Christian Gyldencrone, Güldencrone eða Gyldenkrone (1676 – 10. mars 1746), á Íslandi stundum nefndur Kristján Gullinkrúna, var danskur aðalsmaður og embættismaður sem var stiftamtmaður á Íslandi 1728 – 1730 en kom aldrei til landsins.
Hann var sonur Vilhelms Marselis, sem var Hollendingur sem kom ungur til Danmerkur, var aðlaður í lok 17. aldar og tók sér þá ættarnafnið Güldencrone, og konu hans Regitse Sophie Vind. Faðir Christians dó þegar hann var barn að aldri og móðir hans giftist aftur hinum þekkta diplómata og embættismanni Jens Juel, sem var einn af áhrifamestu ráðgjöfum Kristjáns 5. Danakonungs.
Christian Gyldencrone ferðaðist um Evrópu á árunum 1694 – 1697 og heimsótti þá Holland, Þýskaland, Frakkland, Ítalíu, Pólland og Svíþjóð og er til frásögn af ferðalögum hans. Hann fékk konferensráðstign 1717 og varð stjórnardeildarforstjóri (deputeret) sama ár. Hann var skipaður stiftamtmaður á Íslandi 2. júlí 1728 og ári síðar var hann gerður að leyndarráði en árið 1730 varð hann stiftamtmaður í Viborg og amtmaður í Halds-amti. Þeim embættum gegndi hann til 1744, þegar sonur hans tók við. Hann lést svo tveimur árum síðar.
Kona hans var Margrethe Amalie Moth (1683 – 3. febrúar 1755) og giftust þau 1699.
Heimildir