Kristján 3.

Kristján 3. (1550)

Kristján 3. (12. ágúst 15031. janúar 1559) var konungur Danmerkur, Noregs og Íslands frá 1534 til dauðadags. Í konungstíð hans urðu siðaskipti í ríkjunum.

Kristján var elsti sonur Friðriks 1. og konu hans, Önnu af Brandenborg, og ólst upp sem hertogasonur í Gottorp. Hann var á ferðalagi í Þýskalandi 1521, var viðstaddur þingið í Worms og hreifst þar mjög af Marteini Lúther og kenningum hans. Stuttu síðar var Kristján 2. frændi hans settur af sem konungur Danmerkur og Friðrik 1. tók við. Þegar Friðrik dó vorið 1533 vildi ríkisráðið fyrst í stað ekki velja Kristján son hans sem konung vegna trúarskoðana hans og var Danmörk án konungs í heilt ár. Margir vildu fá Kristján 2. sem bjó í útlegð í Hollandi aftur á konungsstól. Eftir að Lýbikumenn réðust á Danmörku 1534 valdi aðallinn Kristján 3. sem konung en þó var aðeins Jótland á valdi hans; Sjáland og Skánn, Kaupmannahöfn og Málmey studdu Kristján 2. Hófst þá Greifastríðið svokallaða, sem um síðir lauk með sigri Kristjáns 3. og stuðningsmanna hans árið 1536.

Kristján lét verða eitt sitt fyrsta verk að handtaka biskupa og gera kirkjugóss upptækt, enda þurfti hann á eignum kirkjunnar að halda til að greiða málaliðum sínum laun. Opinber dagsetning siðaskiptanna er 30. október 1536 en Lútherstrú var þá þegar orðin mjög útbreidd í Danmörku og siðbreytingin gekk friðsamlega fyrir sig. Munkar og nunnur fengu yfirleitt að sitja áfram í klaustrunum til æviloka. Sömu sögu var að segja um Noreg. Konungur sendi þó herflokk til Íslands skömmu eftir að Gissur Einarsson var kjörinn fyrsti lútherski biskupinn í Skálholtsbiskupsdæmi en gerði árum saman ekkert til að koma á siðaskiptum í Hólabiskupsdæmi og átti raunar í ýmsum samskiptum við Jón Arason, sem þá var eini kaþólski biskupinn sem eftir var á Norðurlöndum. Þó fór svo að konungur sendi skip og hermenn til landsins 1551 en þá hafði Jón biskup þegar verið tekinn af lífi.

Kristján 3. lést á nýársdag 1559 og er legstaður hans í Hróarskeldudómkirkju. Kona hans var Dóróthea af Saxlandi-Láinborg og elsti sonur þeirra var Friðrik 2.


Fyrirrennari:
Friðrik 1.
Konungur Danmerkur
(1534 – 1559)
Eftirmaður:
Friðrik 2.


Heimild