Einar Baldvin Olgeirsson (14. ágúst1902 – 3. febrúar1993) var sonur Olgeirs Júlíussonar bakara og Solveigar Gísladóttur. Einar var stjórnmálamaður og var m.a. þingmaður Reykvíkinga. Hann var einn umdeildasti og um leið einhver áhrifamesti stjórnmálamaður síðustu aldar á Íslandi. Hann var annálaður mælskumaður og átti mikinn þátt í að fylgi sósíalista var lengi mun meira á Íslandi en í nágrannalöndunum. Einar kynntist kenningum marxista á námsárum sínum í Þýskalandi og var tryggur þeim kenningum alla sína stjórnmálatíð. En hann var um leið bæði mikill þjóðfrelsismaður og sá nauðsyn þess að vinna náið með öðrum stjórnmálaöflum. Átti Einar mestan þátt í sameiningu sósíalista og vinstri jafnaðarmanna í Sósíalistaflokknum á sínum tíma og seinna í Alþýðubandalaginu. Nýsköpunarstjórnin svo nefnda var einnig að miklu verk Einars. Þetta féll ekki alltaf í góða jörð hjá harðlínumönnum í röðum kommúnista og sósíalista, m.a. stóð til að reka Einar úr Kommúnistaflokknum fyrir „hægrivillu“ í upphafi fjórða áratugarins.
Fjölskylda
Einar kvæntist Sigríði Þorvarðsdóttur (fædd 31. júlí 1903, dáin 4. desember 1994). Þau áttu saman börnin Solveigu Kristínu (fædd 1939) og Ólaf Rafn (fæddan 1943).