Wright, sem lauk ekki háskólanámi, var kosinn á ríkisþing Texas árið 1947. Árið 1950 var hann kjörinn borgarstjóri Weatherford, Texas. Árið 1954 var Wright kjörinn á Bandaríkjaþing sem fulltrúi 12. kjördæmis Texas, en kjördæmið náði bæði yfir Weatherford og Fort Worth. Næstu áratugi reis Wright til metorða innan demokrataflokksins og varð einn áhrifamesti meðlimur fulltrúadeildarinnar. Árið 1977 var Wright gerður að þingflokksformanni Demókrataflokksins. Hann gegndi því embætti til 1987 þegar hann var kjörinn forseti fulltrúadeildarinnar.
Wright sagði af sér sem forseti fulltrúadeildarinnar 6. júní 1989 og þingmennsku 30. júní 1989 í kjölfar þess að ásakanir um spillingarmál tengd honum komust í hámæli. Þingið hafði í upphafi árs 1989 birt niðurstöður rannsóknar sem sýndu að Wright hafði farið á svig við reglur þingsins um hámarksþóknanir fyrir fyrirlestra. Ásakanirnar á hendur Wright voru fyrst settar fram af Newt Gingrich og léku mikilvægt hlutverk í því að auka hróður Gingrich.
Uppljóstranir á spillingu Wright og afsögn hans léku einnig mikilvægt hlutverk í því að skapa þá ímynd sem varð ráðandi í lok níunda áratugarins og upphafi þess tíunda að þingmeirihluti demokrata væri spilltur. Stuðningsmenn Wright héldu því hins vegar fram að hann hafi verið neyddur til að segja af sér vegna harðrar gagnrýni hans á aðgerðir bandarísku leyniþjónustunnar CIA í Nicaragua.