Árið 2018 fundu leitarmenn stóran fjársjóð á eyjunni Rügen sem talinn er vera sjóður Haralds. [1]
Ævi
Óvíst er hvenær hann fæddist en Sveinn Ástríðarson sagði Adam af Brimum seinna að hann hefði verið konungur í 50 ár. Það er þó óvíst en hann gæti hafa verið konungur með föður sínum, sem dó líklega um 958, e.t.v frá því um 940. Árið 948 sendi þýski keisarinn Ottó 1. þrjá biskupa til Danmerkur til trúboðs og hefur það verið talið benda til þess að þá hafi Haraldur ráðið þar mestu, fremur en Gormur faðir hans, sem var mjög andsnúinn kristni. Haraldur var þó enn heiðinn þegar foreldrar hans dóu því hann lét gera yfir þau hauga að heiðnum sið. Líklega hefur hann tekið kristni fáum árum síðar því að Jalangurssteinninn er talinn reistur um 965 og þar er Haraldur sagður hafa lagt undir sig Danmörku alla og Noreg og kristnað Dani.
Raunar er hann sagður hafa verið þvingaður til þess af Ottó keisara að taka kristni en önnur sögn segir að hann hafi tekið kristni eftir að maður að nafni Poppo bar járn til að sanna að nýja trúin væri betri en sú gamla. Haraldur lét skírast ásamt fjölskyldu sinni, hélt trúna vel og stofnaði biskupssetur að Rípum, í Slésvík og Árósum.
Eftir að Eiríkur blóðöx Noregskonungur dó landflótta í Englandi954 leitaði Gunnhildur kona hans og synir þeirra á náðir Haraldar og var tekið vel á móti þeim. Haraldur veitti Eiríkssonum lið í baráttu þeirra við Hákon Aðalsteinsfóstra og eftir að hann féll um 961 settist Haraldur gráfeldur Eiríksson á konungsstól en var þó skattkonungur Haraldar. Um 970 sveik Haraldur blátönn svo nafna sinn, felldi hann og náði völdum í Noregi. Hann setti Hákon Sigurðarson Hlaðajarl yfir Noreg en hann sagði sig fljótt undan yfirráðum hans og greiddi engan skatt. Tilraunum Haraldar til að ná Noregi aftur lauk endanlega með orrustunni í Hjörungavogi986.
Adam frá Brimum segir að kona Haraldar hafi heitið Gunnhildur en á dönskum rúnasteini kemur fram að hann hafi verið kvæntur Tófu, dóttur Mistivojs fursta af Vindlandi. Börn hans voru Sveinn tjúguskegg Danakonungur, Hákon, Þyri, sem giftist Ólafi Tryggvasyni Noregskonungi, og Gunnhildur, sem giftist til Englands.
Haraldur varð gamall og síðustu árin snerist Sveinn sonur hans gegn honum og gerði uppreisn. Haraldur beið lægri hlut og var settur af. Hann særðist, flúði til Jómsborgar og dó þar skömmu síðar af sárum sínum. Lík hans var flutt til Danmerkur og lagt til hvílu í Hróarskeldudómkirkju, sem hann hafði sjálfur látið reisa.