyti konur, á fund hans til að votta honum þakklæti sitt. Varð honum þá að orði: „Á einum stað eru konurnar ómissandi og það er á heimilunum. Þar kemur ekkert í staðinn fyrir áhrif konunnar, því í gegn um ást barnsins til heimilisins vaknar ástin til vors sameiginlega heimilis, Danmerkur.“

Þann 1. desember 1918 varð Ísland fullvalda ríki. Kristján var áfram konungur þess, og frá 1918 til 1944 bar hann titilinn „Konungur Íslands og Danmerkur“ á Íslandi, en konungur Danmerkur og Íslands í Danmörku.

Eftir að fyrri heimsstyrjöld lauk með ósigri Þjóðverja og bandamanna þeirra voru landamæri í Evrópu víða dregin upp á nýtt. Prússar og Austurríkismenn höfðu hertekið Slésvík, Holtsetaland og Suður-Jótland í Öðru Jótlandsstríðinu árið 1864 og þau lönd síðan tilheyrt Prússum, en svo Þýska keisaraveldinu eftir sameiningu Þýskalands. Í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 14. mars 1920 samþykktu Suður-Jótar og Norður-Slésvíkingar að lönd þeirra skyldu heyra undir Danmörku og þann 10. júlí sama ár reið Kristján yfir landamærin á hvítum hesti og var hylltur þar sem konungur.

Stuttu eftir styrjöldina komst Kristján í kast við forsætisráðherra sinn, Carl Theodor Zahle[1] vegna ágreinings um hvernig skyldi staðið að innlimun Dana á Slésvík. Kristján og margir danskir þjóðernissinnar vildu innlima borgina Flensborg án tillits til atkvæðagreiðslunnar sem haldin var í borginni en Zahle vildi virða atkvæðagreiðslurnar og leyfa miðhluta Slésvíkur, þar á meðal Flensborg, að vera áfram þýskur. Að endingu leysti Kristján Zahle frá störfum og skipaði íhaldssama starfsstjórn undir forsæti Otto Liebe. Þessi afskipti Kristjáns af stjórn ríkisins voru mjög umdeild og leiddu til páskakreppunnar árið 1920. Róttæklingar og jafnaðarmenn litu á afskipti konungsins sem stjórnarskrárbrot og líktu þeim jafnvel við valdarán.[2] Talið er að danska konungdæmið hafi aldrei staðið eins höllum fæti og þessa viku.[2] Til þess að forðast að vera settur af með valdi neyddist Kristján til þess að samþykkja að stjórn Liebe færi frá, þingið yrði kallað saman á ný, þrátt fyrir boðað þingrof, og ný kosningalög samþykkt. Páskakreppan boðaði tímamót í sögu dönsku krúnunnar því þetta var í síðasta sinn sem danskur einvaldur skipti sér með beinum hætti af stjórn landsins án stuðnings þingsins og borgaralegra stjórnvalda. Kristján neyddist upp frá þessu til að sætta sig við að vera eingöngu táknrænn þjóðhöfðingi.

Kristján kom nokkrum sinnum til Íslands, meðal annars á Alþingishátíðina 1930. Sagt er að hann hafi kallað Jónas frá Hriflu „den lille Mussolini“ þegar þeir hittust á Steinbryggjunni í Reykjavík við komu Kristjáns sumarið 1930.[3]

Síðari heimsstyrjöld

Á hernámsárunum varð Kristján sterkt tákn sameiningar og sjálfstæðis Danmerkur. Hér sést hann ríða um Kaupmannahöfn á afmælisdegi sínum árið 1940.

Þann 9. apríl 1940 varð Kristján konungur enn á ný miðpunktur athyglinnar, er Þjóðverjar hertóku Danmörku. Hann skoraði á þegna sína að sýna þolgæði og æðruleysi gagnvart Þjóðverjunum, en sjálfur reið hann hesti sínum daglega um götur Kaupmannahafnar og jók þannig þegnum sínum kjark með því að sýna þeim að hann væri enn óbugaður og á meðal þeirra, öfugt við ýmsa konunga sem flúðu hernumin lönd sín. Það vakti athygli að hann reið einn, án lífvarða. Sagt er að eitt sinn hafi þýskur hermaður sagt dönskum smástrák að honum fyndist það skrítið. Strákurinn hafi svarað: „Öll Danmörk er lífvörður hans.“

Árið 1942 átti Kristján 72 ára afmæli, og fékk heillaóskaskeyti frá Adolf Hitler. Hann lét sér fátt um finnast, og sendi stuttaralegt svarskeyti: „Bestu þakkir. Kristján konungur“. Hitler varð bálreiður, og Þjóðverjar neyddu Dani til að setja nýja og þýsk-vænni ríkisstjórn. Sama ár féll Kristján af hestbaki og slasaðist. Hann náði sér aldrei almennilega eftir það, og Friðrik sonur hans og ríkisarfi tók meira og minna við stjórnartaumunum.

Árið 1944 stofnuðu Íslendingar lýðveldi. Þar sem Danmörk var hernumin var það umdeilt meðal Íslendinga að lýðveldisstofnuninni skyldi flýtt, og mæltist það auk þess misjafnlega fyrir meðal annarra ríkja. Kristjáni konungi sárnaði að ekki skyldi farið eftir samningum, en þann 17. júní, á Þingvallafundinum þar sem lýðveldið var stofnað, var lesið upp skeyti frá konungi, þar sem hann óskaði Lýðveldinu Íslandi gæfu og velfarnaðar. Þrátt fyrir að hafa þannig veitt íslenska lýðveldinu viðurkenningu sína hætti Kristján aldrei að kalla sjálfan sig konung Íslands og hélt nafni Íslands í konungsheiti sínu til dauðadags.[4]

Kristján X. andaðist þann 20. apríl 1947 í Amalíuborg. Hann var lagður til hinstu hvílu í kapellu Glücksborgarættarinnar í Hróarskeldudómkirkju. Sonur hans Friðrik tók við krúnunni sem Friðrik IX.

Tengt efni

Tilvísanir

  1. Niels Finn Christiansen, Bind 12. Klassesamfundet organiseres. 1900-1925, Gyldendal og Politikens Danmarkshistorie. 1991, bls. 291.
  2. 2,0 2,1 Helgi Bernódusson (1999). „Hafnargarðarnir og konungdæmið“. Fylkir. Sótt 24. nóvember 2018.
  3. Guðmundur Magnússon (6. janúar). „Kristján X. konungur, Jónas frá Hriflu og Mussolini“. skrifhus.is. Sótt 21. október 2024.
  4. Guðni Th. Jóhannesson (2016). Fyrstu forsetarnir. Sögufélag. bls. 73.


Fyrirrennari:
Friðrik 8.
Konungur Danmerkur
(1912 – 1947)
Eftirmaður:
Friðrik 9.
Fyrirrennari:
Nýr titill
Konungur Íslands
(1918 – 1944)
Eftirmaður:
Sveinn Björnsson (ríkisstjóri)


Tenglar